Á sama tíma og Hagstofan upplýsir um að hallarekstur á ríkinu hafi numið 160 milljörðum í fyrra berst Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata fyrir jafnrétti og mannréttindum á erlendri grund. Nánar tiltekið í París þar sem hún sækir fundi laga og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins þessa vikuna á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Fundurinn sem Þórhildur Sunna sótti í nefndinni í dag snertir á fjölbreyttum umfjöllunarefni sem tengjast stöðu mannréttindamálanna. Fundurinn stendur á hefðbundnum skrifstofutíma Parísarbúa. Hrafnarnir taka eftir því að þátttaka fjölda fundarmanna er gegnum fjarfundarbúnað. Það sama gildir um fundi jafnréttisnefndarinnar sem Þórhildur Sunna sækir á föstudag. Hrafnarnir sjá einmitt að nefndarstörfum verði lokið í tæka tíð þannig að þingmaðurinn er í dauðafæri að smella sér á miða á leik Frakkland og Hollands sem fer fram í borginni þá um kvöldið.

Rómantísk rigning

Þrátt fyrir að vor sé í lofti París á þessum árstíma mun rigna á Þórhildi þessa vikuna. Það sama er upp á teningnum kjósi hún að verja þar helginni á eigin kostnað. Í þessu samhengi vísa hrafnarnir til orða Audrey Hepburn um að rigningin væri mikilvæg fyrir París því í henni væri angan borgarinnar sætust.

Miðjarðarhafið kallar

Hrafnarnir sjá á fundarskjölum þeirra nefnda sem Þórhildur starfar í að þurfi ekki endilega að rigna á nefndarmenn í allt ár. Þannig verður fundað á Kýpur í apríl Marrakess í Marokkó í júní og væntanlega verður þingmaðurinn að taka með sér sólarvörn í þær ferðir – það er að segja ef ekki tekst að finna fjarfundarbúnað sem virkar. Aðrir fundir nefndarinnar munu fara fram í Frakklandi á árinu.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.