*

laugardagur, 6. júní 2020
Týr
20. mars 2017 12:40

Máttlaus kosning í VR

Niðurstaða kosninganna er í rauninni sú að meginþorra félagsmanna VR er að mestu leyti nokkuð sama um félagið sitt.

Aðsend mynd

Síðustu ár og jafnvel enn í dag er mikið fjallað um mikilvægi þess að auka beint lýð­ ræði og þátttöku almennings við ákvörðunartöku. Að vísu hafa þeir stjórnmálamenn sem mest tala fyrir þessu, t.d. Píratar, ekki fengið mikið brautargengi í kosningum, jafnvel þó að þeir reyni að stimpla sig inn sem „fulltrúa fólksins“ eða noti aðra innantóma frasa sem í grunninn fjalla um það að þeir ætli sér ekki að taka neinar ákvarðanir eða leiða mál með neinum markvissum hætti sjálfir.

***

Nú er það hins vegar svo að það virðist vera lítill áhugi meðal almennings fyrir því að taka þátt í stjórnmálum. Hér á landi hefur kosningaþátttaka minnkað síð­ ustu ár og færri virðast hafa áhuga á því að eiga beina þátttöku að ákvörðunartöku. Til þess höfum við hins vegar stjórnmálamenn sem við veitum umboð á fjögurra ára fresti.

***

En þetta gildir ekki bara um stjórnmálin. Formannskjöri í VR, stærsta stéttarfélagi landsins, lauk í vikunni með þeirri niðurstöðu að Ragnar Þór Ingólfsson felldi sitjandi formann, Ólafíu Rafnsdóttur.

***

Af tæplega 33.400 félagsmönnum sáu aðeins um 5.700 ástæðu til að taka þátt, og væntanlega stór hluti þeirra eftir umtalsverða smölun. Það segir sitt um stöðu félagsins. Ragnar fékk tæplega 3.500 atkvæði sem þýðir að aðeins 10,4% félagsmanna kusu hann. Með öðrum orðum, hann er formaður stærsta stéttarfélags landsins með aðeins 10% stuðning félagsmanna. Aðeins um 6% félagsmanna greiddu fráfarandi formanni atkvæði. Rétt er að hafa í huga að það er auðvelt að greiða atkvæði. Það er gert með rafrænum hætti í gegnum síma eða tölvu, þannig að framkvæmd kosninganna á ekki að vera nein fyrirstaða.

***

Þrátt fyrir að félagsmenn þurfi að greiða 0,7% af launum sínum til félagsins þá líta þeir ekki á það sem félag hvar þeir geta haft áhrif á stefnu félagsins. Niðurstaða kosninganna er í rauninni sú að meginþorra félagsmanna VR er að mestu leyti nokkuð sama um félagið sitt. Kannski er VR í dag ekkert annað en stór sumarbústaðaleiga?

Stikkorð: VR kosning Ragnar Þór félagsmenn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.