*

laugardagur, 26. september 2020
Andrés Magnússon
20. janúar 2018 13:43

Lopinn teygður

Í viðtali Kristínar Sigurðardóttir við Björgu Thorarensen, lagaprófessor við HÍ, hefði átt að koma fram tengsl hennar við Hæstaréttardómara.

Hörður Kristjánsson

Sú saga er sögð af síra Sigurði Einarssyni í Holti, fréttastjóra Ríkisútvarpsins, að einhverju sinni í kringum 1940 hafi hann dvalið lengur við síðdegisdrykkju með Tómasi Guðmundssyni stórvini sínum en ætlað var. Fyrr en varði var komið að kvöldfréttatíma og fréttastjórinn, sem þá sá einn um að flytja landsmönnum tíðindi, allsendis óundirbúinn.

Hann komst með naumindum niður að Landssímahúsinu við Austurvöll í tæka tíð, upp á 4. hæð og inn í þularherbergi, öldungis fréttalaus, en hvorki tómhentur né ráðalaus. Svo hann kveikti á hljóðnemanum og segir: 

„Útvarp Reykjavík, gott kvöld! Innanlands er ekkert í fréttum í dag. Þá hefur loftskeytasamband við útlönd verið afar slæmt í dag og því eru engar erlendar fréttir heldur. Fréttastofunni hefur hins vegar borist Búnaðarblaðið Freyr og verður nú lesið úr því um stund.“ 

                                                 ***

Þessi saga frá upphafsárum Ríkisútvarpsins, sem hér er skrifuð eftir minni, rifjaðist upp um liðna helgi, þegar Hallgrímur Indriðason flutti afar nákvæma framhaldsfrétt um nautahjörð, sem bónda í Flóanum var gert að fella í sóttvarnaskyni af einu stjórnvaldi en bannað það af öðru, svo gripirnir hafa um margra mánaða skeið eigrað um í Limbó þar eystra meðan dómstólar og kansellíið hafa fjallað um það í mörgum bréfum og dómum. 

Þetta er ekki óáhugaverð frétt, hún snertir almannahagsmuni varðandi stjórnsýslu og sóttvarnir, atvinnulíf og dýravernd. Það verður heldur ekki annað séð en að Hallgrímur hafi unnið hana af kostgæfni og natni. 

Vandinn er sá að fréttin var svo nákvæm og löng, að hlustendum fyrirgafst þó þeir héldu að síra Sigurður væri enn að lesa upp úr Búnaðarblaðinu Frey! Það er þó ef til vill ekki sanngjarnt að segja, því fréttin hefði einnig verið í lengsta lagi í Frey.

Fjölmiðlarnir eru mismunandi og kalla á ólíkan fréttastíl, þar á meðal í lengd og umfangi. Ljósvakinn er tilvalinn til þess að flytja lifandi fréttir, brakandi nýjar og enn í deiglu. Dagblöð aftur betri til þess að loka málum, segja alla söguna, hliðarsögur ýmsar og bakgrunnsefni, jafnvel birta frumgögn þegar það á við. 

Um fyrrgreinda frétt úr Flóanum má segja að hún hafi nánast verið tæmd í kynningunni: 

Nautgripabóndi á Suðurlandi hefur verið tekjulaus í 9 mánuði frá því að Matvælastofnun bannaði honum að slátra nautum sem talið er að hafi komist í kjötmjöl. Atvinnuvegaráðuneytið úrskurðaði að farga ætti dýrunum en það hefur ekki enn verið gert. 

Mikið meira var nú eiginlega ekki um málið að segja, en samt voru nautin blóðmjólkuð í fréttum RÚV, því á eftir komu næst um þrjár mínútur af nánari lýsingum og viðtölum við bónda og dýralækni. Og síðan veikburða málsvörn hins opinbera nokkrum fréttatímum síðar. 

Það er rétt að ítreka að það er ekkert út á vinnslu fréttarinnar að setja, nema náttúrlega þetta að hún var alltof löng og ýtarleg fyrir aðalfréttatíma útvarps allra landsmanna, í almannaþágu o.s.frv. Hún var of mikið búnaðarblað, of mikill Freyr og of lengi lesið um stund. 

Þar með er auðvitað ekki sagt að lengri fréttir eigi ekkert erindi í útvarp; stundum þá kallar efnið beinlínis á það. En það átti ekki við hér. Aftur á móti hefði vel mátt gera stutta frétt um málið og flytja svo ýtarlegri fréttaskýringu síðar á dagskránni. Eða endurvekja bara hinn frábæra útvarpsþátt Spjallað við bændur. 

                                                 ***

Það er engan veginn eindæmi að fluttar séu of stórar fréttir af litlu tilefni. Það gerist á fleiri miðlum en Ríkisútvarpinu og það hendir oft í litlu landi, þar sem lítið gerist. Sjálfsagt er það einnig meira áberandi í útvarpi og sjónvarpi en í blöðunum, því í blöðunum flettir maður bara áfram, meðan masið heldur áfram að reyna á þolinmæði áheyrenda og áhorfenda ljósvakans. 

En þeim mun meiri ástæða er að gæta sérstaklega að því. Þegar ljósvakafréttir eru farnar að teygja sig yfir 1½ mínútu er sjálfsagt rétt að doka við og spyrja hvort fréttin standi undir svo langri umfjöllun. 

Kannski það segi sína sögu að maður verður frekar var við þetta um helgar, þegar minna er um að vera í fréttum, færri eru á vakt og fréttamiðlarir stóla meira á fréttir af erlendum vettvangi en aðra daga. 

Þannig mátti á dögunum heyra frétt um að konum í Saúdí-Arabíu hefði loks orðið heimilt að sækja fótboltaleiki í landinu. Sem vissulega er athyglisvert, en áður en varði var fréttin farin að teygja sig yfir gervalla jafnréttisbaráttu kvenna þar í barbaríinu, réttindum þeirra til þess að aka bíl og frjálsræðisstefnu Mohammads bin Salmans krónprins. Sem allt er vissulega einnig athyglisvert, en á tæplega heima sem almenn frétt af líðandi stund. 

Kannski RÚV ætti að taka aftur upp þætti á borð við Fréttaauka og Efst á baugi, fyrst Spegillinn og ámóta dagskrárliðir duga svo illa til. 

En kannski þetta sé bara spurning um fréttastefnu og fréttastjórn. Það er engin tilviljun að maður tekur mun meira eftir þessu í fréttum Ríkisútvarpsins en hjá 365, þar sem fréttastíllinn hefur frá upphafi verið mun snarpari og viðmið um tímalengd frétta eru knappari. 

                                                 ***

En þó stundum sé lopinn óhóflega teygður, þá er samt ekki alltaf allt sagt, sem segja þurfti. 

Skömmu eftir áramót var til dæmis töluvert fjallað um fyrirkomulag dómaraskipunar í Landsrétt, en menn eru sem kunnugt er ekki alveg á eitt sáttir um hana. Af því tilefni tók Kristín Sigurðardóttir viðtal við Björgu Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sem sagði slæmt að ágreiningur ríkti um hvernig velja ætti dómara og hafði ýmsar skoðanir á því, ekki síður pólitískar en fræðilegar. Sem má alveg. 

En þá hefði líka mátt koma fram að Björg er samstarfskona Eiríks Tómassonar og eiginkona Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, sem báðir komu eilítið við sögu í þessum deilum öllum. 

Eða nei, það þurfti eiginlega bráðnauðsynlega að koma fram. Fyrst verið var að taka viðtal við Beggu af þessu tilefni á annað borð. Sem hugsanlega var fullkomlega óviðeigandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.