*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Helgi Már Jósepsson
14. maí 2018 11:01

Með sköttum skal land byggja?

Líkt og það voru skattar sem felldu Al Capone á sínum tíma ættum við ekki að leyfa sköttum að fella íslenska nýsköpun og ýta henni úr landi.

Íslensk nýsköpun og tækniþjónusta stendur á krossgötum þar sem gífurleg uppbygging hefur átt sér stað á þeim tæpa áratug sem nú er að verða liðinn frá hruni. Í upphafi var það veik staða krónunnar sem hjálpaði verulega til auk þess sem aðgengi að starfsfólki og aðstöðu gerði oft gæfumuninn í því að byggja upp öflug fyrirtæki hér á landi. Núna blasir hins vegar við sá veruleiki að afar sterk króna og fjármagnskostnaður hamla frekari vexti og ýta öflugum fyrirtækjum út fyrir landsteinana eins og fréttir hafa borist af, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið.

Það er þó ekki bara gengi íslensku krónunnar og hátt vaxtastig sem gera íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir í samkeppni við erlend, heldur er það einnig samkeppnishæfni Íslands hvað varðar lög og reglur. Oft hefur verið rætt um kostnað við nýbyggingar og í því samhengi íþyngjandi byggingareglugerðir. Oft gleymist hins vegar að ræða um skatta og reglur í tengslum við lagaumhverfi fyrirtækja enda eflaust ekki það umræðuefni sem er mest spennandi á kaffistofum dags daglega. Þetta eru hins vegar mikilvæg atriði enda geta oft einföld atriði gert það að verkum að samkeppnisstaða Íslands sem lands tækni og nýsköpunar verði að engu.

Sem dæmi má nefna afdráttarskatt (e. withholding tax) á erlendar vaxtagreiðslur sem settur var á árinu 2009 en þessi skattur sem í grunninn á að leggjast á erlenda aðilann leggst í raun á innlenda lántakandann vegna skilmála í langflestum samningum. Má í því samhengi vísa til greinar Jóns Elvars Guðmundssonar í Viðskiptablaðinu þann 1. apríl sl., en þetta litla atriði þrengir enn meira að möguleikum íslenskra aðila til að vaxa á hagstæðan hátt. Ný ríkisstjórn hefur þó boðað endurskoðun á þeim hámörkum sem gilda um skattafrádrætti gegnum Rannís sem er afar mikilvægt, enda má aldrei gleyma því stöðuga verkefni að efla nýsköpun í landinu til að styrkja stoðir atvinnulífsins og þjóðarbúsins. Störf sem skapast í gegnum nýsköpun stuðla oftar en ekki að hærri skatttekjum þar sem þau eru oft hálaunuð störf með tilheyrandi auknum skatttekjum fyrir ríki og sveitarfélög.

Ísland er með afar fáa tvísköttunarsamninga

Afdráttarskattur hefur almennt ekki fengið mikla umfjöllun. Þetta er sá skattur sem t.d. seljandi þjónustu og hugverks greiðir til þess ríkis þar sem kaupandi hans er með heimilisfesti en greiðslan fer í gegnum kaupandann til viðkomandi ríkis.

Þannig getur íslenskur aðili orðið af talsverðum fjármunum ef hann er að selja þjónustu eða leyfi til erlends aðila. Til að nefna dæmi þá myndi aðili sem seldi leyfi fyrir hugbúnaði til Grikklands einungis fá 80% greiðslu fyrir söluna en í tilviki Grikklands er Ísland þó með tvísköttunarsamning við ríkið svo þessi afdráttarskattur er 10% í stað 20% af leyfisgreiðslunni og aðilinn fær í raun 90% af sölunni. Það er hins vegar allt of algengt að ekki er til staðar tvísköttunarsamningur sem þýðir að hinn íslenski aðili verður af enn meiri tekjum enda afdráttarskatturinn oft á bilinu 15-25% og alveg upp í rúmlega 30% í sumum tilvikum. Það munar um minna að fá einungis 75-85% af viðkomandi sölu sem ekki er á bætandi við sterkt gengi og háan fjármögnunarkostnað. Ísland þarf verulega að gefa í og fjölga tvísköttunarsamningum þar sem m.a. þessi skattur er saminn niður. Ísland er í samanburði við nágrannalönd okkar með afar fáa tvísköttunarsamninga eða samtals 44 á meðan Danmörk er með 76, Noregur 87, Holland 95 og Bretland 126. Þessi staða er ekki boðleg fyrir íslenskt viðskiptalíf enda þurfum við annaðhvort að selja vörur á hærra verði eða fá minna í vasann miðað við samkeppnisaðila í okkar helstu samkeppnislöndum.

Óhagstætt umhverfi fyrirtækja á Íslandi – skekkt samkeppnisstaða

Einnig er Ísland aftarlega á merinni varðandi þær reglur sem gilda um nýtingu á sköttum greiddum erlendis líkt og afdráttarskattinum. Þó ríkið hafi heimilað íslenskum aðilum að draga þessa erlendu skatta frá íslenskum skattgreiðslum líkt og lagaheimildir og tvísköttunarsamningar kveða á um, er hins vegar engin heimild til að taka tillit til fyrri ára þegar engar skattgreiðslur á Íslandi eru fyrir hendi á viðkomandi ári. Þetta þýðir t.d. að nýsköpunarfyrirtæki sem er að byggja upp rekstur eða fyrirtæki sem leggur í mikinn einskiptis fjárfestingarkostnað hefur enga möguleika á Íslandi til að fá frádrátt síðar vegna skatta greiddra erlendis og þessi erlendi skattur er því einfaldlega tapaður fyrir félögin. Það þýðir að þó félagið hafi verið rekið með tapi og ekki átt að greiða neinn tekjuskatt þá greiddi það þrátt fyrir það skatta í formi hinna erlendu afdráttarskatta. Þetta er í andstöðu við reglurnar í öllum okkar helstu nágrannalöndum s.s. Bretlandi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð en öll löndin leyfa að minnsta kosti frádrátt vegna skatta greiddra erlendis næstu 5 árin og sum jafnvel lengur. Það þýðir að ef félögin í viðkomandi löndum eru að byggja upp starfsemi sína og eru ekki rekin með hagnaði á fyrstu árunum þá tapa þau ekki beint þessum erlenda skatti heldur geta nýtt hann síðar þegar reksturinn hefur tekið við sér og það kemur til skattgreiðslna.

Þessi staða skekkir verulega samkeppnisstöðu íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. Fyrirtækja sem eru gríðarlega mikilvæg íslensku atvinnulífi og eiga nóg með fyrir að berjast við sterkt gengi krónu og hátt vaxtastig. Það er ekki á það bætandi að ríkisvaldið skekki enn stöðu þeirra með svo óhagfelldum skattareglum, þvert á framkvæmd þeirra ríkja sem við berum okkur saman við.

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á hvert íslenska nýsköpunarfyrirtækið hverfa úr landi eða fjölga störfum erlendis í stað hér á landi. Líkt og það voru skattar sem felldu Al Capone á sínum tíma ættum við ekki að leyfa sköttum að fella íslenska nýsköpun og ýta henni úr landi. Hagsmunir okkar liggja í því að laða að frekari nýsköpun og reyna að styrkja þær stoðir sem til staðar eru. Það verður ekki gert með óheppilegum skattareglum sem eiga sér engin fordæmi í löndunum í kringum okkur.

Höfundur er yfirlögfræðingur LS Retail.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.