*

mánudagur, 25. október 2021
Örn Arnarson
11. október 2021 07:05

Lóttóvinningur jafnaðarmanns, hvalreki og jólin

Það athyglisverðasta í viðtalinu við Kristrúnu Frostadóttur var hvaða spurninga var ekki spurt.

Kristrún Frostadóttir, verðandi þingmaður Samfylkingarinnar, var í sérstöku viðhafnarviðtali í Silfrinu í Ríkisútvarpinu fyrir átta dögum. Tilefni viðtalsins var að Kristrún kaus loks að tjá sig um kaupréttasamninga sem hún gerði meðan hún var starfsmaður Kviku banka.

Sem kunnugt er þá hafði Viðskiptablaðið fjallað um þessa samninga í aðdraganda þingkosninganna og óskað eftir svörum frambjóðandans um eðli þeirra og umfang. Kristrún kaus ekki að svara þeim spurningum en lét nægja yfirlýsingar á félagsmiðlum, þar sem hún svaraði allt öðrum spurningum en að henni var beint, en alls ekki þeim sem lutu að merg málsins: Hvað keypti hún mikið og á hvaða verði, á hvað seldi hún og hver var hagnaðurinn, naut hún lánakjara hjá bankanum við það allt?

Það sem var athyglisvert við samtalið í Silfrinu að engin ofangreindra spurninga barst í tal og hvað þá að við þeim fengust svör. Kristrún upplýsti að hún hefði á sínum tíma greitt þrjár milljónir fyrir áskriftarrétt að tíu milljónum hlutabréfa í Kviku og eins og staðan er núna gæti heildarhagnaður hennar vegna kaupréttarins numið um 80 milljónum króna eftir skatt. Reyndar talaði hún um tíu þúsund hluti í þessu samhengi en leiða má líkur að því að um mismæli hafi verið að ræða.

Egill Helgason, sem stýrði Silfrinu þennan daginn, lét það að vera að spyrja hvers vegna Kristrún hefði áður haldið hinu gagnstæða fram. En eitt af því fáa sem hún hafði sagt um málið í aðdraganda kosninganna var að hún hefði ekki fengið eina krónu í kaupaukagreiðslur frá Kviku. Strangt til tekið er það rétt en hún fékk kauprétti frá bankanum. Hún fékk að kaupa áskrift að kaupum á 10 milljónum hluta í bankanum á ákveðnu gengi á fyrirfram ákveðnum dagsetningum gegn hóflegri greiðslu. Myndi þróun á gengi bréfa bankans verða hagfelld – eins og raunin varð – gætu þessi áskriftarréttindi skapað gríðarlega mikinn hagnað eins og kom á daginn: Þrjár milljónir króna urðu að áttatíu.

Í viðtalinu lýsti Kristrún þessu án athugasemda þáttastjórnanda sem hefðbundinni áhættufjárfestingu sem er að öllu leyti sambærileg við það þegar venjulegt fólk festir kaup á hlutabréfum. Ekki þarf annað en að bera saman kauprétti Kristrúnar við ávöxtun á kaupum á hlutabréfum í Kviku fyrir þrjár milljónir á útmánuðum ársins 2018 til að sjá að svo er ekki.

Rétt er að halda því til haga að enginn fjölmiðill reyndi að gera viðskipti Kristrúnar með hlutabréf Kviku tortryggileg með neinum hætti. En á þessu máli eru fjölmargir fletir kalla á réttmætar spurningar til frambjóðandans og umræðu um afstöðu stjórnmálamanna – ekki síst þeirra sem tíðrætt er um ójöfnuð, misskiptingu eigna og svokölluð „ofurlaun í fjármálageiranum“.

Þær spurningar voru ekki spurðar í þessu viðtali. Og ekki var heldur rætt um ásakanir Kristrúnar á hendur fjölmiðla nokkrum dögum fyrir kosningar um samantekin ráð gegn sér þegar ekki var um annað að ræða en að blaðamenn voru að leita svara við eðlilegum spurningum sem vöknuðu um viðskiptavafstur hennar. Slíkum spurningum hafa fjölmargir íslenskir stjórnmálamenn svarað á undanförnum áratugum án þess að reyna kasta rýrð á sendiboðann.

