*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
21. desember 2020 07:23

Með jólakúlu í annarri og áramótakúlu í hinni

Á Íslandi dansa limirnir eftir höfðinu — skilaboð Almannavarna hafa hvorki í orði né á borði verið neitt sérstaklega skýr.

Á blaðamannafundi Almannavarna fyrir viku  lýsti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir yfir áhyggjum sínum yfir búðarrápi og hópamyndun meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins á aðventunni. Ástæðan fyrir þessum áhyggjum var meðal annars sú að líflegt var í borginni um síðustu helgi og margt fólk var í verslunarmiðstöðvum og í miðbænum.

Voru fjölmiðlar duglegir að flytja fréttir af því að tveir eða fleiri hefðu komið saman utandyra og hugsanlega hafi einhverjir ekki verið með grímu eða þá staðið of þétt við næsta mann. Sem kunnugt er þá eru Almannavarnir enn með hæsta viðbúnaðarstig vegna kórónuveirufaraldursins og eru strangar samkomutakmarkanir enn í gildi og stjórnvöld hafa gefið út þau tilmæli að fólk hafi hægt um sig á næstunni.

Á blaðamannafundinum sagði Þórólfur eftirfarandi: „Skilaboðin okkar hafa verið mjög skýr. Ég veit ekki hvernig það á að orða þetta skýrar, þar sem við erum að biðla til fólks að hegða sér á ákveðinn máta og gera fólki grein fyrir því að faraldurinn gæti farið á skrið eftir um það bil eina viku ef fólk passar sig ekki.“ En er það virkilega svo að skilaboð Almannavarna í fjölmiðlum hafi verið svo skýr?

                                                    ***

Almannavarnir hafa varað við hópamyndun á aðventunni svo hægt sé að afstýra hugsanlegum hópsýkingum og þá gildir bann við að fleiri en tugur manna komi saman nema við sérstakar aðstæður í reglugerð heilbrigðisráðherra. Þetta er svo sem ágætlega skýrt en til þess að koma þessum skilaboðum áleiðis hafa almannayfirvöld kosið af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að flækja málið með að blanda jólakúlum inn í málið.

Í stað þess að brýna fyrir almenningi að gæta fyllstu varúðar á aðventunni, taka reglum um fjöldatakmarkanir alvarlega og umgangast eingöngu nánustu fjölskyldumeðlimi kusu Almannavarnir að blanda einhverjum jólakúlum inn í málið: Landsmenn voru hvattir til að „passa upp á sínar jólakúlur“ – hvað sem það svo þýðir. Slík skilaboð hefðu kannski sómt sér í Krakkafréttum Ríkisútvarpsins en eru vart til þess fallin að undirstrika mikilvægi þess að fullorðið fólk fylgi sóttvarnareglum.

Ruglingnum með jólakúlur Almannavarna voru gerð skil í kvöldfréttatíma RÚV á laugardaginn. Í fréttinni er fjallað um að fólk átti sig ekki almennilega á hvað felist í þessu jólakúlutali og leitað svara við spurningum sem leita á fjölmarga Íslendinga sem eiga fleiri að en níu manns í sínum nánasta ranni.

Í fréttinni segir: „Í þessu samhengi hefur mikið verið talað um jólakúlur, og sumum finnst erfitt að átta sig á þeim fyrirmælum. Má hver og einn bara búa til eina jólakúlu eða mega þær vera margar og skarast? Þarf fólk að gera upp á milli uppkominna barna? Og hvað með börn sem eiga tvö heimili?“ Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, var til svara og mælti gegn því að fólk myndaði fleiri en eina jólakúlu. Þess í stað ættu þeir sem vildu eyða hátíðunum með fleiri en níu manns til að mynda að búa til áramótakúlu! Með öðrum orðum eru almannavarnayfirvöld að brýna fyrir mannskapnum að búa til fleiri en eina jólakúlu og benda á að til koma í veg fyrir skörun á ólíkum jólakúlum eigi hann bara að kalla hinar kúlurnar öðrum nöfnum.

