*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
15. ágúst 2015 12:10

Lögverndaðir hagsmunir

Erfitt er að sjá að almannahagsmunir tengdir hársnyrtingu séu svo ríkir að það kalli á lögverndun starfsgreinarinnar.

european pressphoto agency

Hársnyrting, skrúðgarðyrkja og ljósmyndun eru starfsgreinar sem eiga það sameiginlegt að ekki er heimilt að hafa af þeim atvinnu án þess að fá til þess leyfi opinberra aðila að undangengnu námi. Það sama á við um tugi annarra starfsgreina sem hafa það sammerkt að þeir sem þær stunda eru í ákveðinni einokunaraðstöðu.

Takmarkanir á þátttöku fólks í ákveðnum atvinnugreinum eru iðulega varðar með vísun til almannahagsmuna og í sumum tilvikum er hægt að viðurkenna að slíkir almannahagsmunir séu til staðar. Hvort þeir kalli á inngrip hins opinbera með þessum hætti er hins vegar önnur saga. Sé illa staðið að frágangi raflagna í húsi getur það leitt til húsbruna eða annarra slysa á fólki. Eins er skiljanlegt að fólk vilji að læknar eigi að baki ákveðna menntun og hafi staðist próf.

Erfitt er hins vegar að sjá að almannahagsmunir tengdir hársnyrtingu séu svo ríkir að það kalli á lögverndun starfsgreinarinnar. Stórslys í klippingu eða hárlitun getur, eðli málsins samkvæmt, ekki haft nema yfirborðskenndar og tímabundnar afleiðingar. Sama má segja um garðyrkju og ljósmyndun. Komi fúskari þar að málum getur vissulega orðið tjón, en það er ekki óbætanlegt. Sá sem ber ábyrgðina á því að illa hefur farið ber jafnframt skaðabótaábyrgð samkvæmt skaðabótarétti.

Einu áhrif takmarkananna eru þau að takmarka samkeppni í viðkomandi atvinnugrein, reisa múra fyrir þá sem vilja stunda þessa iðju í atvinnuskyni og auka stofnkostnaðinn. Það er því eðlilegt að þeir sem nú þegar stunda lögverndaða atvinnustarfsemi vilji fyrir alla muni viðhalda núverandi ástandi. Að sumu leyti er afstaða þeirra skiljanleg. Þeir hafa sjálfir þurft að hoppa í gegnum alla þá sirkushringa sem lögin hafa sett upp til að komast á þann stað sem þeir eru nú staddir á. Eðlilega gremst þeim þegar opnað er á þann möguleika að fjarlægja hringana og opna starfsgreinina upp á gátt. Þeir hafa einnig fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ef hver sem er getur stundað atvinnugreinina er hætt við því að verð á viðkomandi þjónustu lækki verulega.

Stjórnvöld og almenningur verða hins vegar að meta það hvort skipti meira máli, fjárhagslegir hagsmunir þess minnihluta sem stundar viðkomandi atvinnugreinar eða almannahagsmunir tengdir því að minnka stofnkostnað, auka samkeppni og þar með lækka verð þeirrar þjónustu sem í boði er. Eins og áður segir halda þau rök ekki í mörgum tilfellum að verið sé að vernda almenning með lögverndun ákveðinna starfsgreina.

Verði lögverndin afnumin hvað ljósmyndun og hársnyrtingu varðar, svo dæmi séu tekin af handahófi, munu Íslendingar ekki vakna einn daginn upp við að algert stjórnleysi ríki í viðkomandi atvinnugreinum. Almenningur mun almennt vilja eiga viðskipti við reynda og trausta fagmenn.

Engin raunveruleg ástæða er hins vegar til að koma í veg fyrir að þeir sem vilji kaupi frekar ódýrari þjónustu af óreyndari aðilum.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is