                                                                ***

Þrátt fyrir þetta var ýmislegt sem Kristrún sagði í viðtalinu sem hefði mátt vekja meiri athygli fjölmiðla og kalla á viðbrögð stjórnmálamanna. Ekki síst ummæli hennar um að kaupaukafyrirkomulag Kviku væri mjög í anda jafnaðarstefnunnar.

                                                                ***

Rétt er að taka það fram að stjórnendum á borð við Kristrúnu bauðst að kaupa áskriftarréttindi fyrir margfalt fleiri hluti í bankanum en óbreyttum starfsmönnum þannig að hagnaðarvon þeirra var eðli málsins samkvæmt mun meiri.

Þá vakti fullyrðing Kristrúnar um að hún „hafi gert mjög stórkostlega hluti í þessum kosningum“ mikla athygli og vafalaust hafa margir klórað sér í kollinum yfir því hvers vegna þáttastjórnandi spurði hana ekki hvað hún ætti nákvæmlega við: Það er nefnilega ekki víst að þessi miklu kosningaundur Kristrúnar séu á allra vitorði.

                                                                ***

Hval rak á land á Álftanesi í síðustu viku. Hvalrekinn vakti athygli fjölmiðla sem vonlegt er. Í frétt sem birtist á Vísi um málið kom fram að fjöldi ríkisstofnana hefði afskipti af hvalrekanum. Eins og segir í frétt miðilsins þá voru „afdrif hræsins eru nú komin í farveg hjá Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, heilbrigðiseftirliti, lögreglu og fleiri aðilum“.

Það er óneitanlega áhugavert að það þurfi aðkomu jafn margra stofnana vegna eins hvalreka. Sé það haft í huga að tilkynnt hefur verið um á þriðja hundrað hvalreka hér á landi undanfarin áratug er óvarlegt að álykta að umtalsverður tími opinberra starfsmanna hjá fjölda stofnana fer í að sinna þessum málum.

Það væri forvitnilegt ef einhver fjölmiðill grennslaðist fyrir um þetta mál og kannaði jafnvel hvort hægt væri að auka hagræði hjá ríkinu í þessum efnum og jafnvel leysa „fráflæðisvandann“ vegna hvalreka. Reyndar er verið að stíga mikilvæg skref í þessum efnum. Á miðvikudag tilkynnti umhverfis- og auðlindaráðuneytið um útgáfu reglugerðar um sameiningu heilbrigðiseftirlits Mosfellsbæjar og Seltjarnarnesbæjar við Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæði annars vegar og hins vegar sameiningu heilbrigðiseftirlits Kjósarhrepps við Vesturlandssvæði. Reglugerðin varðar Garðabæ, Hafnarfjörð, Kópavog, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp og sveitarfélögin á Vesturlandi.

Með þessari breytingu verða heilbrigðiseftirlitssvæðin níu í stað tíu.

                                                                ***

Nokkur umræða hefur átt sér stað um notkun kyns í hlutlausri merkingu í tali og textaskrifum starfsmanna fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hefur sá sem þetta skrifar engu að bæta við skrif Baldurs Hafstað um málið í þættinum Tungutak sem birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst síðastliðinn.

Hvað um það. Um mánaðamótin var sagt frá Covid-smitum í grunnskólum Akureyjabæjar. Í frétt sem birtist á vefsíðu RÚV um málið segir:

„Í dag var fjöldi sýna tekinn og í ljós hefur komið að staðfest eru a.m.k. 14 ný smit, og þau flest hjá aðilum á grunnskólaaldri. Verið er að vinna að rakningu í þessum tilfellum.“

Sá sem þetta skrifar á sjálfur tvo aðila á grunnskólaaldri og fylgist því grannt með gangi mála. Ekki síst vegna þess að óðum styttist í stærsta jólatengda viðburð ársins að jólatónleikum Björgvins undanskildum – sjálfan aðfangadag. Það væri þyngra en tárum taki ef fjölgun veirusmita myndi enn á ný setja strik í reikning jólahalds grunnskólaaðila. En vonum að það gerist ekki og jólaaðilarnir þrettán fái að gleðja grunnskólaaðilana á aðventunni og að enginn þeirra aðila né aðstandenda þeirra fari í jólaferfættlinginn þetta árið.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.