*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Steingrímur Birgisson
26. nóvember 2021 14:09

Lykill að auknum lífsgæðum

Steingrímur Birgisson segir að fjárfesting í ferðaþjónustu sé lykill að auknum lífsgæðum.

Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan hefur á síðustu árum átt hvað stærstan þátt í að auka lífsgæði okkar Íslendinga og fjölbreytni í atvinnulífi þjóðarinnar. Það er ekki langt síðan atvinnugreinin skapaði brot af útflutningstekjum þjóðarinnar en á skömmum tíma varð greinin tekjuhærri en sjávarútvegur og iðnaður samanlagt. Sem dæmi um mikinn vöxt var Bílaleiga Akureyrar með 2.200 bíla í rekstri árið 2010 en nú 11 árum síðar eru þeir 5.000.

Gríðarlegur vöxtur greinarinnar tók á innviðum samfélagsins og mörgum þótti nóg um árið 2018 þegar rúmlega 2 milljónir ferðamanna sóttu okkur heim. Síðan kom heimsfaraldurinn og ferðaþjónustan hrundi á einni nóttu, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim. Þá þegar komu upp bölsýnisraddir um að þetta áfall sýndi að greinin væri orðin of stór og viðamikil fyrir þjóðarbúið. Við yrðum að róa á önnur mið og auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Leggja minni áherslu á ferðaþjónustuna en auka nýsköpun. Nýsköpun má svo sannarlega styðja betur, en áframhaldandi uppbygging og fjárfesting í innviðum ferðaþjónustu má alls ekki líða fyrir hana.

Ferðaþjónustan var sú atvinnugrein sem með seiglu og þrautseigju kom landinu á fæturna eftir bankahrunið og greinin mun koma okkur upp úr alheimskrísu COVID 19 með sama hætti. Ferðaþjónustan mun áfram verða ein af meginstoðum atvinnulífsins og því þurfum við að hlúa vel að henni. Það slátrar enginn bestu mjólkurkúnni þó nytin detti niður tímabundið, við gefum henni frekar meira og betra fóður og styðjum til vaxtar að nýju.

Með breyttu vinnuumhverfi, þar sem vinnutími styttist stöðugt og almenn hagsæld eykst, verja jarðarbúar sífellt meiru af tíma sínum og peningum í ferðalög. Við þurfum að tryggja að við náum góðum skerf af þeirri köku.

Einkaframtak í uppbyggingu ferðaþjónustunnar hefur skipt sköpum á undanförnum árum. Byggðir hafa verið upp svokallaðir seglar vítt og breitt um landið sem hafa stuðlað að aukinni fjölbreytni í afþreyingu fyrir ferðamenn. Dæmi um segul sem hefur komið okkur á kortið er Bláa Lónið sem er skilgreint sem eitt af mestu undrum veraldar. Í kjölfarið hafa risið baðstaðir víða um land s.s. Jarðböðin við Mývatn, Sjóböðin við Húsavík, Krauma í Borgarfirði og Vök á Egilsstöðum svo einhverjir séu nefndir.

Gróskan í þessari uppbyggingu hefur verið mikil og má nefna sem dæmi eldfjallasöfn, hellaskoðanir og afþreyingu eins og hvalaskoðun, hestaferðir, göngu- og klifurferðir, fjallaskíðun o.fl. Allt þetta á það sameiginlegt að vera gríðarlegt aðdráttarafl fyrir þá sem ferðast um landið. Með tilkomu þeirra hefur dvalartími ferðamanna lengst og lífsgæði heimamanna aukist. Samhliða þessari uppbyggingu í afþreyingu fylgja veitinga- og gististaðir með tilheyrandi fjölgun starfa og aukinni fjölbreytni í okkar nærumhverfi til hagsbóta fyrir okkur öll, ekki síst heimamenn.

Uppbygging ferðamannastaða hefur verið mikil og við eigum að halda áfram á þeirri braut því þessar fjárfestingar eru til framtíðar. Tryggja þarf að innviðir samfélagsins ráði við þann fjölda ferðamanna sem sækja okkur heim og að upplifun sé eins og best verður við komið. Gæðin eru lykilatriði, fólk er tilbúið til að greiða meira fyrir gæðavöru og þjónustu og með því að vanda til verka í þessari mikilvægu atvinnugrein geta fyrirtækin hagnast og gefið af sér til að bæta enn frekar samfélagið okkar.

Í þessum efnum skiptir uppbygging grunninnviða öllu máli. Vil ég þar helst nefna samgöngukerfið og dreifingu raforku sem er lykillinn að því að ná fram orkuskiptum í bílgreininni. Hvoru tveggja skiptir ferðaþjónustuna gríðarlegu máli, og þar með landsmenn alla. Við erum öll ferðamenn á hverjum degi í víðum skilningi þess orðs. Það er lykilatriði að samgöngukerfið sé gott og öruggt því það er æðakerfi ferðaþjónustunnar.

Við sem rekum bílaleigur á Íslandi leikum mikilvægt hlutverk í að gera ferðamönnum kleift að ferðast á öruggan hátt um landið, upplifa náttúruna, snerta á ýmiskonar afþreyingu, borða, gista og skilja eftir sig fjármuni um allt land. Við sjáum t.d. afleiðingar lélegs vegakerfis á hverjum einasta degi, bílar með brotnar framrúður eftir að hafa mæst á „malbikuðum“ vegum landsins eru bara lítið dæmi um það, og hjá Bílaleigu Akureyrar nemur kostnaður vegna framrúðuviðgerða um 80 milljónum á ári.

Hvað orkuskiptin varðar þá finnum við hjá Bílaleigu Akureyrar svo sannarlega til ábyrgðar. Við eigum nú þegar tæplega 900 umhverfisvæna bíla, þar af 250 rafbíla og erum langstærsti eigandi rafbíla á Íslandi. Við eigum hins vegar erfitt með að fjölga þeim mikið meira í bili því staðan er sú að ferðamenn geta ekki nýtt rafbíla nema með mjög takmörkuðum hætti þar sem hleðslustöðvar um landið eru alltof fáar auk þess sem fyrirsjáanleikinn frá hendi stjórnvalda hvað varðar vörugjöld er nánast enginn.

Stjórnvöld verða að átta sig betur á þessu og leggja miklu meiri og betri kraft í uppbyggingu þessara mikilvægu innviða á allra næstu árum. Fjárfesting í þeim er fjárfesting til betri framtíðar fyrir okkur öll.

Höfundur er forstjóri Hölds - Bílaleigu Akureyrar.

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.