*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Týr
2. desember 2019 07:04

Lýðræði í vanda

Frjálslyndum demókrötum gengur verr en búist var við í Bretland en þó eru menn einna helst gáttaðir á Verkamannaflokknum.

Jeremy Corbyn er leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi.
european pressphoto agency

Kosningabaráttan í Bretlandi er á fullu gasi þessa dagana, en langt er um liðið síðan þar hefur verið tekist á af jafnmiklum ákafa, enda mikið í húfi, Brexitið og það allt. Sem stendur er Boris Johnson forsætisráðherra með mikið forskot í skoðanakönnunum, en miðað við þær stefnir í vænan sigur hjá Íhaldsflokki Borisar.

Týr ætlar þó ekki að ganga út frá neinu vísu í þeim efnum, reynslan af skoðanakönnunum og gengi manna í kosningabaráttu á undanförnum árum sýnir að það er aldrei á vísan að róa. Það verður þó að teljast líklegt að Boris hafi sigur, þó ekki væri nema vegna þess að frammistaða annarra stjórnmálaflokka hefur verið afleit til þessa.

                                                                       ***

Margir töldu að frjálslyndir demókratar myndu hreppa mikið af atkvæðum aðildarsinna, bæði frá Íhaldsflokknum og Verkamannaflokknum, en Jo Swinson, hinn nýi leiðtogi flokksins, hefur ekki reynst hafa þann kjörþokka til að bera sem margur hugði, og sú stefna að hætta einfaldlega við Brexit hefur ekki gengið vel í þjóðina, sem þrátt fyrir skiptar skoðanir á Brexit, er almennt frekar lýðræðissinnuð og vill virða þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit.

                                                                       ***

Frekar er það þó frammistaða Verkamannaflokksins undir stjórn Jeremy Corbyn, sem menn eru gáttaðir yfir. Áður hafa að vísu komið fram ríkar efasemdir um forystuhæfileika Corbyns, en aldrei sem nú og þá ekki síst hvað Brexit-málin varðar.

Þar boðar flokkurinn enn eina þjóðaratkvæðagreiðsluna, þó ekki fyrr en Corbyn hafi samið alveg upp á nýtt við ESB um úrgöngu, en þá verði kosið um hvort menn vilji þann samning eða bara hætta við allt saman.

Corbyn segist þó ekki munu tala fyrir sínum frábæra samningi, hann viti ekki hvort hann verði góður og það verði aðrir að gera upp við sig. Kjósendum fyrirgefst þó þeir skilji ekki hvers vegna þeir eigi að elta leiðtoga, sem vill ekki segja hvert hann er að fara.

                                                                       ***

Hitt er þó kannski alvarlegra hvernig Jeremy Corbyn, sem þrátt fyrir allt er leiðtogi flokks með mikla og merkilega sögu, hefur gersamlega verið settur úr öllu lagi vegna þeirrar gyðingaandúðar, sem grasserað hefur í Verkamannaflokknum — sérstaklega meðal helstu stuðningsmanna hans — og hann látið meira og minna óátalið.

Er svo komið að hann neitar að svara nokkru þar um. Það er vont fyrir Verkamannaflokkinn og vinstrimenn í Bretlandi, en það er illt fyrir lýðræðið í þessu upprunalandi þingræðisins þegar stjórnmálin eru komin á slíkan stað.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.