Einhvern tímann gerði ég þá uppgötvun að flestir vinir sonar míns ættu annaðhvort erlendan pabba eða mömmu og sumir bæði. Vinahópurinn samanstóð af krökkum sem áttu foreldra frá t.d. Belgíu, Bandaríkjunum, Taílandi, Serbíu, Búlgaríu og Mexíkó. Við bjuggum þá eins og nú í Vesturbænum og þegar ég fór eitthvað að ræða þetta við soninn skildi hann ekki af hverju ég væri að nefna þetta. Þetta væri bara svona. Mér aftur á móti fannst ég reglulega vera að ganga inn á fund í Sameinuðu þjóðunum, sem hafði reyndar það séreinkenni að fundarmenn átu allt úr ísskápnum og virtust ekki hafa heyrt um hinar stórmerkilegu uppfinningar: Uppþvottavél og skógrind.

Ég fór að hugsa um þetta þar sem umfjöllunarefni Viðskiptaþings, sem sýnt er í dag, er alþjóðasamkeppni. Þar segja forsvarsmenn nokkurra fyrirtækja, sem eru mjög háð erlendum sérfræðingum, frá ferlinu við að fá þá til landsins. Það gæti vissulega verið talsvert einfaldara, en skilaboðin voru ekki síður á mannlegu nótunum - að það væri ekki nóg að bjóða fólki vinnu, það þyrfti líka að bjóða því þátttöku í samfélagi.

Flesta langaði að kynnast íslenskri menningu og fólki, en fyrir útlending að flytja til Íslands væri sennilega svolítið eins og fyrir MR-ing að flytja til Akureyrar. Það væru bara allir að borða Brynjuís og júbilera og hann skildi ekkert. Aðlögun er ekki sjálfsögð. Sá sem ekki á hér stórfjölskyldu og gekk ekki í íslenskan menntaskóla þarf aðstoð við að skilja og tengjast íslensku samfélagi. Forsætisráðherra fangar þetta á sinn einstaka hátt á Viðskiptaþingi með orðunum: Fólk vill skilja Bubba Morthens.

Þetta þarf ekki að vera flókið. Verum opnari, útskýrum Bubba, bjóðum heim og vonandi fá sem flestir tækifæri til að eignast alþjóðlegan vinahóp.

Svanhildur Hólm Valsdóttir er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.