Félög kunna að standa frammi fyrir gjörbreyttum efnahagsreikningi frá og með næstu áramótum. Í upphafi árs 2019 tekur gildi nýr alþjóðlegur staðall um reikningshaldslega meðferð á leigusamningum (IFRS 16) sem kann að hafa víðtæk áhrif á fjárhagslegar niðurstöður og lykilmælikvarða, eins og EBITDA, margra fyrirtækja.

Upptaka staðalsins mun breyta reikningshaldslegri meðferð leigusamninga allra íslenskra fyrirtækja, ekki eingöngu þeirra sem gera reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS), heldur einnig fyrir þau sem gera reikningsskil sín í samræmi við lög um ársreikninga. Þetta þýðir að breytingar munu verða á framsetningu ársreiknings allra þeirra félaga sem eru aðili að leigusamningum sem leigutakar.

Gjaldfærðar leigugreiðslur

Áður gjaldfærðar leigugreiðslur munu nú færast sem afskriftir og fjármagnskostnaður. Staðallinn setur fram nýjar leiðbeiningar um reikningshaldslega meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigutaka en litlar breytingar eru gerðar á reikningshaldslegri meðferð leigusala. Sú breyting sem hefur mest áhrif er sú krafa að leigutökum er gert skylt að færa alla rekstrarleigusamninga (með óverulegum undantekningum) í efnahagsreikning sem nýtingarrétt á eign með mótbókun á skuld. Er þarna verið að koma í veg fyrir að félög séu með verulegar skuldbindingar sem ekki koma fram í efnahagsreikningi.

Þrátt fyrir að þessi breyting virðist sakleysisleg þá hefur hún víðtækari áhrif en einungis að blása út eigna- og skuldahlið efnahagsreikningsins. Áhrifin á rekstrarreikning eru einnig töluverð þar sem staðallinn hefur áhrif á flokkun gjalda. Í stað þess að leiga sé gjaldfærð á meðal rekstrargjalda færist gjaldfærsla vegna leigusamninga nú í rekstur í formi afskrifta og fjármagnsgjalda.

Eiginfjárhlutfall og lánaskilmálar

Eiginfjárhlutfall kann að lækka sem getur haft áhrif á lánaskilmála. Nýjar reikningsskilaaðferðir IFRS 16 munu hafa áhrif á marga frammistöðumælikvarða og kennitölur. Gjaldfærsla færist úr rekstrarkostnaði yfir í fjármagnsliði og afskriftir sem mun hækka rekstrarafkomu, EBITDA og EBIT félaga með rekstrarleigusamninga. Með því að færa alla leigusamninga í efnahagsreikning mun eiginfjárhlutfall lækka. Fyrir félög þar sem slíkir mælikvarðar í reikningsskilum hafa áhrif á lánaskilmála er mikilvægt að meta áhrif af innleiðingunni tímanlega svo ekkert komi óþægilega á óvart og allar upplýsingar séu tiltækar þegar samið, eða endursamið, er um fjármögnun eða lánaskilmála.

Fyrirtæki ættu að hefja undirbúning strax

Mikilvægt er að vanmeta ekki þá vinnu sem innleiðing staðalsins hefur í för með sér. Þarft er að hafa í huga að ekki ræðir eingöngu um húsaleigusamninga heldur falla allir leigusamningar undir ákvæði staðalsins, svo sem samningar um bíla og annað lausafé. Það má gera ráð fyrir því að áhrifa staðalsins gæti einna helst hjá félögum sem gert hafa marga rekstrarleigusamninga eða fyrir háar fjárhæðir (t.a.m. verslanakeðjur sem leigja húsnæði undir verslanir og flugfélög með flugvélar í rekstrarleigu). Sérstaklega ber að hafa í huga að staðallinn nær einnig til lóðarleigusamninga vegna húsnæðis eða annarra mannvirkja.

Í mörgum tilfellum mun innleiðing staðalsins verða einföld. Í öðrum tilfellum mun hún verða mun flóknari þar sem leggja þarf í vinnu við að safna saman öllum leigusamningum sem til staðar eru og fara í gegnum hvern þeirra svo hægt sé að ná utan um útreikning á nýtingarrétti og leiguskuld og taka ákvörðun um innleiðingaraðferð með hliðsjón af kröfum staðalsins. Sem fyrr segir mun þessi breyting ekki einungis hafa áhrif á félög sem beita IFRS, heldur þurfa félög sem beita lögum um ársreikninga við gerð reikningsskila að öllu óbreyttu að færa rekstrarleigusamninga í efnahagsreikning.

Lög um ársreikninga fjalla ekki sérstaklega um reikningshaldslega meðferð á leigusamningum heldur vísa þau til meðferðar samkvæmt IFRS. Sé litið til nágrannalanda okkar þá má búast við að minni félög verði undanskilin kröfum IFRS 16, en opinberir aðilar hérlendis hafa ekki látið í ljós hvort breytingar verði gerðar á núverandi lögum til að undanskilja félög undir ákveðnum stærðarmörkum frá ákvæðum laganna, eða þá hvernig. Það er því ekki seinna vænna fyrir fyrirtæki að fara að huga að innleiðingu þessara breytinga.

Höfundar eru löggiltir endurskoðendur hjá Deloitte.