*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Leiðari
18. ágúst 2016 11:11

Losun hafta

Einn helsti hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar, Stefán Ólafsson, segir að losun hafta sé ekki „í þágu almennings.“

Haraldur Guðjónsson

Mikilvæg skref verða stigin í átt að losun fjármagnshafta verði frumvarp fjármálaráðherra þar að lútandi að lögum á yfirstandandi þingi. Bein erlend fjárfesting innlendra aðila verður ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Þá verður fjárfesting í erlendum fjármálagerningum frjáls að ákveðinni upphæð, kaup á fasteignum erlendis rýmkuð til muna og dregið verður úr skilaskyldu á gjaldeyri.

Um næstu áramót verður enn frekar losað um höftin, en fjárhæðarmörk vegna fjárfestingar í erlendum fjármálagerningum verða þá hækkuð og innstæðuflutningur verður heimilaður. Þá verða heimildir einstaklinga til kaupa á gjaldeyri í reiðufé rýmkaðar verulega.

Flestum er fyrir löngu orðið ljóst að höftin verða líklega ekki afnumin á næstu árum eða áratugum í þeim skilningi að fjármagnsflutningar verði hér jafn frjálsir og fyrir upphaf fjármálakreppunnar 2008, en skrefin sem hér um ræðir eru í frelsisátt og þeim ber að fagna.

Eins og margoft hefur verið bent á eru skaðlegustu áhrif haftanna þau að hér er er læst inni fjármagn sem leitar ávöxtunar. Það hefur verið notað á eignamörkuðum, bæði verðbréfa- og fasteignamarkaði, og þótt blessunarlega séu ekki enn alvarleg merki um bólumyndun á þessum mörkuðum er sú hætta ávallt fyrir hendi. Því er mikilvægt að fjárfestar, ekki síst lífeyrissjóðirnir, geti fjárfest að vild erlendis.

Það er einnig mikilvægt til að ævisparnaður Íslendinga sé betur varinn fyrir sveiflum á íslenskum verðbréfamörkuðum, eins og sást berlega eftir fall bankanna 2008. En rökin fyrir losun hafta eru einnig siðferðisleg. Fólk á að hafa rétt á að verja fé sínu eins og það sjálft kýs að eins miklu marki og hægt er.

Það á ekki að vera hlutverk stjórnvalda að ákveða fyrir fullráða einstaklinga hvernig þeir haga fjárfestingum sínum eða eyðslu. Vilji Íslendingur kaupa hlut í Apple eða hús á Spáni er auðvitað fjarstæðukennt að banna honum það. Nógu slæmt er að taka af honum 40% tekna hans í skatt. Ekki eru þó allir sammála þessu.

Einn helsti hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar, Stefán Ólafsson, segir í nýlegum pistli á Eyjunni að losun hafta gagnist aðallega eignafólki og sé því ekki „í þágu almennings“. Stefán og félagar hans í Samfylkingunni hafa vissulega óbeit á efnafólki og þeim sem gengur vel í viðskiptum, en það er einstök blinda hjá prófessornum að sjá ekki að það sé í þágu allra Íslendinga að lífeyrissjóðir geti dreift áhættu í fjárfestingum sínum og að íslensk fyrirtæki geti sótt á erlenda markaði án þess að þurfa að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi.

Verði málflutningur Samfylkingarinnar í takt við skrif Stefáns má af því ráða að flokkurinn sé búinn að gefa þann draum upp á bátinn að höfða til frjálslyndra jafnaðarmanna í næstu kosningum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.