*

fimmtudagur, 27. febrúar 2020
Óðinn
18. ágúst 2019 17:01

Már formaður kvaddur

Óðinn fjallar um tíð Más Guðmundssonar í stóli seðlabankastjóra sem senn er á enda.

Haraldur Guðjónsson

Már Guðmundsson lætur af embætti seðlabankastjóra á þriðjudag, tíu árum eftir að hann tók við af Norðmanninum Svein Harald Øygard, sem hér fór huldu höfði þar til skipun hans var fyrirvaralaust kynnt í tíð norrænu velferðarstjórnarinnar, enda vafalaust ólögleg. Svona eins og óðagot Jóhönnu og Steingríms við breytingar á lögum um Seðlabankann til þess að losna við Davíð og allar hugmyndir um sjálfstæði bankans væru ekki nóg. 

***

Embættistíð Más hefur verið mjög upp og ofan. Efnahagur Íslands hefur styrkst mikið í embættistíð Más, en það var viðbúið eftir hremmingar hrunsins. Þegar almenningur fleygði Vinstrigrænum og Samfylkingunni út úr Stjórnarráðinu vorið 2013 fór hagur lands og þjóðar loks að vænkast. Flokkarnir tveir misstu samanlagt 27,7% fylgi, fóru úr 51,5% í 23,8%. Er í raun illskiljanlegt hvers vegna fylgið fór ekki enn neðar, svo ömurleg var ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms, en fremur dræm kjörsókn og þar af leiðandi minni þátttaka lausafylgis kann að skýra það að einhverju leyti.

***

Ánægðir fjármagnseigendur

Lengst af voru fjármagnseigendur ákaflega ánægðir með Má vegna þess að vaxtastigið var miklu hærra en í samanburðarlöndum og Óðinn hefur reyndar aldrei skilið hvers vegna það var svo hátt, í ljósi þess að hér voru afar ströng gjaldeyrishöft og eftirlitið drakónískt með tilheyrandi sóun og spillingu. 

***

Efnahagsstjórnin hefur þess utan verið áfallalaus og hefur Már komið Óðni nokkuð á óvart að því leyti. Til að mynda þegar hann útskýrði með afar sannfærandi hætti í myndbandi á vef Seðlabankans að ef verkalýðshreyfingin krefðist gríðarlegra launahækkana, og þær kröfur næðu fram að ganga, kæmi það verst niður á skjólstæðingum hennar í verðbólgubáli. 

***

Gjaldeyriseftirlit seðlabankans er sá einstaki þáttur í embættistíð Más Guðmundssonar sem verður honum og Seðlabankanum til ævarandi skammar. Til að bíta höfuðið af skömminni er svo nýkomið í ljós að bankinn ákvað að styrkja yfirmann gjaldeyriseftirlitsins um — að sögn og eftir því sem næst verður komist að sinni — tæpar 20 milljónir króna vegna skólavistar, sem Már þó vissi að kæmi bankanum aldrei að gagni, því þetta var dulbúinn starfslokasamningur. Þetta er hneyksli.

***

Er Már Guðmundsson stjórnmálamaður?

Ráðning Más var flokkspólitísk og um það var fjallað í ritstjórnarpistli á vef Viðskiptablaðsins í febrúar 2014. Óðinn telur rétt að birta pistilinn að hluta og færa hann um leið á prent:

***

Egill Helgason gerir kjaftasögu um að Bjarni Benediktsson vilji Ólöfu Nordal sem seðlabankastjóra að sinni á vef sínum á Eyjunni. Tilefnið er að skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra rennur út þegar gæsaveiðitímabilið hefst, 20. ágúst.

***

Egill rifjar upp að stjórnmálamenn hafa stundum valist sem seðlabankastjórar. Samkvæmt kenningu Egils má seðlabankastjóri ekki vera fyrrum stjórnmálamaður og hann verður að vera „óháður og sterkur í fræðunum til að standast þrýsting“ og óhugsandi er að setja aðra en bestu og hámenntuðustu hagfræðingana í Seðlabankann. Þögn Egils um Má í þessu samhengi verður ekki skilin öðru vísi en svo að hann telji Má standast prófið enda hefur hann lokið meiraprófi.

***

Hugsanlega er einhver sterkur í fræðunum en það í sjálfu sér hefur engin áhrif á hvort menn standast þrýsting. Menn geta verið veikgeðja, hrifnæmir, óöruggir þrátt fyrir að vera firnasterkir í fræðum. Margir af hámenntuðustu hagfræðingum heims stýrðu seðlabönkum inn í eina stærstu kreppu sögunnar. Þá brugðust einnig margir langskólagengnustu hagfræðingar Íslands eins og Óðinn hefur fjallað um.

