*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Leiðari
6. júní 2019 18:03

Með hugvitið að vopni

Skráning Marel í Amsterdam er rökrétt skref fyrir félagið.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska stórfyrirtækið Marel verður skráð í Euronext kauphöllinni í Amsterdam í fyrramálið. Skráningin í Amsterdam verður til viðbótar við skráningu félagsins í Nasdaq kauphöllina á Íslandi og er því um tvíhliða skráningu að ræða.

Eru þetta stórtíðindi því íslensk fyrirtæki eru mjög sjaldan skráð í erlendum kauphöllum. Raunar er Marel einungis þriðja félagið sem fer þessa leið en hin tvö eru Arion banki og Össur. Arion banki var skráður hjá Nasdaq hér heima og í Stokkhólmi fyrir ári eða þann 15. júní í fyrra. Varð Arion banki þar með fyrsti viðskiptabankinn til að vera skráður í íslensku kauphöllina eftir hrun. Össur var fyrst skráð í íslensku kauphöllina árið 1998 en árið 2009 var fyrirtækið einnig skráð í Nasdaq kauphöllina í Kaupmannahöfn. Í lok árs 2017 hætti Össur í íslensku kauphöllinni og viðskiptin alfarið færð til Kaupmannahafnar.

Rætur Marel liggja djúpt í íslenska vísindasamfélaginu. Fræjunum var sáð árið 1978 þegar nokkrir vísindamenn og frumkvöðlar þróuðu fyrstu rafeindavogina fyrir íslenskan fiskiðnað í húsakynnum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Árið 1983 var Marel formlega stofnað af aðilum sem tengdust sjávarútvegi, sem komu sem hluthafar til liðs við frumkvöðlana í Háskóla Íslands.

Saga Marel í íslensku kauphöllinni spannar tæpa þrjá áratugi. Félagið var skráð hjá Verðbréfaþingi Íslands árið 1992 en á þeim tíma störfuðu 45 manns hjá Marel og veltan var um 6 milljónir evra. Frá þessum tíma hefur fyrirtækið vaxið gríðarlega. Hefur það breyst úr litlu sprotafyrirtæki, sem sinnti innlendum sjávarútvegi, í hátæknifyrirtæki, sem er leiðandi á alþjóðavísu í þjónustu við ört stækkandi kjúklinga-, kjöt- og fiskiðnað. Í dag starfa ríflega sex þúsund manns hjá Marel og er fyrirtækið með starfsstöðvar í yfir 30 löndum. Veltan á síðasta ári nam 1,2 milljörðum evra. Þrátt fyrir þennan mikla vöxt eru enn mikil tækifæri á þeim markaði sem Marel er á. Í því samhengi má nefna að neysluverðmæti kjöts, kjúklings og fisks eru metin á 1.200 milljarða evra á ári á heimsvísu.

Skráning Marel í Amsterdam er rökrétt skref fyrir félagið. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það getur verið slæmt fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og Marel að vera háð sveiflum á jafnlitlum markaði og sá íslenski er. Þá má líka velta því fyrir sér hvort það sé hollt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að fyrirtæki vegi jafn þungt og Marel gerir en oftar en ekki er meirihluti veltunnar á markaðnum tengdur viðskiptum með hlutabréf í Marel. Við þetta má bæta að við skráninguna í Hollandi verða bréf félagsins aðgengileg í erlendri mynt sem getur auðveldað Marel að vaxa með yfirtökum, líkt og það hefur gert en í fyrra keypti Marel til að mynda þýska fyrirtækið Maja, árið 2017 keypti það brasilíska fyrirtækið Sulmaq og árunum þar á undan voru fyrirtækin MPS, Stork og Scanvaegt keypt. Ákvörðun um skráningu í Amsterdam kom ekki á óvart því félagið er með sterkar rætur í Hollandi en þar starfa um tvö þúsund af ríflega sex þúsund starfsmönnum Marel.

Marel er dæmi um hvað er hægt að gera með hugvitið að vopni. Lítið sprotafyrirtæki er orðið leiðandi á heimsvísu á sínu sviði. Sem betur fer eigum við Íslendingar fleiri hátæknifyrirtæki sem eru að gera sig gildandi og má nefna sem dæmi Skagann 3X, Hampiðjuna, Curio og Völku.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is