Eftir að ég skrifaði um þann vafa sem ríkir um lagastoð fyrir smásölu áfengis í Leifsstöðí Viðskiptablaðið 18. júní sl., að minnsta kosti fyrir núverandi fyrirkomulagi hennar, hefur Sigríður Á. Andersen þingmaður beint fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi um málið:
„Fyrirkomulag fríhafnarverslananna í Leifsstöð, þessara sem kallaðar eru brottfarar- og komuverslanir, sem áður voru reknar af íslenska ríkinu, hefur tekið breytingum þannig að nú eru þær reknar af þýsku fyrirtæki, af þýsku einkareknu fyrirtæki. Það rifjast upp fyrir mér hérna að árið 2016, þá var Isavia ekki öruggt um að lagaheimild væri fyrir smásölu áfengis í Leifsstöð. Fjármálaráðuneytið var þá ekki sammála því með vísan til tollalaga og alls kyns einhverra lögfræðifimleika í túlkun á þeim, og reyndar vísaði líka í breytingar á áfengislöggjöf sem hafði verið stuttu áður og leyfði sér einhvern veginn að gagnálykta frá þeirri breytingu. En þó var það þannig að fjármálaráðuneytið féllst á áhyggjur Isavia og studdi breytingu á tollalögum þannig að það var þá skýrt kveðið á um að heimilt sé að selja áfengi og tóbak í þeirri tollfrjálsri verslun sem þá var, sem þá var rekin af ríkinu. Tollalögin í rauninni gera bara ráð fyrir því að áfengissala sé stunduð af hálfu opinberra aðila í Leifsstöð. Þannig til dæmis gildir reglugerð fjármálaráðherra sem sett hefur verið með vísan til tollalaga aðeins um verslanir í opinberri eigu. Mig langar að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann telji þörf á að endurskoða löggjöf og reglur í þessum efnum og þá með það að markmiði að leyfa Íslendingum að sitja við sama borð og erlend stórfyrirtæki sem eru núna farin að reka hér áfengisverslun í Leifsstöð.“
Þetta er hnitmiðuð fyrirspurn og eðlileg, eins og í pottinn er búið, þótt ég taki ekki undir að heimild til áfengissölu í tollfrjálsri verslun sé sérlega skýr. Eldri áfengislög voru aftur á móti ótvíræð að þessu leyti. Eftir að pósitíft ákvæði um heimild tollfrjálsra verslana til sölu áfengis var fellt úr lögum 1998 verða lögskýringar að taka mið af einkasöluleyfi ÁTVR. Enginn efast um að ÁTVR megi selja áfengi í Leifsstöð eins og annars staðar á landinu. Því er ekki um lagalegt tómarúm að ræða sem þarf að fylla með lögfræðilegum æfingum. Rökleiðsla ráðuneytisins, sem þingmaðurinn líkir við fimleika, felst meðal annars í tilraun til að greina hver „vilji löggjafans“ hafi verið þegar lagaheimildin var felld brott úr lögum. Þannig reyna starfsmenn ráðuneytisins að meta hvort raunverulega hafi staðið til að fella heimildina niður. Þá er langt seilst, sérstaklega þegar ráðuneytið er í kjöraðstöðu til að laga til í löggjöfinni og hefur haft ítrekuð tækifæri til þess. Þessu til viðbótar verður ávallt að meta vilja löggjafans fyrst og fremst út frá hinum skráða og samþykkta lagatexta og, eins og í þessu tilviki, brottfalli lagaákvæða.
Með góðum vilja má álykta af tollalögum að opinberir aðilar geti selt áfengi í Leifsstöð með vissum skilyrðum. Sama verður ekki sagt um einkasölu einkaaðila.
Þingmaðurinn hefði getað spurt ráðherrann hvort hann teldi það hafa verið vilja löggjafans að einkavæða meira en 10 prósent heildaráfengissölu Íslands og láta hana erlendu einkareknu fyrirtæki í hendur. Þetta jafngildir sölu allra vínbúða ÁTVR norðanlands frá Hvammstanga austur á Raufarhöfn. Ég þykist fara nærri um svarið.
Fjármála- og efnahagsráðherrann svaraði fyrirspurninni efnislega þannig að ríkinu beri að úthluta takmörkuðum gæðum „á markaðsforsendum“ og að hann sé almennt þeirrar skoðunar „að einkaaðilar eigi að hafa umtalsvert frelsi þegar kemur að því að stýra því hvað [sé] selt í þeirra verslun“.
Svarið skilar auðu um það hvort ráðherra telji lagastoð fyrir þeim gerningi að afhenda einkaaðila þau takmörkuðu gæði sem felast í því að reka einkasölu áfengis í Leifsstöð, þvert á skýr ákvæði áfengislaga um einkarétt ÁTVR. Á hinn bóginn er mögulega svarað vangaveltum mínum í fyrri greininni frá 18. júní sl., um það hvernig ríkið hafi tryggt að 16. gr. EES-samningsins um einkasölur yrði virt, þar á meðal um jafnræði gagnvart birgjum og úrval í hillum. Látið var ógert að tryggja það!
Er nema von að spurt sé hvort einkavæðingarferlinu verði haldið áfram og að næst verði rekstur ÁTVR boðinn út, annað hvort í heild eða að hluta.
Höfundur er lögfræðingur.