*

föstudagur, 28. janúar 2022
Huginn og muninn
19. desember 2021 10:12

Maður vísindanna

Sóttvarnalæknir hefur oftar en einu sinni túlkað skýrslur og rannsóknir með misvísandi hætti.

Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hélt því fram að 0,6% 5 til 11 ára barna sem smitast af Covid lendi á spítala sem þýði að án bólusetningar megi vænta þess að 150 íslensk börn leggist inn og vísar þar í skýrslu ECDC. Hann gekkst síðar við því að hafa gert of mikið úr veikindum barna þegar á hann var gengið með fullyrðinguna.

Í skýrslu ECDC stendur að hlutfallið eigi við um börn sem greinast og fá sjúkdómseinkenni, sem talið er að sé aðeins um helmingur smitaðra barna sem greinast, og í reynd minna því mörg greinast aldrei. Áhætta hraustra barna af covid er því sem næst engin og erfitt að sjá að bólusetning þeirra skili nokkru, ekki einu sinni hjarðónæmi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sóttvarnalæknir mistúlkar rannsóknir. Hann taldi líka að yfir 90% vörn bóluefna gegn sjúkdómseinkennum þýddi yfir 90% vörn gegn smiti og las, einn manna, út úr Lancet rannsókn nokkurri að þriðja sprauta skilaði hjarðónæmi, svo fátt eitt sé nefnt. Maður vísindanna.

Í ECDC-skýrslunni er fjallað ítarlega um skaðleg og víðtæk áhrif takmarkana á líkamlega og andlega heilsu barna og reikna hrafnarnir með að sóttvarnalæknir leggi til að fallið verði frá þeim í næsta minnisblaði. Eða ekki.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.