*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Andrea Róbertsdóttir
30. október 2020 10:31

Loftum út – Orkuskiptin í fundarherbergjunum

Framkvæmdastjóri FKA skrifar um jafnréttismál og hvetur fólk til að fylgjast með morgunfundi á netinu sem Félag kvenna í atvinnulífinu FKA og OR standa fyrir á mánudagsmorgun.

Frá viðburði á vegum FKA sem fram fór á síðasta ári. Vegna aðstæðna í samfélaginu fer viðburðurinn Loftum út - Orkuskiptin í fundarherbergjunum fram í gegnum netið.
Haraldur Guðjónsson

Jafnréttismál heit kartafla? 


Þau ykkar sem eruð með jafnréttismálin eins og heita kartöflu í ykkar umhverfi í leik og starfi þá skil ég ykkur. Góðu fréttirnar eru að það eru sérfræðingar í jafnréttismálum þarna úti sem geta auðveldlega hjálpað. Allir hafa eitthvað en enginn hefur allt. Ég kann jafnrétti en ég er til dæmis vonlaus í eldhúsinu, hrædd við salat en veit að ég get lært að elda. Ég fór nýverið í áskrift á salati og gaf fyrsta kassann sem ég fékk sendan heim í síðustu viku. Þegar ég fæ salatið sent heim í næstu viku þá ætla ég að vera búin að læra hvað ég á að gera við allt þetta framandi salat, spírur og græna gúmmilaði. En ég þarf að gefa mér tíma til þess og ég mun ná tökum á þessu en ég þarf að ætla mér það og gera það. Það er einmitt þannig með jafnréttið - Jafnrétti er ákvörðun.

 

Við eigum okkar þríeyki í jafnréttismálum

 

Við kunnum ekki allt og við verðum að berskjalda okkur er kemur að vankunnáttu í jafnréttismálum og fræðunum sem þar liggja að baki. Ef ykkur vantar pípara talið þá við pípara. Ef ykkur vantar hagfræðing talið við hagfræðing. En ef ykkur vantar kynjafræðing ekki tala við vegg. Félag kvenna í atvinnulífinu er í þjónustu við atvinnulífið til að ná áragri. Kynjafræði er síðan fag og við eigum okkar þríeyki í jafnréttismálum og sérþekkingin liggur inni víða. Þessari þekkingu verðum við að deila, eiga samtal, vera samstíga og búa til fjölbreytt teymi til að tækla stærstu áskoranir samtímans og skapa framtíð

 

Jafnréttið má alls ekki vera óhreyfð lagervara


Jafnréttið má alls ekki geyma sem óhreyfða lagervöru. Það er mikilvægt afl sem gefur og gefur, færir komandi kynslóðum jöfn tækifæri, afl sem er kurteist við náttúru og frelsandi tilfinning fyrir öll kyn. Það er algjörlega óviðunandi að hér á landi sé ekki farið að ákvæðum laga um kynjahlutföll í stjórnum félaga, að markmiðum laga um hlutfall kvenna í stjórnum félaga hafi ekki náðst og hvernig hallar á konur og hve viða vitlaust er gefið. Þetta eru dæmi um augljós verkefni svo ekki sé minnst á Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem er búið að skuldbinda okkur að ná sem þjóð. Þetta þurfum við að ræða og fá sannar jafnréttisstjörnur til að miðla hvernig best er að spyrna í botninn er kemur að jafnrétti.

 

Mikilvægt að efla jafnréttisvitund og gera jafnréttið notendavænna


Það er svo mikilvægt að vekja athygli á því sem vel er gert líka, læra af hvoru öðru og skapa umræðuhefð. Nákvæmlega þess vegna munu aðilar úr framlínu íslensks viðskiptalífs tylla sér við hringborð atvinnulífsins á mánudaginn. Loftum út - Orkuskiptin í fundarherbergjunum er yfirskrift morgunfundar á netinu sem Félag kvenna í atvinnulífinu FKA og OR standa fyrir á mánudagsmorgun. Þar ætlum við að miðla jafnréttisvinnu, ræða hugmyndir til að efla jafnréttisvitund og gera jafnréttið notendavænna. Skjáumst á mánudaginn!

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.