Markmiðasetning er lykillinn að árangri, það er ef vel er að henni staðið. Markmiðasetning er ekki síst mikilvæg í teymisvinnu til að allir átti sig á því hvert er stefnt og til hvers er ætlast af þeim. Miklu máli skiptir að markmið séu skýr og mælanleg.

Ímyndum okkur að hagsýn húsmóðir ákveði að stofna varasjóð fyrir fjölskylduna. Markmið hennar eru að vernda fjölskylduna fyrir óvæntum útgjöldum og að leggja mánaðarlega fyrir. Í markmiðum húsmóðurinnar felst skynsamleg sýn en þau eru ómarkviss.

Markmið húsmóðurinnar eru góð að því leyti að þau fela bæði í sér útkomumarkmið (vernd fyrir óvæntum útgjöldum) og hegðunarmarkmið (mánaðarlegur sparnaður) sem stuðlar að útkomunni en þau vantar mælanleika. Hve mikið þarf að safnast til þess að sjóðurinn veiti fjölskyldunni vernd? Hve mikið hyggst hún leggja fyrir mánaðarlega?

Í aðdraganda markmiðasetningarinnar hefði húsmóðirin þurft að greina hve stóran varasjóð þarf til að vernda fjölskylduna. Hve mikið svigrúm hefur fjárhagurinn og hvers konar útgjöld geta sett strik í reikninginn? Hafa fyrirhugaðar kjarahækkanir áhrif á hve mikið þarf til? Þá þyrfti hún að greina hvaða hegðunarmarkmið eru best til þess fallin að stuðla að útkomumarkmiðinu. Til að geta lagt fyrir mánaðarlega gæti þurft að setja markmið um færri veitingahúsaferðir, færri bílferðir, betri nýtingu og hagkvæmari innkaup.

Fjölskyldan finnur fyrir sparnaðaraðgerðunum en heldur þetta út, viti hún nákvæmlega hvað þarf til, til þess að slakað verði aftur á sultarólinni. Markmið um vernd eitt og sér dugir ekki til að veita þeim drifkraft, ef ekki er ljóst hvað þarf til að veita verndina.

Þess má geta að dæmisagan beinist ekki sérstaklega að sóttvarnayfirvöldum.

Höfundur er viðskiptafræðingur og blaðamaður.