*

laugardagur, 18. september 2021
Óðinn
25. júní 2019 07:46

Mannvitsbrekkur og vandi grunnskólans

Faðir PISA könnunarinnar bendir á mikið brottfall úr námi hér á landi miðað við margar aðrar þjóðir.

Aðsend mynd

Þýski tölfræðingurinn Andreas Schleicher, yfirmaður menntamála hjá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD), kom hingað til lands í fyrri viku og hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands. Schleicher má kallast faðir PISA könnunarinnar, en hann var yfirmaður deildarinnar sem samdi hana.

                                                                                       * * *

Í viðtali, sem Morgunblaðið tók við hann eftir fyrirlesturinn, sagði Schleicher að bilið á milli þess sem íslenskt samfélag þarfnist frá menntakerfinu og þess sem menntakerfið skilar til samfélagsins hafi samkvæmt mælingum ekki verið að minnka, heldur að breikka. Þetta eru ekki ný tíðindi en engu að síður ömurleg.

                                                                                       * * *

Schleicher bendir á að á Íslandi sé brottfall úr námi mikið miðað við margar aðrar þjóðir og segir að hér falli of margir nemendur í gegnum glufur í skólakerfinu, án þess að námserfiðleikum þeirra sé gefinn nægilega mikill gaumur.

                                                                                       * * *

Afburðanemendur gleymast

Sama gildi um góða nemendur, sem fái ekki næg tækifæri til þess að hámarka hæfileika sína. Hlutfall íslenskra nemenda, sem standa sig afbragðsvel, hefur farið lækkandi og var einungis 3,8% árið 2015. „Ég er ekki viss um að kerfið sé að fylgjast nógu vel með framúrskarandi nemendum og að nemendur fái tækifæri til þess að þróa hæfileika sína. Ég tel að það sé eitthvað sem þið þurfið að veita athygli,“ sagði Schleicher við Morgunblaðið.

                                                                                       * * *

Ísland hefur tekið þátt í PISAkönnuninni frá árinu 2000. Hún er framkvæmd á þriggja ára fresti og mælir breytingar á frammistöðu nemenda yfir þann tíma, ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms. Síðast voru niðurstöður könnunarinnar birtar árið 2016 vegna könnunar frá 2015. Samkvæmt þeim er Ísland á niðurleið frá öllum hliðum séð. Næstu niðurstaðna er að vænta í desember og skólamenn segja Óðni, að þess sé tæplega von að ástandið hafi snarbatnað.

                                                                                       * * *

Árangur á stöðugri niðurleið

Samkvæmt könnuninni frá 2015 fer íslenskum skólabörnum aftur á öllum sviðum, hvort sem árangur þeirra er borinn saman við fyrri ár eða við nágrannalöndin. Á öllum sviðum eru einkunnir íslenskra barna í könnuninni undir meðaltali OECD. Í nítján löndum er lesskilningur grunnskólabarna betri en hér á landi miðað við PISA-könnunina, en þar á meðal eru lönd eins og Rússland, Spánn og Norðurlöndin öll.

Fimmtán lönd eru með hærri einkunn en Ísland í stærðfræðilæsi og heil 23 lönd eru yfir Íslandi hvað varðar læsi á náttúruvísindi. Íslenskum skólabörnum hefur farið aftur frá upphafi, utan ársins 2009, þegar lesskilningur jókst (og það þó að hér væri að öðru leyti hrun). 

                                                                                       * * *

Sveitarfélögin tóku við rekstri grunnskóla árið 1997. Síðan hefur árangur nemenda í grunnskóla legið lóðbent niður á við, þrátt fyrir að mun meira fé sé varið til rekstur grunnskólans á hvern nemenda í dag en árið 2000.

                                                                                       * * *

Við blasir að nauðsynlegt er að fara í djúpstæða greiningu á vandanum. Mögulega eiga sveitarfélögin sér málefnalegar málsbætur. Til dæmis má sjá í gögnum Hagstofunnar að tæplega 1% grunnskólanema var með erlent móðurmál árið 1997, en hlutfallið var komið í tæp 11% árið 2018. Sömuleiðis er vel vitað að töluvert brottfall hefur orðið úr kennarastétt á uppgangstímum liðinna ára, en alls óvíst er hvort þeir snúa aftur nú þegar ekki blæs jafnbyrlega.

                                                                                       * * *

Nú er það auðvitað ekki svo að menn hafi ekki fyrr áttað sig á vandanum og að til aðgerða yrði að grípa. Í því samhengi má minna á Hvítbók Illuga Gunnarssonar þáverandi menntamálaráðherra, sem kom út fyrir fimm árum. Þar voru öll þessi sömu vandamál greind og rækilega tíunduð, en sömuleiðis gripið til aðgerða til þess að bæta skólakerfið. Við mismiklar vinsældir raunar, en ekki verður annað séð en þær hafi verið réttar og dugað vel.

