Gunnar Dofri Ólafsson samskiptaleiðtogi Sorpu er einn af uppáhaldsleikmönnum hrafnanna í góða liðinu. Hann virkilega bindur miðjuna saman og ógnar sífellt með hraða sínum og krafti. Þannig minnir hann um margt á Eric Djemba-Djemba en það er önnur saga.

Gunnar Dofri hefur að undanförnu nánast verið daglegur gestur í fjölmiðlum þar sem hann útskýrir ótrúlega flóknar breytingar á flokkun og sorphirðu á næstunni. Í viðtali á Vísi vikunni steig Gunnar Dofri fram með leiftrandi þjónustuviðmót borgarstarfsmanns og sagði alla þá sem hafa vogað sér að gera athugasemdir við fjölgun sorptunna vera skemmd epli og að sá hópur einskorðaðist við þá sem hafa kosið sér að fjárfesta í sæmilega nýjum bíl. Reyndar afmarkaði hann þetta enn frekar og sagði óánægjufólkið eiga bíla sem kosta 60-föld laun verkamanns hjá Sorpu. Ef við gefum okkur það að ruslakarl hafi 500 þúsund í grunnlaun á mánuði myndi sá bíll kosta 360 milljónir ef út í það er farið.

En slíkt fólk býr ekki í Vesturbænum að sögn Gunnars en fólkið þar hringir víst daglega í Sorpu með grátstaf í kverkunum og spyr hvenær það fái að flokka meira.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.