Afskipti stjórnvalda af fjölmiðlun voru til umfjöllunar hér í liðinni viku, en miðað við frumkvæði menningarmálaráðherra um þau er líklegt að svo verði eitthvað áfram veturinn. Í fyrradag kvaddi Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins (og stofnandi Viðskiptablaðsins), sér hljóðs á Alþingi og vakti máls á einum anga íslensks fjölmiðlaumhverfis og óheilbrigðri framgöngu hins opinbera.

Hann benti á að Ríkisútvarpið (RÚV) færi ekki að lögum um sjálft sig, þar sem skýrt kæmi fram að því bæri að stofna dótturfélög um samkeppnisrekstur og skilja þannig alfarið á milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Það hefði í síðasta lagi átt að gerast 1. janúar síðastliðinn, en sú væri ekki raunin. Liðið sumar hefðu sjálfstæðir fjölmiðlar hins vegar mátt lifa við að Ríkisútvarpið þurrkaði upp auglýsingamarkaðinn athugasemdalaust, og nú væri RÚV komið í bullandi samkeppni við einkaaðila um útleigu tækja og myndvera.

Óli Björn sagði gott og blessað að þingheimur ræddi hvernig mætti efla starfsemi frjálsra fréttamiðla, líkt og ráðherra hefði lýst áhuga á, en spurði hvort ekki væri best að byrja á því að láta ríkisstofnanir fara almennt að lögum.

Undir þá fyrirspurn má taka heilshugar. Þessu verða Kári Jónasson, formaður stjórnar RÚV, og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri að svara undanbragðalaust, því þeirra er ábyrgðin á löghlýðni Ríkisútvarpsins. Og því þarf Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra einnig að svara, því hún ber hina pólitísku ábyrgð á stofnuninni. Allar vangaveltur um stuðning við frjálsa fjölmiðla eru á sandi byggðar meðan ríkisfjölmiðillinn fer ekki að sérlögum um sig og herjar á frjálsu miðlana eins og honum sýnist.

***

Í gær birtist forsíðufrétt Helga Vífils Júlíussonar í Fréttablaðinu, þar sem sagði frá því að Samkeppniseftirlitið væri með málefni Guðmundar Kristjánssonar í Brimi (nýlega Útgerðarfélagi Reykjavíkur) og HB Granda til rannsóknar, en vísað var til umfjöllunar í Markaðnum, viðskiptakálfi Fréttablaðsins. Þar sagði að eftirlitið hefði gert fjórar alvarlegar athugasemdir við viðskiptahætti Guðmundar, en ef frummat stofnunarinnar reyndist á rökum reist ræddi um „alvarleg brot“ á samkeppnislögum.

Guðmundur sendi af þessu tilefni frá sér tilkynningu, þar sem fréttinni var mótmælt, ekki væru lengur nema tvö atriði af fjórum til athugunar. Í lok tilkynningarinnar var svo vikið að því, án þess að það virtist tengjast neinu, að stjórnarformaður Torgs, útgáfu Fréttablaðsins, Einar Þór Sverrisson, væri jafnfram lögmaður meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum (VSV) og varaformaður þess félags, en Guðmundur hefur lengi eldað grátt silfur við þá.

Almannatengill Guðmundar hafði þetta einnig á opinberlega á orði og fannst einkennilegt að blaðið persónugerði málið og segði Guðmund „sakaðan um alvarlegt brot“, þegar ljóst væri að Samkeppnisstofnun fjallaði ekki um málefni einstaklinga og hefði sent frá sér tilkynningu snemma dags til að leiðrétta fréttina.

Já, jæja. Nú er auðvitað ekkert að því að fjölmiðlar „persónugeri“ fréttir eftir því sem ástæða er til; fjalli um fólk af holdi og blóði fremur en einhver óljós félög og kennitölur. Þegar menn af kalíberi Guðmundar Kristjánssonar eru aðaleigendurnir er annað nánast ómögulegt, vilji fjölmiðlar rækja skyldur sínar um upplýsingu almennings. Sömuleiðis er hæpið að tala um „leiðréttingu“ Samkeppniseftirlitsins, þegar það áréttaði aðeins, eins og Fréttablaðið hafði eftir Páli Gunnari Pálssyni forstjóra þess, að málið væri enn til rannsóknar. Það er auðvitað frétt.

En svo er hitt, þetta með stjórnarformann Torgs, tengsl hans við óvini Guðmundar og hin ósögðu orð um að það hafi haft áhrif á fréttaflutninginn. Vandinn er einmitt sá að Guðmundur setur enga beina ásökun fram. Vel mætti vera að Fréttablaðið hefði sagt ranga frétt, en hana mætti þá leiðrétta. Óbotnaður fyrripartur um stjórnarstörf lögmanns eru hins vegar dylgjur og þeim er ómögulegt að svara.

Fjölmiðlarýnir er raunar efins um að stjórnarformaðurinn reyni að hlutast til um fréttaflutning blaðsins, en svo er hitt, að Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins, er (líkt og Helgi Vífill) gamall samstarfsmaður héðan af Viðskiptablaðinu. Það að Hörður taki leiðbeiningu um fréttaflutning er fráleitt.

***

Hún var skrýtin fréttin, sem Jóhann Hlíðar Harðarson sagði í seinni sjónvarpsfréttum RÚV í fyrradag. Í miðjum fréttatíma kom hann með beina útsendingu (dýrt sport) af vettvangi, höfuðstöðvum Eflingar, þar sem hann ræddi drykklanga stund við verkalýðsforingjann Sólveigu Önnu Jónsdóttur um kjör rútubílstjóra (Á ruv.is birtist hún undir hinni ógildishlöðnu fyrirsögn „Hugur í hópferðabílstjórum“.)

Í kynningunni sagði að mjög fjölmennur fundur rútubílstjóra hefði farið þar fram, en hjálplegur myndatökumaðurinn beindi um leið vélinni að galtómum fundarsalnum. Það kom þó ekki mjög að sök, þar sem á meðan viðtalinu vatt fram, voru sýndar myndir sem höfðu verið teknar upp á fundinum og bekkurinn þéttsetnari. Það var samt ofmælt að fundurinn hefði verið mjög fjölmennur, um 30 voru í salnum.

Hitt var gagnrýnisverðara, hvernig formanni Eflingar var þarna gefið tækifæri til málflutnings, án þess að fá neinar gagnrýnar spurningar, sem gætu upplýst áhorfendur betur um efnið. Það hefði t.d. verið fróðlegt að fá álit formanns Eflingar á niðurstöðum könnunar um komandi kjaraviðræður, sem sagt var frá í fréttum fyrr um daginn. Þar kom fram að helmingur landsmanna væri hlynntur kjarasamningum þar sem meiri áhersla er lögð á stöðugt verðlag og minni áhersla á krónuhækkanir launa.

Samkvæmt könnuninni er stytting vinnutíma mikilvægasta málið í komandi kjaraviðræðum, en því næst koma hófstilltar launahækkanir. Ekki er vafi á að forysta Eflingar hefði á því skoðanir. Á móti kom að viðtalið hafði nokkurt skemmtanagildi, þegar kom að því að Sólveig Anna lýsti því hvernig hún og skjólstæðingar hennar hefðu bæði rogast með alla skattbyrðina og haldið uppi hagvextinum, án minnsta fyrirvara eða eftirgangs fréttamanns.

Megum við næst vænta hugvekju Halldórs Benjamíns í kvöldfréttum undir fyrirsögninni „Vonglaðir vinnuveitendur“?