*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Leiðari
24. mars 2016 11:14

Málið verður ekki þaggað niður

Sama hvað framsóknarmenn segja þá hefur Tortola-málið veikt stöðu forsætisráðherra og málstað hans í haftamálum.

Haraldur Guðjónsson

Sama hvað samflokksmenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra segja þá eru fjárhagsmálefni eiginkonu hans ekki alfarið einkamál þeirra hjóna. Sérstakar aðstæður í þessu máli gera það að verkum að mjög eðlilegt er að fólk ræði þetta og að málið veki upp spurningar.

Fyrst skal taka fram að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að farið hafi verið á svig við lög og reglur í fjárhagsskipan eiginkonu forsætisráðherra. Hún komst í álnir fyrir hrun og flutti fjármunina með löglegum hætti út fyrir landsteinana áður en gjaldeyrishöft skullu hér á. Samkvæmt yfirlýsingu endurskoð­ anda hefur eignarhlutur hennar í aflandsfélaginu á Tortola ætíð verið færður til eignar á skattframtölum og sama á við um verð­ bréf í eigu félagsins. Þá hafi skattskyldar tekjur af verðbréfum félagsins verið færðar henni til tekna á skattframtölum.

Yfirlýsing endurskoðandans er nokkuð afgerandi og má því með nokkru öryggi áætla að greiddur hafi verið auðlegðarskattur af eignunum og tekjuskattur af tekjum af verðbréfunum. En málið snýst einfaldlega ekki bara um skattskyldu ráðherrahjónanna.

Það að ráðherra skuli hafa fjárhagslega hagsmuni, vegna kröfu aflandsfélagsins á hendur gömlu bönkunum, af því hvernig uppgjör slitabúa föllnu bankanna fer fram, skiptir einfaldlega máli. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessir hagsmunir hafi ráðið ákvörðunum eða hegðun Sigmundar Davíðs, en þessir áður óþekktu hagsmunir gera það að verkum að sett verða spurningamerki um allt það sem á undan er gengið. Það að kröfuhafar fá meira í sinn hlut með því að fara nauðasamningsleiðina í stað þess að greiða stöðugleikaskatt er óumdeilt og er eiginkona ráðherra þar á meðal. Þessi staða er því vatn á myllu gagnrýnenda nauðasamningsleiðarinnar, sem hafa fært fyrir því rök að stöðugleikaframlagið sé ekki nógu hátt og að fara hefði átt skattaleiðina þess í stað.

Hagsmunir sem þessir þurfa ekki að hafa áhrif á hegðan fólks til að þeir veki upp grunsemdir og tortryggni. Sama hvað framsóknarmenn segja þá hefur málið veikt stöðu forsætisráðherra og málstað hans í haftamálum. Þá hefur hann ekki heldur bætt ástandið með því að neita að veita viðtöl vegna málsins. Mál af þessu tagi er erfitt, ef ekki ómögulegt, að þegja í hel. Eins er ómaklegt að reyna að slá niður umræðuna með því að segja hana vera árás á eiginkonu ráðherrans eina. Þegar um er að ræða fjárhæðir sem þessar og aðstæður sem þessar þá eru hagsmunir eiginkonunnar hagsmunir hjónanna beggja.

Það má vel vera að sumar þær atlögur sem gerðar hafa verið að ráðherranum innan þings og utan undanfarna daga hafi verið ósanngjarnar, en hann getur ekki vikið sér undan því að svara fyrir þessa hluti. Eins er með öllu ótækt að hann skuli enn á ný setja samstarfsflokkinn í jafn erfiða stöðu og raun ber vitni nú.

Málið hefur undið mjög upp á sig undanfarna daga og líklega er of seint að reyna að grípa inn í núna. Forsætisráðherra ætti hins vegar að hafa lært úr þessu að erfið mál eru best afgreidd með því að ræða þau opinskátt, en ekki stinga höfðinu í sandinn.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.