Ríkisstjórnin hefur gefið út metnaðarfullar yfirlýsingar í loftslagsmálum. Við höfum fyrir löngu spilað út okkar helsta trompi; orkuframleiðsla á Íslandi er að langmestu leyti sjálfbær. Við þurfum því að takast á við flóknar áskoranir til að draga úr losun. Í því liggja hins vegar jafnframt tækifæri því við munum þurfa að skapa og vinna með lausnir sem önnur ríki þurfa hugsanlega ekki að leggja jafn ríka áherslu á næstu ár.

Haldi menn rétt á spilunum geta Íslendingar orðið nk. fyrirmyndarríki og slík ásýnd eykur seljanleika vöru og þjónustu frá Íslandi. Snemmbærar fjárfestingar í losunarsamdrætti draga úr framtíðaráhættu vegna kostnaðarhækkana. Undir þessum kringumstæðum þurfa bæði stjórnvöld og einkaaðilar að koma auga á tækifærin og nýta þau til hins ýtrasta.

Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar tengjast skuldbindingum á vettvangi Parísarsamkomulagsins. Efasemdum hefur verið lýst um niðurstöður loftslagsráðstefnu SÞ árið 2015. Um þessar mundir hafa komið fram upplýsingar sem sýna að losun koltvísýrings heldur áfram að aukast þrátt fyrir tilvist samkomulagsins. Margir eru þó þeirrar skoðunar að árangur ráðstefnunnar sé meiri en menn gátu vonast eftir. Þeim fer einnig fjölgandi sem telja að það hefði verið æskilegt að ganga mun lengra en gert var. Hvað sem öðru líður er ljóst að árangurinn er m.a. háður því hvernig aðilar Parísarsamkomulagsins haga sér næstu missiri og ár.

Vísbendingar eru um að Parísarsamkomulagið hafi hið minnsta vakið menn til umhugsunar og skapað baráttunni gegn hlýnun jarðar nýjan farveg. Þó að með samkomulaginu hafi aðildarríkin sett sér töluleg markmið verður árangur a.m.k. fyrst um sinn helst mældur í skilgreindum aðgerðum sem aðildarríkin boða. Aðilar samkomulagsins hafa verið meðvitaðir um að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og því er aðildarríkjunum gert að endurmeta gerðar áætlanir á fimm ára fresti auk þess sem upplýsingagjöf og eftirlit verður gegnsærra en áður hefur tíðkast. Líkur eru á að samanburður verði í því ljósi einfaldari og aðgengilegri.

Óhjákvæmilega krefst metnaður í loftslagsmálum þess að áætlanir einstakra ríkja séu skjótvirkar. Fjölmörg ríki stefna að góðum árangri hverjar svo sem heimturnar verða. Ætla verður að þær aðgerðir sem ráðist verður í muni með einhverjum hætti kalla á breytta hegðun fyrirtækja og einstaklinga.

Virðismat fyrirtækja er m.a. háð þróun rekstrarkostnaðar. Stjórnendur fyrirtækja sem standa í virkri samkeppni hafa það viðvarandi verkefni að lækka slíkan kostnað m.a. með upptöku nýrra rekstraraðferða og nýrra tæknilausna.

Til dæmis standa stjórnendur fyrirtækja sem reiða sig á notkun ökutækja frammi fyrir því að leggja mat á rekstrarkostnað þeirra yfir áætlaðan notkunar- eða líftíma. Efnahagslegir hvatar til orkuskipta í samgöngum eiga að stuðla að því að matið verði nýorkuökutækjum hagfellt. Ábati fyrirtækjanna gefur til kynna það verð sem fyrirtækið greiðir beinlínis fyrir losun. Til viðbótar kann að koma sá ábáti sem hlýst af góðu orðspori.

