*

mánudagur, 13. júlí 2020
Leiðari
29. nóvember 2019 14:51

Með skattkerfið að vopni

Markmiðið með skattaafslætti fyrir hlutabréfakaup kann að vera gott, en aðferðin er varhugaverð.

Haraldur Guðjónsson

Um miðjan mánuðinn var lagt fram frumvarp sem mælir fyrir um afslátt af tekjuskatti fyrir hlutabréfakaup, að hámarki 250 þúsund krónur á ári á mann. Tilefnið er ærið. Hlutabréfakaup og -eign almennings hefur verið langt fyrir neðan það sem heilbrigt og eðlilegt getur talist á þroskuðum hlutabréfamarkaði frá hruni, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum. Meðal þeirra eru lakari verðmyndun, færri fjárfestingakostir og erfiðleikar fyrir lítil og upprennandi fyrirtæki, sem fá almennt meiri athygli frá einstaklingsfjárfestum en öðrum.

Hlutfall verðbréfa af heildareignum heimilanna er í sögulegu lágmarki hér á landi og langt fyrir neðan það sem gengur og gerist í flestum þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Friðrik Sophusson, fyrrverandi fjármálaráðherra, útlistaði í 25 ára afmælisriti Viðskiptablaðsins í vor nokkrar af jákvæðum hliðum hlutafjáreignar almennings. Sagði hann synd að fólk þyrði ekki að kaupa bréf nema í gegnum sjóði, því það skipti þjóðfélagið miklu máli að einhver hluti af sparifé færi í bein hlutabréfakaup. „Það eflir atvinnulífið og veitir fólki innsýn í efnahagsmálin. Þeir sem eiga hlutabréf skynja betur þegar eitthvað bjátar á og skilja um leið nauðsyn þess að grípa þurfi til aðgerða. Og þegar vel gengur fær fólk arð af sínum bréfum.“ Viðskiptablaðið tekur undir þessi orð Friðriks.

Ekki þarf að leita langt eftir sökudólgnum. Líklegt verður að þykja að hlutabréfamarkaðnum hafi einfaldlega enn ekki tekist að endurheimta traust almennings frá því að markaðurinn nánast þurrkaðist út í hruninu.

Annað sem kann að virka letjandi á tilvonandi fjárfesta – sem ef til vill hafa ekki yfir sömu upphæðum að ráða og stofnanafjárfestar og stóreignafólk – eru þóknanir upp á mörg þúsund krónur að lágmarki fyrir hver viðskipti. Slíkar upphæðir skipta litlu máli þegar um stór viðskipti er að ræða, en vilji meðal-launþegi dýfa tánum í hlutabréfamarkaðinn fyrir segjum 100 þúsund krónur þarf hann að greiða um tuttugasta hluta þeirrar upphæðar í þóknun, og það fyrir hver viðskipti. Það er ekki aðeins stór biti í sjálfu sér, heldur margfaldast hann ef viðkomandi vill dreifa áhættunni með því að velja fleiri en eitt félag.

Viðskiptablaðið hrósar Óla Birni Kárasyni og meðflutningsmönnum hans heilshugar fyrir viðleitnina, en kemst ekki hjá því að gjalda varhug við því að nýta skuli skattkerfið með svo beinum hætti. Óli Björn hefur sjálfur verið einarður talsmaður þess að skattkerfið sé sem einfaldast, og lagðist sem dæmi gegn beitingu þess til að stýra hegðun fólks þegar viðraðar voru hugmyndir um sykurskatt, þótt sjálfsagt mál væri að ræða leiðir til þess að bæta heilsu þjóðarinnar.

Sé fordæmi sett með þessum hætti fyrir veitingu afsláttar frá tekjuskatti fyrir ráðstöfun tekna, sem þjónar tilteknum samfélagslegum markmiðum, er erfitt að færa rök fyrir því hvar slík vegferð skuli enda. Óumdeilt er að líkamsrækt er bæði til góðs fyrir þann sem hana stundar og fyrir samfélagið í heild, bæði beint og óbeint, þar sem bæði sparast fjarvistir frá vinnu og kostnaður innan heilbrigðiskerfisins.

Ætti almenningur með sömu rökum að fá að draga kostnað við líkamsrækt frá tekjuskattsstofni? Hvað með heilbrigt mataræði? Umhverfisvæna neyslu? Flutningsmenn frumvarpsins myndu eflaust svara því neitandi, en fái þeir í gegn skattaafslátt til stuðnings sínum samfélagslegu markmiðum er erfitt að færa rök gegn því að aðrir beiti skattkerfinu á sama hátt fyrir sínum hugðarefnum. Lokaniðurstaða slíkrar þróunar er sundurslitið, óheyrilega flókið og síbreytilegt skattkerfi, sem flöktir og flæðir með pólitískum vindum hverju sinni. Skattskil framtíðarinnar gætu orðið æði flókin ef sá snjóbolti fer að rúlla.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.