Ég sótti tónleikahátíðina á Hróarskeldu í fyrsta sinn um á dögunum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi enda fetaði ég þar í fótspor fjölda Íslendinga sem hefur farið utan til að sjá stjörnur á sviði og uppgötva eitthvað nýtt og spennandi. Tvennt vakti athygli mína á fyrsta degi. Í fyrsta lagi var skipulag hátíðarinnar til sóma, meira að segja kom út blað hvern dag þar sem fjallað var um þetta 130 þúsund manna samfélag sem dvaldi á svæðinu auk dóma um frammistöðu tónlistarmanna og hljómsveita.

Hitt sem vakti ekki síður athygli mína var að nær ekkert fékk að vera í friði fyrir ágangi fólks sem var í spreng. Og þá meina ég EKKERT. Það var bókstaflega migið, ælt og nefndu það – út um allt. Þrátt fyrir prýðisgóða salernisaðstöðu sem samanstóð af gamaldags kömrum með niðurgrafinni holu, vatnssalernum í gámum, frístandandi hlandskálum þar sem þrír eða fjórir gátu kastað af sér saman og hlandskálum sem bundnar voru við tré, þá fengu hvorki girðingar, húsveggir né tré að standa í friði fyrir pisseríi tónleikagesta. Lyktin í loftinu var líka eftir því, hún minnti á ammoníakverksmiðju þar sem gefið var í á hverjum degi fram að vikulokum. Þetta var auðvitað skelfilegt. Þegar á leið varð maður samdauna.

En aftur að fjölmiðlunum á tónleikasvæðinu. Þetta voru auðvitað fréttir í takt við þær sem íslenskir fjölmiðlar þurfa vinna úr, árlegt efni á borð við loðnugengd, hlaup í Skaftá og þar fram eftir götunum. Og í anda þess sem einkenndi hátíðina, það er að segja að tónleikagestir losuðu úr sér svo að segja út um allt, þá var burðarfrétt í einu tölublaðanna um þvaglát. Þetta var heilsíðuumfjöllun um athöfnina og hún útskýrð frá mörgum hliðum, sumum hverjum óþægilegum. Á mynd með umfjölluninni gat að líta þrjá viðmælendur blaðamannsins sem ræddu á opinskáan hátt um hlandferðir sínar að næsta gafli. Þetta voru rúmlega tvítugar stelpur og sýndi myndin þær í hnapp upp við vegg í miðju verki. Nákvæmari gat umfjöllunin ekki orðið. Og það getur ekki kallast annað en blaðamennska til fyrirmyndar. (p.s. af tillitsemi við lesendur er afrit af umfjölluninni ekki birt hér heldur af manni sem varð á vegi mínum á Hróarskeldu. Hann var einn af tugum þúsunda sem ekki gat haldið í sér þegar girðing var í nágrenninu).

Pistill Jóns birtist í Viðskiptablaðinu 17. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.