*

mánudagur, 1. júní 2020
Týr
19. júlí 2018 16:57

Lögbrot á fyrsta fundi

Týr veltir fyrir sér kynlausum klósettum hjá Reykjavíkurborg og löghlýðni pírata.

Haraldur Guðjónsson

Píratinn Dóra Björt Guðjónsdóttir, nýr formaður Mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkur, hóf starf ráðsins með samþykkt um „ókyngreind salerni“ í ráðhúsi Reykjavíkur, sem Týr hafði í einfeldni sinni haldið að væru á forræði húsvarðar.

*** 

Svo kom hins vegar á daginn að samþykktin stangast á við gildandi lög um slík mál þar sem í reglugerð um húsnæði vinnustaða segir í 22. grein að á vinnustöðum, þar sem starfa fleiri en fimm karlar og fimm konur, skuli salerni og snyrting fyrir hvort kyn aðgreind. Vinnueftirlitið mun gera formlega athugasemd við samþykkt mannréttindaráðsins.

***

Eins og fleiri Píratar hefur Dóra Björt haft uppi mjög stór orð um siðspillingu annarra stjórnmálaflokka og sérstaklega að vanda þurfi vinnubrögð. Hún hefur jafnvel gengið svo langt að útiloka samstarf við flokk sem stór hluti þjóðarinnar styður jafnan í lýðræðislegum kosningum. Í viðtali við Viðskiptablaðið 17. maí síðastliðinn sagði Dóra Björt: „Einn flokkur hefur útilokað sig frá samstarfi við okkur með sínum vinnubrögðum og hegðun og það er Sjálfstæðisflokkurinn.“

***

 Ætla mætti að fólk á svo háum hesti myndi hið minnsta gæta að vinnubrögðum á sínum fyrsta fundi. Nei, Dóra Björt náði ekki að ljúka fyrsta fundinum án þess að samþykkja lögbrot.

***

Víkur þá að hegðun stjórnmálamannsins sem gerir svo ríkar kröfur til hegðunar annarra. Hver voru viðbrögð Íslands æðsta klósettvarðar við því að samþykkt ráðsins stangaðist á við lög í landinu? Baðst Dóra Björt afsökunar? Sýndi hún auðmýkt? Sagði hún kannski af sér? Nei, auðvitað ekkert af þessu. Kröfur Pírata til annarra stjórnmálamanna eiga vitaskuld ekki við þá sjálfa. Þær eiga bara við aðra og helst þegar píratar eru í stjórnarandstöðu.

***

Dóra Björt sagði einfaldlega að breyta þyrfti reglunum eða veita borginni undanþágu frá þeim.

***

 Ætli henni finnist kannski líka að breyta þurfi þeim lögum sem fulltrúar Pírata, Bjartar framtíðar og Samfylkingar brutu þegar borgarlögmaður var ráðinn? Eða hugsanlega er einfaldlegast að taka upp nýja stjórnarskrárgrein: „Nú brýtur pírati lög og skal þá breyta þeim.“

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.