*

föstudagur, 14. maí 2021
Örn Arnarson
12. apríl 2021 07:05

Maginot-línan við Þórunnartún

Staðreynd málsins er að undanfarinn mánuð hafa sárafá smit greinst utan sóttkvíar og ekki með góðu móti hægt að tala um einhver straumhvörf í þeim efnum.

Af lestri fjölmiðla og samfélagsmiðla að dæma stendur íslenska þjóðin frammi fyrir meiriháttar hörmungum vegna margboðaðrar bylgju faraldurs vegna kóvidveirunnar. Sóttvarnayfirvöld og heilbrigðisstarfsmenn hafa staðið við físibelginn og kynt undir þessari umræðu sem hefur svo sett sitt mark á fréttaflutning af stöðu mála vegna heimsfaraldursins. Maginot-lína liggur um svokallað sóttvarnahótel við Þórunnartún í Reykjavík og óttast er að allt fari á versta veg ef flugfarþegar sem búsettir eru á Íslandi fái að sitja af sér sóttkví í heimahúsi utan varnarlínunnar. Heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir eru staddir í skotgröfum og farþegarnir í fangabúðum meðan fjölmiðlar veifa hvítum fána víðsfjarri vettvangi.

Þetta er auðvitað með miklum ólíkindum og ljóst er að fjölmiðlar hafa ekki leitað svara við grundvallarspurningum að baki aðgerðum stjórnvalda í sóttvarnamálum að undanförnu. Viðvörunarbjöllur hefðu átt að hringja um leið og tilkynnt var að þeim Íslendingum sem sneru aftur til landsins eftir ferðalög yrði gert að sæta nauðungarvistun í stað þess að vera í sóttkví heima hjá sér.

Hér er um að ræða meiri háttar og fáheyrða frelsisskerðingu og því er undarlegt að fjölmiðlar, álitsgjafar og stjórnmálamenn virtust gera sér rýran rökstuðning sóttvarnayfirvalda fyrir aðgerðunum að góðu. Rökstuðningurinn var í stuttu máli sá að sóttvarnalæknir sagði að dæmi væru um að fólk hefði rofið heimasóttkví og hætta væri á að hið svokallaða breska afbrigði gæti breiðst út um samfélagið á næstunni.

Ástæðulaust er að rekja málarekstur fyrir dómstólum vegna þessa á þessum vettvangi. Hins vegar er rétt að benda á að fjölmiðlar hafa ekki borið sig eftir frekari upplýsingum um fullyrðingar sóttvarnalæknis um sóttvarnabrot landsmanna og hættuna af þeim. Þær skipta grundvallarmáli í þessu samhengi: Er tíðni þeirra slík og afleiðingar svo alvarlegar að þær réttlæta að íslenskir flugfarþegar séu frelsissviptir í fimm daga án þess að fá að fara undir bert loft í stað þess að sæta sóttkví á heimili sínu?

Hvað svo með hættuna á að næsta bylgja faraldursins ríði yfir samfélagið á næstunni? Eðli málsins samkvæmt verður sú hætta til staðar svo lengi sem þorri landsmanna er óbólusettur gagnvart veirunni. En hefur þróunin undanfarið verið með þeim hætti að ætla má að veiran sé að dreifa sér hömlulaust meðal landsmanna?

Staðreynd málsins er að undanfarinn mánuð hafa sárafá smit greinst utan sóttkvíar og ekki með góðu móti hægt að tala um einhver straumhvörf í þeim efnum sem bendi til þess að flóðbylgja smita sé að skella á landið.

                                                                  ***

Það var því áhugavert að fylgjast með upplýsingafundi almannavarna á mánudag fyrir viku. Fundurinn var haldinn í kjölfar úrskurðar héraðsdóms um að skyldusóttkví þeirra sem geta setið hana af sér annars staðar sé ólögmæt. Á fundinum sagði Þórólfur Guðna[1]son sóttvarnalæknir að úrskurðurinn kynni að leiða til þess að tafir yrðu á að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum innanlands og enn fremur:

„Ég tel að ef þessi dómur fær að standa muni líkur á smitum innanlands aukast með möguleika á alvarlegum áhrif[1]um fyrir okkur Íslendinga."

Þetta er áhugaverð fullyrðing þar sem sóttvarnalæknir gefur sér það að þeir Íslendingar sem kjósa heimasóttkví í stað skyldusóttkvíar undir eftirliti brjóti reglur og stuðli þar með að fjölgun smita. Það að sjálfur sóttvarnalæknir telji að borgarar landsins þurfi að sæta stöðugu eftirliti í sóttkví á þessu stigi málsins er undarlegt og vekur upp margar áleitnar spurningar um þá stöðu sem upp er komin. Það verður að teljast ískyggilegt að blaðamenn kjósa ekki að spyrja neinna þeirra spurninga.

                                                                  ***

Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að umfjöllun um smit og landamæraaðgerðir í fjölmiðlum. Á miðvikudag var fjallað um hugsanlegt hópsmit á landsbyggðinni og kom fram í fjölmiðlum að smitberinn væri ferðamaður og að veiran hefði ekki greinst í honum við landamæraskimun. Augljóslega fær slík framsetning fólk til þess að leiða hugann að sóttvarnaaðgerðum á landamærunum en margir fjölmiðlar létu þess ekki getið á miðvikudag að um væri að ræða smitaðan einstakling sem er búsettur hér á landi.