***

Í dómi Landsdóms kemur fram að 20. mars 2008 hafi Jón Steinsson hagfræðingur sent Geir Haarde forsætisráðherra tölvupóst þar sem hann sagði nauðsynlegt að ríkið væri reiðubúið með eitthvert plan ef t.d. einn af stóru bönkunum lenti í verulegum vandræðum. Ríkið þyrfti þá að taka erlent lán til að endurlána þeim banka og jafnvel að skoða að lána öllum bönkunum áður en sú staða komi upp.

***

Einnig kom fram að ráðherrar héldu fund með hagfræðingunum Má Guðmundssyni, Friðriki Má Baldurssyni og Gauta Eggertssyni 7. ágúst 2008, eftir að skýrsla Willem Buiters og Anne Sieberts lá fyrir. Í minnispunktum var haft eftir Gauta Eggertssyni að það væri mjög mikils virði „að standa við bakið á bönkunum“ og hættulegt að fara „í opinbera umræðu um skiptingu skuldbindinga þ.e. innlenda og erlenda“. Haft var eftir Má Guðmundssyni að mikilvægt væri að „bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað“ og væri ódýrara fyrir ríkið að bjarga þeim en „að láta þá hrynja“. Haft var eftir Friðriki Má að það ætti „að bjarga bönkum sem eiga nægar eignir en eiga í lausafjárvanda“

***

Þetta voru ráð hagvitringanna. Ef farið hefði verið að þeirra ráðum væri ríkissjóður Íslands gjaldþrota

***

Upplýst hefur verið að meðan á „faglegu“ umsóknarferli um stöðu seðlabankastjóra vorið 2009 stóð yfir áttu Már og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra samtal um stöðuna og tölvupóstar gengu milli þeirra um launakjörin, sem Már taldi of léleg. Það má því draga í efa að Már hafi verið óháður ríkisstjórninni á þeim tíma.

***

Már Guðmundsson var þátttakandi í stjórnmálum fyrir rúmum tveimur áratugum. Árið 1991 var hann meðal fimm efstu manna á framboðslista Alþýðubandalagsins. Hugmyndir flokksins nutu ekki hylli kjósenda og bandalagið fékk aðeins þrjá þingmenn og varð Már varaþingmaður. Þrjú ár á undan var Már pólitískur aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar. 

***

Hvað þarf að líða langur tími frá því að viðkomandi hætti í stjórnmálum til að teljast ekki stjórnmálamaður. Það eru orðin 16 ár síðan Friðrik Sophusson hætti í stjórnmálum. Er Friðrik gjaldgengur að mati Egils? Friðrik hefur mikla þekkingu af efnahagsmálum frá fjármálaráðherratíð sinni og hefur setið í nokkur ár í stjórn Íslandsbanka. Hann er lögfræðingur, rétt eins og seðlabankastjórinn í bankalandinu Lúxemborg og Jean Claude Trichet bankastjóri Seðlabanka Evrópu árin 2003-2011. 

*** 

Eða er það svo að aðeins þeir stjórnmálamenn sem fá engan stuðning kjósenda í lýðræðislegum kosningum megi setjast í stól seðlabankastjóra?

*** 

Rétt er að benda á að það er ekki sérstakt íslenskt fyrirbæri að stjórnmálamenn séu skipaðir seðlabankastjórar eða seðlabankastjórar séu viðriðnir stjórnmál. Fyrsti seðlabankastjóri Evrópska seðlabankans var Wim Duisenberg. Hann var þingmaður og fjármálaráðherra (1973-1977) í Hollandi.

*** 

Í Bandaríkjunum hafa seðlabankastjórar sterk tengsl við stjórnmálin. Paul Volcker (1979-1987) var aðstoðarfjármálaráðherra. Alan Greenspan (1987-2006) var sérstakur ráðgjafi Nixon í forkosningum Repúblíkanaflokksins árið 1968. Ben Bernanke var formaður efnahagsráðs George Bush. Janet Yellen tók við stöðu seðlabankastjóra af Bernanke í byrjun þessa mánaðar. Hún var formaður ráðgjafanefndar Bill Clinton í hagfræði á árunum 1997-1999. Volcker og Yellen eru demókratar og voru skipuð af demókrötum, Greenspan og Bernanke eru repúblíkanar og voru skipaðir af repúblíkönum.

***

Flestir ráðherrar síðustu ríkisstjórnar, sem skipaði Má Guðmundsson seðlabankastjóra, hófu feril sinn í Alþýðubandalaginu.

*** 

Már svarar

Már Guðmundsson sá ástæðu til að svara þessum skrifum þrátt fyrir miklar annir, eins og honum verið samt tamt að segja þegar erfið mál koma upp. Tvívegis gerði hann athugasemdir við skrifin og þær athugasemdir er hægt að lesa á vb.is undir fyrirsögnunum „Athugasemd frá Má Guðmundssyni“ og „Már Guðmundsson: Enn um rangfærslur Týs“.

