*

föstudagur, 16. apríl 2021
Huginn og muninn
26. febrúar 2021 18:01

Margfeldiskosning hjá Icelandair?

Pálmi Haraldsson lýsir yfir stuðningi við einn frambjóðenda í stjórn og vinnur náið með öðrum.

Pálmi Haraldsson heldur í dag á tæplega 2% hlut í Icelandair.

Stjórn Icelandair Group tók nokkrum breytingum í fyrra, þegar tilnefninganefnd tilnefndi þau John F. Thomas og Ninu Jonsson í stjórn í stað Ómars Benediktssonar og Heiðrúnar Jónsdóttur. Aðalfundur félagsins samþykkti tillögurnar og var sjálfkjörið í stjórn.

Nú hefur nefndin lagt það til að stjórnin verði óbreytt. Hluthafahópurinn hefur þó breyst talsvert undanfarið ár og margir falast eftir stjórnarsæti. Þannig hafa Steinn Logi Björnsson, fv. forstjóri Bluebird, og Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, bæði lýst yfir framboði.

Pálmi Haraldsson, sem á sér fræga sögu í flugheiminum, heldur í dag á tæplega 2% hlut í Icelandair. Það vakti athygli hrafnanna þegar hann lýsti opinberlega yfir stuðningi við Stein Loga á vefsíðu Túrista. Þar sem Pálmi er eigandi Ferðaskrifstofu Íslands má ætla að Þórunn njóti einnig hans stuðnings. Hrafnarnir heyra að nú sé unnið hörðum höndum að því að kalla eftir margfeldiskosningu á aðalfundi félagsins þann 12. mars nk. en þar með myndu líkurnar á því að annað þeirra komist inn aukast.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.