*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Höskuldur Marselíusarson
6. febrúar 2017 14:11

Loksins leiðinleg ríkisstjórn

Pistlahöfundur spyr hvort ekki sé kominn tími til að ríkisstjórnin eftirláti borgaralegu samfélag sviðsljósið og dragi sig út úr þjóðfélagsumræðunni.

Haraldur Guðjónsson

Vonir hljóta að standa til að ný ríkisstjórn verði sú allra leiðinlegasta í nútímasögu íslenska lýðveldisins, svona ef eitthvað er að marka umfjöllun um fyrstu embættisverk hennar.

Með sínum nauma meirihluta virðist hún helst ætla að einbeita sér að stórskemmtilegum málum með grípandi yfirskriftum eins og allsherjarfjármálaáætlunum fyrir allt kjörtímabilið og áframhaldandi grósku í alls kyns fjármála- og þjóðhagsráðum og -áætlunum sem horfi lengra til framtíðar en íslenskum stjórnmálamönnum hefur hingað til verið tamt.

Vænta má að þessum hrífandi málaflokki fylgi þó einhverjar smávægilegar umbætur sem breið sátt ætti að vera um í þjóðfélaginu. Má þar nefna sjálfsagða gjaldtöku á ferðamannastöðum til að ferðamennirnir taki þátt í því með okkur borgurum landsins að greiða fyrir viðhald þeirra.

Að móttaka flóttafólks, þá sérstaklega fjölskyldufólks, beint þaðan sem þörfin er mest, verði sett í forgang á undan þeim sem dúkka upp með tilheyrandi kostnaði í Leifsstöð án skilríkja frá löndum sem eru fyrst og fremst að glíma við fátækt.

Fólk sem í mörgum tilvikum gæti nýtt sér nú enn opnari lögformlegar leiðir til að flytja til landsins og starfa hér án þess að stífla hælisleitendakerfið af tilhæfulitlum umsóknum.

Loks gæti tilkoma Þorsteins Víglundssonar í Velferðarráðuneytinu verið einmitt það sem þurfi til að styrkja enn frekar starfsendurhæfingu þeirra sem hafa dottið út af vinnumarkaði.

Starfsemi eins og sú sem VIRK, ásamt Vinnumálastofnun og ýmsum borgaralegum samtökum, standa að til að hjálpa ónýttum mannauði þeirra sem hafa kannski stigið feilspor í lífinu eða vegna veikinda eða slysa hafa dottið út af vinnumarkaði, til að komast aftur þangað inn er ómetanleg.

Ríkisstjórnin virðist þó ekki ætla að gera nóg í því eina sem ætla mætti að væri hægt að treysta henni til að gera, það er að draga úr útgjöldum ríkisins.

Að mati Samtaka atvinnulífsins verður hlutfall ríkisskulda við lok núverandi langtímaáætlunar um fjármál ríkisins ennþá hærri en þau voru rétt fyrir hrun, þrátt fyrir lengsta hagvaxtartímabil Íslandssögunnar. Bentu samtökin á að óvíða í heiminum tæki ríkisvaldið jafnstóran hluta af þjóðarkökunni eins og hér til sín.

Er kannski kominn tími til að ríkisstjórnin verði jafnvel enn leiðinlegri og láti sig meira og minna hverfa úr þjóðfélagsumræðunni og eftirláti borgaralegu samfélagi einstaklinga, fyrirtækja og félagasamtaka sviðsljós fjölmiðlaumfjöllunar kjörtímabilsins?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.