Kostnaður við losun í fluggeiranum endurspeglast í kostnaði vegna kaupa á ETS losunarheimildum og sama á við um önnur fyrirtæki sem eru háð slíkum kaupum. Flugfélög draga m.a. úr rekstrarkostnaði með því að draga úr eldsneytisnotkun. Verðið sem þau greiða fyrir losun endurspeglast í rekstrarhagræðinu sem þau ná fram annars vegar með minni eldsneytiskaupum og hins vegar sparnaði vegna minni þarfar fyrir losunarheimildir. Í mörgum tilvikum er losunarkostnaður hins vegar óljós til skemmri og lengri tíma litið enda eru loftslagsaðgerðir stjórnvalda enn í mörgu tilliti ófullburða. Þetta á t.d. við í tilviki margra fyrirtæki í orkuiðnaði.

Þessi fyrirtæki standa þannig frammi fyrir nokkrum vanda annars vegar þegar þau vinna rekstraráætlanir og hins vegar þegar þau taka ákvarðanir um fjárfestingar sem eiga að nýtast í meðallangan eða langan tíma. Ákveðin hætta er á að loftslagskostnaður verði þar með látinn liggja á milli hluta. Sterkar líkur eru á að þær aðgerðir sem ráðist verður í því skyni að draga úr losun í starfsemi fyrirtækja muni til framtíðar litið hafa áhrif á afkomu og eignaverð. Skyndilegar loftslagsaðgerðir geta því haft veruleg áhrif á horfur í rekstri fyrirtækja auk þess sem verðlækkun eigna kann að draga úr lánshæfi. Skyndileg áhrif loftslagsaðgerða geta því haft leitt til lakari efnahags- og fjármálastöðugleika.

Í framangreindu ljósi er nauðsynlegt að tryggja að stjórnendur og fjárfestar hafi tök á að taka tillit til loftslagsáhættu. Öðrum kosti geta þeir ekki baktryggt fyrir mögulegum áföllum. Óvissan kann þannig að leiða til lakari viðskiptakjara fyrirtækjanna. Skilvirk loftslagsstefna er helsta tækið sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr loftslagsáhættu. Verði of seint í taumana gripið er hætt við að samfélagslegur kostnaður aukist. Því meira sem það dregst að stefnan liggi fyrir því meira eykst hættan á harðri aðlögun. Liggi loftslagsstefna fyrir snemma þannig að unnt verði að grípa til aðgerða fyrr en ella eykst hagkvæmni og fyrirsjáanleiki. Það kemur öllum til góða.

Markaðstengd stjórntæki hafa þótt ákjósanlegur kostur í loftslagsmálum. Með þeim er leitast við að fella kostnað vegna losunar inn í beinan kostnað við framleiðslu eða þjónustu sem veldur losun. Samfélagsleg áhrif losunar eru m.ö.o. verðlögð og sá sem losar ber þannig fjárhagslega ábyrgð á henni sem aftur endurspeglast í verði sem kaupendur vara og þjónustu greiða.

Með þessu móti er skapaður fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki og neytendur til að velja loftslagsvænar lausnir. Þá aukast  líkur á að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem skila mestum árangri. Stjórntækin geta því dregið úr heildarkostnaði mótvægisaðgerða, stýrt fjármagni í loftslagsvænar tækninýjungar og stuðlað að því að ríkisstjórnin standi við metnaðarfullar yfirlýsingar. Þegar horft er til þess hve mikil áhrif loftslagsbreytingar geta haft á samfélagið er ljóst að stjórntækin eru gríðarlega mikilvæg.

Eitt af mikilvægustu verkefnum fjármálamarkaðarins er að meta áhættu. Svo unnt sé að leggja raunhæft mat á loftslagsáhættu þurfa bestu mögulegu upplýsingar að liggja fyrir. Tilvist slíkra upplýsinga er því veruleg forsenda réttra ákvarðana. Án þeirra ríkir óvissa um kostnaðaráhrif losunaraukningar eða -samdráttar á rekstur og eignir. Þar með er hætt við að mat á félags- og efnahagslegri arðsemi verði skeikult. Engin eru betur í stakk búin til að veita upplýsingarnar en stjórnvöld.

Ingvar er aðalhagfræðingur og Benedikt lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu.