Nú er nýtt ár gengið í garð, daginn er tekinn að lengja og við tökum eflaust flest á móti 2021 með opnum örmum. Það má með sanni segja að árið 2020 hafi verið óvenjulegt en það þarf ekki að þýða að það hafi verið slæmt. Það fól í sér áskoranir sem og tækifæri sem okkur sem þjóð tókst að mínu mati að leysa með ágætum.

Það virðist sem Íslendingar séu bjartsýnir á komandi tíma. Sem dæmi hefur væntingavísitala Gallup hækkað um ríflega 22 stig. Mælist hún nú 95,4 stig sem er hæsta gildi vísitölunnar í eitt ár og rúmlega sjö stigum hærra en á aðventunni árið 2019, en á þeim tíma vissi auðvitað enginn hvað nýtt ár bæri í skauti sér.

Landinn hefur sameinast í þeirri skoðun að skaupið hafi verið gott, nýsköpun blómstrar og það hafa unnist stórir sigrar á árinu í jafnrétti. Náttúran hefur fengið tíma til að jafna sig og mengun ekki verið minni í áraraðir, nýjar uppgötvanir hafa orðið til um geiminn og við höfum tekið gríðarstór skref í stafrænni þróun og nýjum vinnuaðferðum sem kemur vonandi til með að skila okkur bættri tímastjórnun og meiri tíma í hluti sem næra okkur andlega og líkamlega.

Covid hefur breytt heiminum varanlega og eflaust okkur sjálfum sem persónum og velta nú margir fyrir sér hvað verður hið nýja norm. Árið 2020 var ár lærdóms og árið 2021 ár viðsnúnings. Hvað langar þig að gera árið 2021? Hvaða lærdóm dregur þú af árinu sem var að líða og hver verður þinn persónulegi viðsnúningur árið 2021?

Höfundur er framkvæmdastjóri ÍMARK.