Jón Mýrdal, veitingamaður á Kastrup, er að mati hrafnanna hugrakkasti maður landsins um þessar mundir. Að undanförnu hefur fréttamiðillinn Vísir fjallað um stöðuna á veitingamarkaði en vertar landsins bera sig illa vegna launahækkana og aukins kostnaðar. Hafa nafntogaðir veitingastaðir á borð við CooCoo‘s Nest úti á Granda hætt rekstri sökum þessa. En Mýrdal stendur keikur og segir veitingamenn einfaldlega að verða bregðast við þessu og hækka verð. Í samtali við Vísi er eftirfarandi ákall til annarra veitingamanna haft eftir honum: „Ekki vera huglausir, við verðum að hækka verðin.“

Hrafnarnir óttast að með þessu sé Jón að kalla yfir sig reiði Páls Gunnars Pálssonar og hans fólks hjá Samkeppniseftirlitinu sem mun svara með allra handa kvöðum á veitingarekstur í miðborginni. Þannig er ekki hægt að útiloka Páll Gunnar krefjist að Jón loki Kastrup og opni þess í stað smurbrauðsstofu á Hvolsvelli svona þegar horft er til fyrri ákvarðana stofnunarinnar.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 15. desember 2022.