*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Jón Ingvarsson
21. maí 2018 11:12

Með ICELANDIC vörumerkið að vopni

Með því að réttlæta meðhöndlun FSÍ á Icelandic Group virðist um leið verið reynt að gera lítið úr markaðstarfi sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna vann fyrir íslenskan sjávarútveg í marga áratugi.

Framtakssjóður Íslands afhenti ríkinu Icelandic vörumerkið fyrr á þessu ári.
Aðsend mynd

Tilefni þessara skrifa er viðtal við dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðing, forseta hagfræðideildar HÍ, sem birtist í Viðskiptablaðinu 15.mars sl. með yfirskriftinni „Mistök gerð varðandi ICELANDIC GROUP“. Undirfyrirsögnin, sem höfð eru eftir dr. Ásgeiri: „Stjórn Framtakssjóðsins beygði sig ekki undir gagnrýni eða pólitískan þrýsting og lét verkin tala“. 

Eins og kunnugt er sætti Framtakssjóður Íslands verulegri gagnrýni á hvernig haldið var á málum gagnvart Icelandic Group, sem var eitt stærsta og öflugasta félag á Íslandi og langstærsta útflutningsfyrirtæki landsmanna með gríðarlega þekkt vörumerki á sviði sjávarafurða. Það virðist sem Framtakssjóðurinn hafi gefist upp við það verkefni að endurskipuleggja rekstur þess með það að markmiði að Icelandic Group yrði áfram rekið sem heildstætt íslenskt félag með Icelandic vörumerkið að vopni því félagið var niðurbútað í margar minni einingar. 

Til að réttlæta gjörðir sínar eftirá virðist Framtakssjóður Íslands hafa brugðið á það ráð að fá forseta Hagfræðideildar HÍ til að gera skýrslu um afrek stjórnar Framtakssjóðsins og svo sannarlega vildi skýrsluhöfundur ekki láta sitt eftir liggja til að verkkaupi fengi eitthvað fyrir sinn snúð og segir m.a. í viðtalinu: „Þetta fyrirtæki hafði ekki rekstrarerindi á Íslandi eftir að utanríkisverslun varð frjáls eftir árið 1990.  Icelandic Group, áður Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna (SH) var stofnað árið 1942 og seldi sjávarafurðir frá Íslandi á erlenda markaði.  

Fyrirtækið, líkt og önnur sölusamtök, nutu niðurgreiðslna frá Seðlabanka Íslands fram að 1990.“ Það er vandséð hvernig dr. Ásgeir Jónsson leyfir sér að fara með slíkt fleipur og leggja þar með heiður og virðingu Háskóla Íslands að veði.  Sannleikurinn er að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem síðar varð Icelandic Group, reis aldrei hærra en einmitt á tíunda áratug síðustu aldar.  

Hlutverk SH, sem ávallt var í hávegum haft, fólst einkum í því að tryggja eigendum sínum, sem voru hin fjölmörgu frystihús víða um land, hæsta markaðsverð á hverjum tíma.  Hagkvæmnin í rekstri félagsins fólst ekki síst í miklum samlegðaráhrifum.  Sölumiðstöðin, og dótturfyrirtæki þess, var fyrirtæki sem sinnti vöruþróun, markaðssetningu, sölu og þjónustu við kröfuharða viðskiptavini um allan heim og naut mikillar virðingar hvarvetna. Það má kannski deila um hvort rekstur SH hefði getað aðlagað sig betur að breyttu rekstrarumhverfi í lok síðustu aldar, en staðreyndin er sú að þetta öfluga fyrirtæki sem var í forystu um að koma sjávarafurðum Íslendinga á markað úti í hinum stóra heimi varð að engu í höndum Framtakssjóðsins. 

Þá hefur vörumerkið Icelandic verið leigt til erlends fyrirtækis og hefur því ekki haft mikið með Ísland að gera í árabil. Það er dapurlegt að ekki virðist lagður meiri metnaður í skýrslu sem þessa þegar kemur að SH þar sem fullyrt er annars vegar að félagið hafi ekki átt rekstrarerindi eftir 1990 og hins vegar að það hafi notið niðurgreiðslna frá Seðlabanka Íslands fram að þeim tíma. 

Það væri áhugavert að vita hvaðan þessar „staðreyndir“ koma.  Með því að réttlæta meðhöndlun Framtakssjóðsins á Icelandic Group virðist um leið verið reynt að gera lítið úr því ötula og mikilvæga markaðstarfi sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna vann fyrir íslenskan sjávarútveg í marga áratugi.

Höfundur er fyrrverandi stjórnarformaður SH.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is