*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Huginn og muninn
20. júlí 2018 13:43

Mannauðsvandi Dags

Mannauðsvandamál Dags B. Eggertssonar borgarstjóra virðast endalaus.

Haraldur Guðjónsson

Mannauðsvandamál Dags B. Eggertssonar borgarstjóra virðast endalaus. Á dögunum úrskurðaði kærunefnd jafnréttismála að borgaryfirvöld hefðu brotið á Ástráði Haraldssyni hrl. þegar ráðið var í stöðu borgarlögmanns. Skömmu áður dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur borgina til að greiða starfsmanni Ráðhúss Reykjavíkur skaðabætur vegna ógeðfelldrar framkomu skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, en sá situr auðvitað enn sem fastast.

Nú hefur borgin tilnefnt Dagbjörtu Hákonardóttur sem persónuverndarfulltrúa borgarinnar, en hún hefur starfað sem lögfræðingur á skrifstofu borgarstjóra, auk þess sem hún var fyrir fáum árum mjög virk í starfi ungra jafnaðarmanna, í samtökunum „Já Ísland“, varaformaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna og stúdentaráðsfulltrúi Röskvu. Starf persónuverndarfulltrúa var ekki auglýst að því er virðist heldur var bara fenginn innanbúðarmaður í djobbið. Það að fá Samfylkingarlögfræðing af skrifstofu borgarstjóra fellur ljóslega vel að þeirri kröfu nýju persónuverndarlaganna og GDPR að persónuverndarfulltrúar séu sérstaklega sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir gagnvart yfirmönnum batterísins sem þeir eiga að hafa eftirlit með.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.