                                                                  ***

Eftir höfðinu dansa limirnir. Á þriðjudag sagði Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúss, í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins að þrjú smit hefðu greinst meðal vistmanna sinna undanfarna daga. Hann bætti svo við að smitin þrjú hefðu „komist út í þjóðfélagið" hefðu vistmennirnir ekki verið í nauðungarvistum. Rétt eins og sóttvarnalæknir gefur forstöðumaðurinn sér að fólk sem er gert að vera í sóttkví verði að vera undir stöðugu eftirliti til þess að það smiti ekki út frá sér.

                                                                  ***

Viðkvæðið frá fulltrúa lögreglunnar á fundinum vakti einnig athygli. Í frásögn á vef Morgunblaðsins segir:

„Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum, sagði þann árangur sem náðst hefur í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn hér á landi ekki vera tilviljun. Hann væri afrakstur þess að hlustað hefur verið á ráð sérfræðinga og þeim fylgt. Vænlegast til áframhaldandi árangurs er að svo verði áfram."

Það verður að teljast umhugsunarvert að laganna vörður skuli segja jafn afdráttarlaust við fjölmiðla að þegar hugmyndir embættismanna um hvernig eigi að haga sóttvörnum skarast á við lögbundin réttindi borgarana eigi sjónarmið hinna fyrrnefndu að ráða. Einhvern tímann hefði það eitt þótt fréttaefni. Ekki síður í ljósi þess að þessi skoðun virðist njóta víðtæks stuðnings meðal þingmanna og almennings. Undir slíkum aðstæðum er mikilvægt að fjölmiðlar standi vörð um rétt borgaranna.

                                                                  ***

Eins og fram kom í fjölmiðlum blandaði Læknafélagið sér inn í umræðuna eftir að úrskurður héraðsdóms lá fyrir í byrjun síðustu viku. Á þriðjudaginn sendi félagið frá sér fréttatilkynningu sem innihélt viðtal við Reyni Arngrímsson, formann þess. Þar er kallað eftir að Alþingi breyti lögum svo hægt sé að koma til móts við áherslur sóttvarnalæknis um að skylda Íslendinga í sóttkví undir eftirliti. Í fréttatilkynningunni kemur fram að brýnt sé að stjórnvöld hafi heimildir til að beita „öllum tiltækum ráðum" í baráttunni við faraldurinn.

Þrátt fyrir að fjölmiðlar hafi sagt frá fréttatilkynningunni sem fyrr segir þá spurðu þeir ekki út í kröfu Læknafélagsins um að stjórnvöld fengju heimildir til þess að berjast við veiruna með „öllum tiltækum ráðum" og hvað nákvæmlega felist í henni.

Í þessu samhengi er rétt að ítreka að enginn dvelst nú á sjúkrahúsi vegna kóvid en undanfarnar vikur hafði einn sjúklingur legið inni. Hann var útskrifaður á dögunum. Í ljósi þess er ef til vill skiljanlegt að læknar hafi áhyggjur af álaginu á heilbrigðiskerfinu. Þær eru þó ekki meiri en svo að Landspítalinn var færður niður um viðbúnaðarstig vegna veirunnar á miðvikudag.

                                                                  ***

Þann 30. mars var Gylfa Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, gestur Kastljóssins. Þar lýsti prófessorinn frekar sérstakri skoðun sinni á því að allt væri í stakasta lagi í íslensku efnahagslífi - eða réttara sagt í 90% hagkerfisins. Það er að segja að ferðaþjónustan væri einungis tæplega 10% af hagkerfinu og þar af leiðandi væru áhrif kórónuveirunnar lítil þar sem hin 90% blómstruðu um þessar mundir.

Með sömu rökum mætti bæði leggja niður sjávarútveginn og stóriðjuna hér á landi án þess að högg sæi á vatni en þær greinar standa einungis undir um 7% af landsframleiðslunni. Þáttastjórnandinn spurði ekki Gylfa út í þessu einföldu sannindi og ekki heldur út í þá staðreynd að skaði hins opinbera af samdrættinum vegna kórónuveirunnar er metinn á um 1.200 milljarða og ekkert var minnst á hið mikla atvinnuleysi sem nú er uppi og ekki sér fyrir endann á.

Í stað þess að bera þessa vægast sagt undarlegu sýn hagfræðiprófessorsins á stöðuna í hagkerfinu undir aðra sérfróða í hinum döpru vísindum skortsins ákvað fréttastofa RÚV frekar að enduróma þessa skoðun Gylfa í næstu tveimur fréttatímum eftir Kastljósið eins og þarna væri um viðtekin sannindi að ræða.

                                                                  ***

Fjölmiðlar sýna fréttum af fasteignamarkaðnum mikinn áhuga. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag í síðustu viku var sagt frá mikilli eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir og að ágangurinn væri svo mikill að fólk festi kaup á íbúðum án þess að skoða þær fyrst. Efnislega var þetta sama frétt og hafði birst í þessu blaði fyrir skömmu. En þegar líða tók á fréttina kom í ljós að fréttastofan hafði upp á kaupanda sem hafði neyðst til að kaupa íbúð án þess að sjá hana fyrst. Reyndar kom í ljós að kaupandinn var búsettur í Þýskalandi þegar kauptilboð var gert og hafði látið vandamenn skoða eignina fyrir sig enda eru skotferðir á milli landa fátíðar um þessar mundir.
Minnti þetta um margt á fræga frétt á Stöð 2 árið 2012 um komu forsætisráðherra Kína til landsins. Þá ákvað fréttamaður að kynna sér hvað hinn venjulegi Kínverji hefði um málið að segja. Kom það fæstum á óvart að hinn venjulegi Kínverji er miðaldra karlmaður sem býr í Kópavogi og rekur ferðaskrifstofu í sama bæjarfélagi.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.