                                                                                       * * *

„Dugað vel?!“ spyr lesandinn þá, minnugur orðanna hér að ofan um PISA-mælingarnar. Já. Það má nefnilega ekki gleyma því að PISA mælir aðeins afmarkaða grunnþætti skólakerfisins og að þar ræðir um uppsafnaðar mælingar á árangri áranna. Þannig þarf að bíða í um 8 ár frá því að gripið er til aðgerða í skólakerfinu þar til þess fer að gæta í mælingum PISA. Læsisátakið, sem hófst á vegum Menntamálastofnunar árið 2015 og farið var að gera regluleg skimunar- og stöðupróf í lestri (Lesferill) í fyrra, hefur þannig þegar borið verulegan árangur, en PISA-könnunin nú tekur til krakka, sem voru 14 ára þegar læsisverkefnið hófst.

                                                                                       * * *

Í þeim prófum er raunar aðeins mæld lesfimi, en fjöldi rannsókna sýnir að það er eindregið samhengi milli lesfimi og lesskilnings, sem aftur gefur einnig sterka vísbendingu um bætta stöðu í öðrum greinum. Það er t.d. ein forsenda stærðfræðilæsis að krakkar búi bæði yfir lesfimi og lesskilningi, en ástæða er til þess að minna menntamálaráðherra á að sams konar átaks í stærðfræðilæsis er þörf, líkt og rætt hefur verið um í allnokkur ár.

                                                                                       * * *

Strákavandamálið

En það er fleira, sem á bjátar, þegar rýnt er í tölurnar. Hið greinilegasta er að strákarnir standa sig miklu síður í lestri en stelpurnar. Svo miklu raunar, að ef þeir læsu jafnvel og þær, þá væru menn ekki að fjasa um slælegan framgang Íslendinga í PISA.

                                                                                       * * *

Þetta blasir við hverjum þeim, sem nennir að kynna sér niðurstöðurnar, en samt er það nú hálfgert feimnismál. Þó er það ekki svo að Ísland sé eitt um að strákunum gangi síður að feta sig áfram menntaveginn og fyrir því hafa menn nefnt ýmsar ástæður, svo sem þá að karlar hafi nánast verið að hverfa úr kennarastéttinni víða á Vesturlöndum. Hér á Íslandi er innan við fimmtungur grunnskólakennara karlar. Er það ekki eitthvað sem gefa mætti gaum, með hagsmuni nemenda í huga ekki síður en kennara?

                                                                                       * * *

Hvað læsið varðar er líka athyglisvert að velta lesefninu fyrir sér. Barnabókmenntir hafa orðið æ kvenlægari á síðastliðnum áratugum, eins og foreldrar eiga auðvelt með að glöggva sig á með því að lesa titilsíðurnar á lesefni barnanna. Þar eru konur í miklum meirihluta, bæði sem höfundar, myndskreytarar og ritstjórar. Bækurnar eru síður en svo verri fyrir það – barnabókmenntir hafa tekið miklum framförum – en gæti ekki hugsast að efniviðurinn höfði síður til stráka en stelpna fyrir vikið? Hvað fjalla margar af þeim bókum, sem reiddar eru fram í skólum landsins, um fótbolta og strákapör?

                                                                                       * * *

Vaknið!

Óðinn hefur hrósað menntamálaráðherra fyrir að koma auga á vanda einkarekinna fjölmiðla þó hann sé algjörlega ósammála því hvernig ætlunin er að bregðast við þeim vanda, eins lesa má í pistli frá 14. mars. En menntamálaráðherrann, eins og aðrir, þekkir vanda grunnskólans. Verkefni hans er að bregðast við og halda umbótastarfinu áfram, ekki seinna en núna. Menntamál eru langtímaverkefni, svo kannski ráðherra til fjögurra ára hafi síður þolinmæði til þess að horfa á afrakstur erfiðisins eftir 8-10 ár. En við því er ekkert að gera, börnin vaxa ekki hraðar.

                                                                                       * * *

Mannvitsbrekkur í Reykjavík

Borið hefur á því að sveitarfélög stingi hausnum í sandinn í stað þess að horfast í augu við lakan árangur þeirra í rekstri grunnskólans. Í Reykjavíkurborg var niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá 2012 haldið leyndum þar til úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi úrskurð árið 2014 um að öll gögn skyldu birt. Hvers vegna í ósköpunum?

                                                                                       * * *

Eva Einarsdóttir, fulltrúi Besta flokksins í skóla- og frístundaráði, sagði í viðtali við Morgunblaðið í mars 2014 að hver skóli fengi að sjá sína eigin niðurstöðu og hvar á kvarðanum hann stæði, án þess þó að sjá nöfn annarra skóla. Svo færi skólinn ásamt skólaráði, þar sem foreldrar sætu einnig, yfir niðurstöðuna og gerðu umbætur ef ekki hefði gengið nógu vel. Eva sagði að meirihlutinn teldi því að það væri ekki skólaþróuninni til hagsbóta að greina frá hvar skólarnir standi. Auðvitað. Þetta er augljóst. Skólaþróunin skiptir meira máli en nemendurnir! Ekki er öll vitleysan eins.

