*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Týr
3. desember 2018 18:18

Már formaður

Fyrst Seðlabankastjóri er ekki góður í því sem hann á að gera og illur í því sem hann á ekki að gera, hví situr hann enn?

Már Guðmundsson er Seðlabankastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Endemismál Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra virðast engan enda ætla að taka. Einu gildir hversu oft og illilega honum verður á í messunni, hann sér enga ástæðu til þess að víkja og stjórnvöldum virðist slétt sama um stjórnsýsluna við Kalkofnsveg og orðspor bankans. Jafnvel þegar sýnt er fram á óboðlega framgöngu Seðlabankastjóra fyrir dómi, situr hann fastur við sinn keip, segir að þetta sé allt ómark og er með dólg.

                                                           ***

Það er slæmt, en verra er þó að þetta er ekki undantekning heldur dæmigert. Það snýr ekki aðeins að ofsóknum gagnvart Samherja, Aserta eða Ursus, svo augljós dæmi séu tekin.

                                                           ***

Allt frá því að leynimakkið hófst um ráðningu hans árið 2009 mátti ljóst vera að ekki var á góðu von. Norræna velferðarstjórnin talaði hátt um faglega ráðningu á manni ótengdum pólitík og aðdraganda hrunsins, en leit hjá því að Már var bæði gamall pólitískur samherji og sá maður, sem mesta ábyrgð bar á peningamálastefnunni, sem hafði ekki aðeins reynst gagnslaus heldur til hræðilegs ógagns.

                                                           ***

Gleymum ekki heldur hinu, að kortér í hrun var ráða leitað hjá Má, sem sagði mikilvægt að „bankarnir geti sýnt að þeir geti lifað“ og ódýrara væri fyrir ríkið að bjarga þeim en „að láta þá hrynja“. Þessi ráð hans hefðu leitt umsvifaslaust til þjóðargjaldþrots haustið 2008. Sami maður og fyrir hrun talaði fyrir innstæðusöfnun bankanna ytra, en lagði allt kapp á það eftir hrun að þjóðin borgaði Icesavereikninginn upp í topp.

                                                           ***

Enn einkennilegra var þó þegar Már var endurráðinn árið 2014, því þá var komin reynsla á manninn. Fyrir utan ýmis óviðeigandi pólitísk inngrip, hafði Seðlabankastjóri höfðað mál gegn bankanum en látið Seðlabankann borga persónulegan kostnað sinn vegna þess (án þess að hann stæði skattinum skil á hlunnindunum)!

Honum tókst fráleitt betur upp við stjórn bankans. Stórfenglegur gjaldeyrisvaraforði, að láni tekinn, var látinn rykfalla á sparisjóðsbók með neikvæðum vöxtum, hann glopraði Kaupþingsveðinu mikla frá sér og kostaði bankann tugmilljarða króna. Mitt í þessum hremmingum öllum belgdist bankinn út, bæði að mannafli og útgjöldum, en tíu árum eftir hrun heldur Már enn dauðahald í höftin.

                                                           ***

Már formaður er ekki góður í því sem hann á að gera og illur í því sem hann á ekki að gera. Af hverju situr hann þá enn, hverjum til gagns og í þágu hverra?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.