***

Hvað varðar umræðurnar um björgun bankanna, þá taldi Már í fyrra svari sínu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi haft rangt eftir sér á fundi í ráðherrabústaðnum. Það sanni minnisblað sem Már skrifaði fyrir fundinn og lagði þar fram.

*** 

Á þessum fimm árum hafa fundarmenn, sem sumir hafa verið í klappliði Más, ekki enn stigið fram til að staðfesta orð hans. Að auki hefur Ingibjörg Sólrún ekki tjáð sig um málið. Því leggur Óðinn takmarkaðan trúnað á orð Más. Lesendur Viðskiptablaðsins geta sjálfir lagt mat á trúverðugleika þeirra.

*** 

Hitt er annað mál hvort Már Guðmundsson sé stjórnmálamaður eða ekki. Í þessu samhengi liggur sjálfsagt ekki fyrir fullgildur mælikvarði á það hvenær maður er stjórnmálamaður og hvenær ekki, þó fáum dyljist að seðlabankastjóri starfar a.m.k. í návígi við stjórnmálalífið, ef ekki nær. En Óðinn er viss um að Egill Helgason skrifaði ekki um hugsanlega komu Ólafar Nordal í Seðlabankann af eintómri tilviljun, hvaðan sem sagan var komin. Ástæðan var sú að sumir töldu verulega „hættu“ á að Má yrði hent út úr Seðlabankanum. Talið um Ólöfu hafði það vafalaust að markmiði að gera Bjarna Benediktssyni erfiðara fyrir í þeirri mögulegu fyrirætlan sinni, sem síðan varð aldrei að veruleika og hann sætti töluverðu ámæli fyrir, bæði í eigin þingliði og flokki, en þó ekki síður í fjármála- og atvinnulífinu. 

*** 

Skrif Egils voru þó ekki aðeins til að hnýta í Ólöfu Nordal og Bjarna Benediktsson, heldur einnig Davíð Oddsson og skipan hans sem seðlabankastjóra á sín - um tíma. Um hana má auðvitað ýmislegt segja til eða frá, en eftir því sem líður frá bankahruni verður æ augljósara hversu ómaklegar og ómerkilegar árásirnar á hann voru vegna embættisfærsla í hruninu og aðdraganda þess. Þvert á móti má segja að margir hefðu betur tekið mark á varnaðarorðum hans og um það verður varla deilt lengur að Seðlabankinn vann þrekvirki í bankahruninu, ekki síst með því að taka þá grundvallarafstöðu að hinir föllnu bankar yrðu að bera eigin syndir og hlutverk Seðlabankans var að tryggja greiðslumiðlun, gjaldmiðilinn og fjárhagslegan stöðugleika íslensks almennings eftir því sem kostur var. Það var þröngur kostur en það tókst.

*** 

Um stjórnmálaferil sinn segir Már í seinna svari sínu: 

En svo virðist sem veröldin verði að passa í boxin [Týs] og hann hafi ríka þörf fyrir að skipa öllum í einhver lið. Því heldur hann því fram að það sé „augljóst að Már Guðmundsson hefur sterk pólitísk tengsl við fyrrum bandamenn sína á vinstri væng stjórnmálanna“. Það er hins vegar engan veginn augljóst að þau tengsl sem kunna að sitja eftir séu endilega „sterk“ eða „pólitísk“. Sem aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands hafði ég á sínum tíma „tengsl“ við stjórnmálamenn í flestum ef ekki öllum flokkum sem leituðu til mín með skýringar og ráð. Svör mín voru þau sömu óháð því í hvaða flokki viðkomandi var. Ég hafði líka slík „tengsl“ þegar ég var í Basel, sbr. fundinn í ráðherrabústaðnum, þó svo að þau hafi eðli málsins samkvæmt verið eitthvað minni.

***

Þarna segir Már einfaldlega ósatt. Már veit, rétt eins og Óðinn, að tengslin við einstaka ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur voru gömul, sterk og náin. Ráðning Más Guðmundssonar var hvorki fagleg né á grundvelli peningalegrar þekkingar, heldur pólitísk og á grundvelli persónulegrar viðkynningar. Það þarf ekki endilega að vera afleitt, en það er eins og svo oft á vinstri væng stjórnmálanna, að sett var upp leikrit til þess að fela raunveruleikann og afvegaleiða almenning.

***

Að endingu vill Óðinn þakka Má fyrir ágætt starf við efnahags stjórnina. Það er morgunljóst að Már skilur við Seðlabankann þegar ágætlega árar í efnahagslífinu. Og ekki seinna vænna.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.