Augljóslega geta þetta ekki talist skýr skilaboð í neinum skilningi þess hugtaks. Rögnvaldur yfirlögregluþjónn viðurkennir það í raun í lok fréttarinnar þegar hann segir: „Skilaboðin burt séð frá jólakúlum eru mjög einföld, að halda allri hópamyndun í lágmarki, sama hvort það er klúbbur, fjölskylda eða vinnustaður, tilgangurinn er að rjúfa smitkeðjuna og tryggja að smit komist ekki áfram. Kannski ruglar það fólk að kalla þetta jólakúlur en grunnurinn er að reyna að hitta sem fæsta.“

Það hefði kannski farið best á því að halda sig við einföldu skilaboðin. Eigi að síður verður gaman að sjá hugtakið „Þorláksmessukúlur“ eða „Skötukúlur“ á prenti á næstu dögum.

                                                    ***

Auk þessa er ekki hægt að segja að hættumatskerfið sem Almannavarnir kynntu á dögunum sé til þess fallið að skýra stöðu mála fyrir almenningi. Landið allt er á hæsta viðbúnaðarstigi og gildir þar einu um hvort smit í einstaka landsfjórðungum megi telja á fingrum annarrar handar undanfarið. Það er augljóst að þetta misræmi er ekki til þess fallið að skýra málin fyrir landsmönnum og fylgja þeim að baki sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda. Á síðustu blaðamannafundum Almannavarna hefur komið fram að árangur sé að nást í að halda veirunni niðri en samt sem áður er hæsta viðbúnaðarstig í öllum landshlutum.

                                                    ***

Þá er ekki hægt að segja að viðbrögð sóttvarnalæknis við veikindum Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns og eins af fyrirliðum þríeykisins svokallaða, hafi verið til þess fallin að meitla skýrleika skilaboð sóttvarnayfirvalda. Eins og allir vita smitaðist Víðir af veirunni í lok nóvembermánaðar en á sama tíma hafði verið mikill gestagangur á heimili hans. Alls tók Víðir á móti tólf manns sem búa á fimm ólíkum heimili um það leyti sem hann sýktist. Í viðtali við Þórólf í morgunþættinum Bítið á Bylgjunni sagði Þórólfur að það hefði verið óheppilegt að yfirlögregluþjónninn hefði tekið á móti svo mörgum gestum en bætti við að smitið væri fyrst og fremst til marks um hversu „lúmsk“ veiran er. Í viðtalinu sagði Þórólfur enn fremur að enginn væri að biðja fólk „að sitja lokað inni og ekki hafa samskipti við nokkurn mann“ og að fólk þurfi auðvitað að geta sinnt skyldum gagnvart fjölskyldu sinni.

Á Íslandi dansa limirnir eftir höfðinu sem og annars staðar. Skilaboð Almannavarna hafa hvorki í orði né á borði verið neitt sérstaklega skýr.

                                                    ***

Miklar frosthörkur voru á landinu í byrjun mánaðarins. Þetta var til þess að Veitur virkjuðu viðbragðsáætlanir vegna kuldakastsins og voru viðskiptavinir hvattir til þess að fara sparlega með heita vatnið meðan kalt væri í veðri. Nú er ekki fáheyrt að kalt verði á Íslandi á veturna og margir spurðu sig hvers vegna stæði á því að hitaveitukerfi í landi þar sem heitt vatn flæðir stríðum straumum undir yfirborði jarðar geti ekki annað eftirspurn í kuldakasti. Morgunblaðið leitaði svara við þessari spurningu 4. desember. Guðmundur Óli Gunnarsson, starfandi forstöðumaður hitaveitna hjá Veitum, varð fyrir svörum. Hann sagði í samtali við Mogga að starfsmenn Veitna væru sjálfir að spyrja sig sömu spurninga.

Það hljóta teljast nokkur tíðindi að þeir sem stýra Veitum viti ekkert hvað sé í gangi í fyrirtækinu. Af einhverjum ástæðum grennsluðust fjölmiðlar ekki frekar um málið. En í Fréttablaðinu á þriðjudag kvaddi Árni Gunnarsson, fyrrverandi yfirverkfræðingur Hitaveitu Reykjavíkur, sér hljóðs og spurði áleitinna spurninga um skort á getu Veitna til þess að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Af grein Árna að dæma bendir ýmislegt til að pottur sé víða brotinn í rekstrinum. Viðskiptavinir Veitna eiga skilið að fá svör við þessum spurningum og vonandi leita fjölmiðlar eftir svörum við þeim hið fyrsta.

                                                    ***

Að lokum óskar fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.