Ilmurinn úr eldhúsi stjórnmálaflokkanna verður æ meira lokkandi eftir því sem nær dregur kosningum í haust. Vafalaust er flokkunum nokkur vandi á höndum hvernig haga skuli seglum eftir vindi kórónuveirunnar. Verkefnin sem veiran sú hefur sett okkur eru flókin og hverfa því miður ekki í bráð. Fróðlegt verður að sjá hvaða lausnir einstaka stjórnmálaflokkar munu hafa fram að færa. Sumt verður nýtt, annað notað.

Þekkt tillaga flokka til lausna ýmiss konar vandamálum er aðild að Evrópusambandinu. Sú vegferð var reynd eftir síðasta áfall árið 2008 og óþarfi að hafa fleiri orð um þá sneypulegu för. Sumt innan vébanda ESB er ágætt, annað síðra. Hvað málefni sjávarútvegs varðar, er óumdeilt að ríkisstyrkt stefna ESB er til muna lakari en sú stefna sem við Íslendingar höfum tileinkað okkur.

Hækkun skatta er önnur hugmynd sem einstaka stjórnmálaflokkar hafa sett fram til lausnar í efnahagsáföllum fyrri ára. Þar skortir sjaldnast hugmyndir og lífseig er sú um aukna skattheimtu í sjávarútvegi - hækkun veiðigjalds, uppboð, markaðsleið eða hverju nafni sem menn vilja gefa skattheimtunni. Aldrei virðist sjávarútvegur greiða nóg, þrátt fyrir að veiðigjald hafi á umliðnum árum að jafnaði verið áþekkt greiddum tekjuskatti sjávarútvegs.

Í hafsjó loforða um betra samfélag er mikilvægt að ólík stefnumál innan einstakra stjórnmálaflokka fari saman. Annað er ótrúverðugt. Það er til dæmis erfitt að skilja ef stjórnmálaflokkar hafa á stefnuskrá aðild að ESB og aukið auðlindagjald í sjávarútvegi. Þetta tvennt getur nefnilega ekki farið saman. Sjávarauðlind einstakra aðildarríkja ESB er á forræði sambandsins og gjaldtaka einstakra ríkja af þeirri auðlind er því ótæk. Eitt stefnumálið útilokar hitt. Vonandi huga stjórnmálaflokkar að þessu áður en stefnuskráin er sett í prentarann.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi