*

sunnudagur, 20. júní 2021
Örn Arnarson
14. desember 2020 07:04

Með jólakúluna flækta um fæturna

Ýmsu er ósvarað um samræmi í sóttvarnaaðgerðum. Velta má upp hversu áhugsamir fjölmiðlamenn eru að spyrja nauðsynlegra spurninga.

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar Landspítalans.
Aðsend mynd

Stjórnvöld kynntu á þriðjudag hóflegar „tilslakanir“ á sóttvarnaaðgerðum sem taka gildi frá og með deginum í dag. Ástæðan fyrir að hugtakið tilslakanir er sett innan gæsalappa í þessu samhengi rímar í öllu og einu við hið sérlega aðgengilega og gagnsæja hættumatskerfi sem Almannavarnir kynntu í vikubyrjun. Rautt hættustig er enn í gildi.

Spurningin sem er ósvarað er aftur á móti sú af hverju var þá ekki fyrr létt af takmörkunum á opnun sundhalla, æfingu keppnisíþróttamanna og látið fjölda í verslunum ráðast af fermetrastærð þeirra? Af hverju er óhætt að fara í sund í dag en ekki í gær? Af hverju stafar engin ógn af því að þeir sem eru í fremstu í röð í körfuknattleik mæti á æfingu í dag en ekki í gær? Það er brýnt að fá svör við þessum spurningum þar sem að þær sóttvarnaaðgerðir sem féllu úr gildi í dag höfðu verulega íþyngjandi áhrif á einstaklinga – áhugamál þeirra og störf. Var þeirra þá ekki þörf eftir allt saman? Þrátt fyrir að þessar spurningar vöknuðu um leið og efni breyttra sóttvarnaaðgerða var kynnt á þriðjudag þá brunnu þær ekki á fjölmiðlamönnum þann daginn.

Að vísu var Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til viðtals í morgunþættinum Bítið á Bylgjunni á mánudaginn. Þar var hann meðal annars spurður út í þær reglur sem hafa gilt um hámarksfjölda í verslunum að undanförnu og var nefnt í því samhengi að fjöldatakmarkanir í verslunum í Danmörku miðast við fermetrafjölda en ekki starfsemi sem er velþóknanleg í augum sóttvarnayfirvalda. Sem kunnugt er þá hafa margir undrast það misræmi sem gætti í reglunum: Að einungis nokkrum hræðum hafi verið hleypt inn í einu í risastórar verslanir í fermetrum talið á meðan að fleiri mega kaupa áfengi í mun minni verslunum ríkiseinokunarinnar svo dæmi sé tekið. Á meðan þurftu viðskiptavinir að bíða löngum röðum – í mörgum tilfellum utandyra á sama tíma og veturinn herjar á landsmenn.

Aðspurður sagði sóttvarnalæknir eitthvað á þá leið að allt þetta kynni að orka tvímælis en það sem öllu máli skipti væri sá árangur sem aðgerðirnar skiluðu. Þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um að það að leyfa jafn mörgum að vera inni í áfengisverslunum og í risavöxnum byggingavöruverslunum hafi skipt sköpum í þessum efnum eða þá að framganga veirunnar hafi staðið og fallið með banni á æfingum afreksmanna í boltaíþróttum má hafa ákveðna samúð með sjónarmiðum sóttvarnalæknis. Það eina sem hann á að hugsa um er að halda útbreiðslu veirunnar niðri. Það er hins vegar stjórnmálamanna að vega og meta fórnarkostnað aðgerðanna út frá stóru myndinni. Það er blaða- og fréttamanna að spyrja stjórnmálamenn þeirra spurninga sem nefndar voru hér fyrir ofan og fleiri til.

                                          ***

Það er stundum eins og fjölmiðlamenn sjái hreinlega ekki hvar fréttirnar liggja í þessum efnum. Þannig var Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-göngudeildar Landspítala, í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 föstudaginn 4. desember. Viðtalið var vissulega fréttnæmt enda talaði læknirinn fyrir því að sóttvarnaaðgerðir væru óþarflega strangar. Ragnar sagði meðal annars: „Mér finnst að við ættum að lifa betur með þessu, leyfa íþróttir í meiri mæli, leyfa fólki að stunda einhverja líkamsrækt og sund en með verulegum takmörkunum þó. Þannig að við höldum þetta út.“

Þá sagði hann: „Við vitum miklu meira en við gerðum í upphafi fyrstu, annarrar og þriðju bylgju. Við áttum okkur núna á því miklu meira hvar veiran smitar; hún smitar mest þegar fólk er að hittast í heimahúsum innan fjölskyldna og á öldurhúsum þar sem áfengi er um hönd.“ Og í endursögn á viðtalinu sem birtist á vef Ríkisútvarpsins segir: „Ragnar Freyr sagði hæpið að smit gætu borist í mörg þúsund fermetra verslunarhúsnæði þar sem allir væru með grímur og hanska og sprittuðu sig. Það væru skrýtið að sjá langar raðir fyrir utan „stór verslunargímöld“.

Með öðrum er umsjónarlæknir þeirrar deildar Landspítalans sem er í fremstu víglínu í baráttunni gegn faraldrinum að segja að þær sóttvarnaaðgerðir sem giltu fram til dagsins hafi verið óþarflega harðar og óhætt hefði verið að leyfa fólki að stunda iðju sem hefði gert líf þeirra ögn bærilegra á þessum leiðindatímum.

Það vakti því sérstaka athygli að þegar endursögnin á viðtalinu var birt á vefsvæði RÚV kaus fréttamaður að draga ekkert af þessu fram í fyrirsögn. Hún vísaði til orða læknisins að landsmenn ættu ekki láta sér bregða ef enn ein bylgja faraldursins gengur yfir. Fleiri fjölmiðlar tóku svo fréttina upp og birtu með sambærilegri fyrirsögn. Vekur þetta upp áleitnar spurningar hvort treysta megi á að fjölmiðlamenn spyrji gagnrýnna spurninga um þær aðgerðir sem sóttvarnayfirvöld grípa til þá og ef sú bylgja gengur yfir.

                                          ***

Þær sóttvarnaaðgerðir sem kynntar voru í vikunni munu gilda fram yfir áramót. Ólíklegt verður að teljast að gripið verði til mikilla tilslakana þegar gildistími þeirra rennur út. Ef stjórnvöld færa viðbúnað niður í appelsínugult stig þá munu enn gilda víðtækar takmarkanir með tilheyrandi efnahagslegum afleiðingum. Viðvörunarkerfið er sett fram til að auka fyrirsjáanleika aðgerða og þar af leiðandi er full ástæða fyrir fjölmiðla til að fjalla um það sem kann að bíða handan hornsins ef dráttur verður á bólusetningu landsmanna.

                                          ***

Enn af útvarpi. Það kann stundum að vera fréttnæmt að einstaklingar hafi skoðun á einhverju máli sem er í deiglunni hverju sinni. Í þeim tilfellum er um að ræða einhvern málsmetandi mann sem lýsir yfir skoðun sem er þvert á almælt tíðindi eða þá óvænt í ljósi stöðu álitsgjafans hverju sinni. Að sama skapi er ekkert sérstaklega fréttnæmt að einhver sem er kunnur fyrir pólitískar skoðanir sínar skuli ítreka þær enn og aftur í einhverju viðtali. Einnig er ekkert sérstaklega fréttnæmt að einhver sérfræðingur bendi að sama skapi á augljós sannindi í þannig viðtölum. Samt sem áður eru íslenskir fjölmiðlar fullir af slíkum fréttum. Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor og meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi á sunnudag.

Viðtal Kristjáns við Gylfa rataði á fréttasíður vefmiðlana á sama dag. Það sem þótti fréttnæmt var að hagfræðiprófessorinn taldi óvissu ríkja um efnahagsleg áhrif þess að bólusetning gegn kórónuveirunni muni hefjast á næstu misserum. Eigi að síður sagði Gylfi ýmislegt sem vakti spurningar. Þannig lét hann í ljós áhyggjur sínar af vaxtastefnu Seðlabankans en hann sagði lága vexti hafa marga galla. Í frétt Vísis um viðtalið er eftirfarandi haft eftir Gylfa: „Ókostirnir eru ef fasteignaverð hækkar mjög mikið og skuldir almennings vaxa. Það eru ókostir að það er enginn ábati af sparnaði, enginn hvati til að greiða niður lán.“ Það sem er athyglisvert við þessi ummæli er fyrst og fremst sú staðreynd að Gylfi situr í peningastefnunefnd Seðlabankans sem fyrr segir. Eru ummælin til marks um að meiri óeining er um núverandi vaxtastefnu bankans meðal nefndarmanna en það sem kemur fram í fundargerðum nefndarinnar? Annars er rétt að minna á að þrátt fyrir að vextir séu lágir um þessar mundir þá finnur sparnaður ávallt sinn farveg og möguleikar til ávöxtunar liggja á fleiri stöðum en í innstæðum banka.

                                          ***

Hópur fjárfesta með eignarhaldsfélagið Streng í fararbroddi hefur gert yfirtökutilboð í Skeljung og stefnir á að skrá félagið úr kauphöllinni ef að því verður gengið. Hópurinn á nú þegar kjölfestuhlut í félaginu. Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um yfirtökutilboðið á dögunum og þá framtíðarsýn sem væntanlegir kaupendur hafa fyrir hönd félagsins. Þar segir meðal annars: „Tilboðsgjafi telur ljóst að rekstrarumhverfi Skeljungs komi til með að taka grundvallarbreytingum á næstu árum. Tækniþróun er hröð, rafbílum fjölgar á götunum og fyrir liggur að stjórnvöld stefna að því að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Reykjavíkurborg hefur jafnframt þá yfirlýstu stefnu að fækka bensínstöðvum.“

Þessi framtíðarsýn er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að Skeljungur festi nýlega kaup á Dælunni sem rekur sex bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu undir sínu nafni. Eins og bent var á í Viðskiptablaðinu í síðustu viku þá var Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, einn af seljendum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.