                                                                                       * * *

Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar gerði skýrslu um viðbrögð sín við lökum árangri í PISA-könnuninni sem ekki tókst að halda leyndum. Hún kom út í júní 2015 og nefndist Aukinn árangur nemenda. Sem er skondið nafn þegar árangurinn hefur orðið verri og verri með hverri könnuninni. Þar var spurt spurninga eins og hvort góður árangur í PISA sé besti mælikvarðinn á góðan árangur grunnskólanna í Reykjavík og vitnað í alla þá fræðimenn sem hafa sett út á könnunina. Um mat á árangri segir:

                                                                                       * * *

„Enda þótt mikilvægt sé að bera reglulega saman árangur reykvískra skóla við það sem gerist hjá öðrum þjóðum varar starfshópurinn við því að það verði þungamiðjan í áherslum skólastarfs. Ekki má gleyma öðrum mikilvægum þáttum sbr. grunnþætti menntunar: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi og jafnrétti.“

                                                                                       * * *

Nú er Óðinn ekki nógu vel gefinn til að skilja muninn á lesskilningi og „læsi í víðum skilningi“ og væri ekki verra ef mannvitsbrekkurnar á skóla- og frístundasviðinu myndu útskýra það. Lýðræði, mannréttindi og jafnrétti eru grundvallaratriði í íslenskri stjórnskipan, varin í stjórnarskrá og lögum með atbeina ótal stofnanna. En hvernig í ósköpunum tengist það námsárangri grunnskólabarna? Grundvöllur þess að þegnar lands getið notið þessara grundvallarréttinda er einmitt læsi.

                                                                                       * * *

Ekki meta menntun til launa

Andreas Schleicher kom til Íslands árið 2014 og sagði þá: „Heimurinn borgar þér ekki fyrir það sem þú veist, heldur fyrir það sem þú gerir á grundvelli þess sem þú veist.“

                                                                                       * * *

Kjarasamningar opinberra starfsmanna eru lausir. Það á alls ekki að meta menntun til launa heldur að meta framlag starfsmannsins til launa. Menntun hlýtur að ráða þar miklu, oft á tíðum er hún forsenda starfans, en hún er engin ávísun á að starfsmaður sinni starfi sínu vel.

                                                                                       * * *

Sem sakir standa skortir ekki kennaramenntað fólk á Íslandi, en það skortir mikið á að allt vilji það gefa sig að kennslu. Vitaskuld er eitthvað um að fólk finni aðra köllun eða betri kjör, en það verður ekki heldur litið hjá hinu að skólakerfið er ekki vel til þess fallið að laða til sín góða kennara og halda þeim.

Í marga áratugi hafa metnaðarfullir kennarar aðeins haft tvær leiðir til þess að hækka í launum: annars vegar að eldast og fá starfsaldurshækkanir og hins vegar að taka að sér stjórnunarstöður og minnka eða hætta kennslu. Þetta eru ekki ný sannindi, en samt hefur menntayfirvöldum ekki auðnast að koma á betri skipan starfsmannamála í þessari mikilvægu stétt. — Svo er annað mál hvernig sá starfskraftur er nýttur, sem þó tekst fá til kennslu og halda í starfi.

                                                                                       * * *

Íslensku menntakerfi hefur verið umbylt á undanförnum áratugum með það að markmiði að gera menntun aðgengilega fyrir alla. Það er lofsvert markmið, en það segir sig sjálft að því verður ekki náð áreynslulaust. Eða án verulegs tilkostnaðar. Þeim mun mikilvægara er að menn ráðstafi þeim vel og skynsamlega.

                                                                                       * * *

Markmið eins og „skóli án aðgreiningar“ og „einstaklingsmiðað nám“ eru bæði lofsverð, en við blasir að þau fara ekki alltaf vel saman. Það gerir til dæmis verulegar kröfur til aukins mannahalds, sem ekki er víst að nýtist jafnvel og gera mætti með öðrum hætti. Það má vel sjá á tölfræðinni, sem sýnir að undanfarna áratugi hefur nemendum fjölgað í takt við þjóðina, sem vissulega er nokkuð ör fjölgun, en starfandi kennurum hefur fjölgað miklum mun meira. Á því eru ýmsar skýringar eins og einsetning skóla, fækkun í bekkjardeildum, ráðning aðstoðarkennara og svo framvegis. Allt ráðstafanir, sem þóttu til bóta, en hjá hinu verður ekki litið að árangurinn hefur látið á sér standa. Vægast sagt.

                                                                                       * * *

Óðinn hefur trú á því að lestrarátakið muni skila sér í fyllingu tímans, en það þarf meira til. Það kallar á pólitíska forystu menntamálaráðherra og betri stjórnsýslu sveitarfélaga, vilja kennara til breytinga og aukna þátttöku foreldra í að gera skólana betri.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.