*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Huginn og muninn
9. nóvember 2019 09:50

Með Björgólf í undirmeðvitundinni

Stofnendur íslenskra flugfélaga virðast líta hýru auga til Björgólfs Thors þegar þeir velja sér nöfn á félögin og einkennislit.

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Aðsend mynd

Hulunni var svipt af nafni nýstofnaðs flugfélags í vikunni. Félagið, sem á að fylla skarðið sem Wow air skyldi eftir sig, heitir Play og er einkennisliturinn rauður. „Liturinn táknar bæði ástríðuna sem liggur að baki félaginu og vísar líka til eldfjallaeyjunnar Íslands,“ sagði Arnar Már Magnússon, forstjóri nýja félagsins. Nafnið vakti kátínu gárunganna, sem fóru mikinn á samfélagsmiðlum og vörpuðu meðal annars fram þeirri spurningu hvort forsvarsmenn hins nýja félags hefðu virkilega ekki lesið upphátt nafnið „Play Air“.

Líklega hefur Björgólfur Thor Björgólfsson brosað út í annað þegar hann frétti af nafngiftinni því þó hann hafi ekki rekið flugfélög þá virðist sem hann sé í undirmeðvitund þeirra sem til þeirra stofna. Merki Wow var í sömu litum og fjarskiptafélag Björgólfs í Chile og nafnið sláandi líkt — Wom. Nú vill svo til að Björgólfur á líka stóran hlut í pólsku fjarskiptafélagi og hvað skyldi það nú heita? Jú rétt, Play.

Hröfnum fannst karlmennirnir fjórir, sem kynntu nýtt íslenskt flugfélag til sögunnar í vikunni, bera sig mjög vel á blaðamannafundinum. Hröfnunum hitnaði undarlega þar sem þeir horfðu á þá standa óttalausa undir rauðum einkennislit félagsins og þokkafullu nafni nýja félagsins, Play. Hér eru alvöru menn á ferð sem er leikur í huga þrátt fyrir blóðuga sögu þeirra sem lagt hafa í sömu vegferð. Tvær grímur runnu þó á Hrafnana þegar sömu menn auglýstu eftir leikfélögum til að ræða við viðskiptavini Play í gegnum netspjall, allan sólarhringinn, hvorki meira né minna.

Stikkorð: Björgólfur Thor Play
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.