*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Týr
18. júlí 2021 12:48

Meðganga Eyþórs

Þrátt fyrir hrakfarir meirihlutans í borginni hefur Eyþór Arnalds ekki enn náð að hífa fylgi Sjálfstæðisflokksins upp.

Haraldur Guðjónsson

Flest heilbrigt og skynsamlegt fólk er með hugann við sumarið, ferðalögin, útileguna o.s.frv. Einhverjir eru með hugann við alþingiskosningarnar sem fram fara í haust. Týr er aftur á móti farinn að huga að sveitarstjórnarkosningum, enda aðeins um níu mánuðir eftir af núverandi kjörtímabili. Þeir líða hratt.

* * *

Vinstri meirihlutinn í Reykjavík féll í síðustu kosningum en var endurreistur með stuðningi Viðreisnar, sem hefur samlagast meirihlutanum svo að vart er hægt að greina flokkinn frá hinum meirihlutaflokkunum. Týr hefur áður fjallað um ástandið í Reykjavíkurborg og tók nýlega þannig til orða að ef borgin væri fyrirtæki væri hún orðin gjaldþrota.

Skuldirnar hrannast upp og báknið vex (að mestu í kerfinu sjálfu), skipulagsmálin eru í ólestri og í borginni er lóðaskortur, engar framfarir hafa orðið í samgöngumálum á kjörtímabilinu og það mætti telja upp fjöldann allan af verkefnum sem lýsa þeirri óráðsíu sem í borginni er. Nægir þar að nefna Braggamálið og Fossvogsskóla. Nú er að verða til nýr skandall við byggingu nýs leikskóla á Kleppsvegi. Það dæmi snýr ekki bara að framúrkeyrslu heldur varpar ljósi á hversu innantóm loforðin voru um fjölgun leikskólaplássa fyrir kosningarnar 2018.

* * *

Þrátt fyrir hrakfarir meirihlutans í borginni hefur Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ekki tekist að auka fylgi flokksins. Eyþór er að vísu í þeirri erfiðu stöðu að vera með klofinn og í raun óstarfhæfan borgarstjórnarflokk. En hann getur að einhverju leyti sjálfum sér um kennt. Ef Eyþór væri sá leiðtogi sem kjósendur í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins héldu að þeir væru að kjósa væri hann búinn að ná tökum á borgarstjórnarflokknum á þeim tíma sem liðinn er og hífa fylgið upp. Hann hefur nú um það bil eina meðgöngu til stefnu, en Týr kýs að stilla væntingum sínum í hóf.

* * *

Útsvarsgreiðendur í Reykjavík vita þó allavega hvað þeir hafa með vinstri meirihlutanum, þó svo að fórnarkostnaðurinn sé hár. Það er þá alltaf hægt að flytja á Selfoss.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.