Allt hefur verið í háalofti vegna ófærðar á höfuðborgarsvæðinu og snjóruðningur er í miklum ólestri í Reykjavík. Á þessu hafa verið gefnar margar skýringar. Sú allra frumlegasta og langsóttasta birtist á forsíðu Fréttablaðsins á þriðjudag: Borginni gengur erfiðlega að hreinsa götur og gangstéttir vegna brests á markaðnum með snjóruðning.

Fréttin fjallar um að fákeppni ríki á markaðnum með snjóruðning og það útskýri hvers vegna þjónustan sé dýr og óásættanleg í hugum borgarbúa. Blaðamaðurinn Björn Þorláksson segist hafa heimildir fyrir þessu úr röðum borgarfulltrúa og hefur eftir Alexöndru Briem, borgarfulltrúa Pírata, að fákeppni geti verið um að kenna. Í fréttinni segir:

„Reykjavíkurborg hefur samið þannig við verktaka sem sinna snjómokstri að á tilteknu tímabili fái þeir greitt fyrir hvern dag, hvort sem þeir þurfa að sinna þjónustu eða ekki. Ef áhlaup verður líkt og síðustu daga þarf borgin að greiða aukagjald þegar verktakinn fjölgar tækjum.“

Þetta hefur ekkert með fákeppni og markaðsbrest að gera. Hér er einfaldlega um samning að ræða sem borgin gerir við einhvern verktaka um að moka og hreinsa snjó. Ef samningurinn er óhagstæður þá er það á ábyrgð meirihlutans. Það er enginn skortur á verktökum sem geta sinnt snjómokstri á höfuðborgarsvæðinu og engar hindranir á ferð snjóruðningstækja milli byggðarfélaga á suðvesturhorninu.

Meirihlutinn virðist temja sér að koma með fjarstæðukenndar útskýringar á því sem miður fer í rekstri borgarinnar. Þegar kom að því að meirihlutinn horfðist í loks í augu við djúpstæðan og augljósan rekstrarvanda borgarinnar fyrr í vetur var stríðsátökum í austurvegi og veirufaraldri kennt um en ekki rekstraróreiðu og miklum vexti verðtryggðra skulda.

***

Margir fjölmiðlar virðast sýna því lítinn áhuga að Ljósleiðarinn, dótturfélag Orkuveitunnar, sé í þann mund að festa kaup á grunnneti Sýnar fyrir fleiri milljarða. Með þessu er borgin að fara samkeppni við einkafyrirtæki í rekstri grunnnets um allt land.

Þessi áform vekja upp margar áleitnar spurningar sem borgarbúar og aðrir eiga skilið að fá skýr svör við. Hvers vegna er skuldsett fyrirtæki í eigu borgarinnar að ráðast í slíka fjárfestingu? Áformin verða óskiljanlegri þegar tekið er mið af fjárhagsstöðu borgarinnar og dökkum horfum í þeim efnum. Það sama gildir um fjárhagsstöðu Orkuveitunnar en skuldsetning hennar hefur aukist mikið og reksturinn versnað að undanförnu.

Morgunblaðið hefur þó sýnt málinu áhuga. Á þriðjudaginn birtist áhugaverð grein eftir Gísla Frey Valdórsson, viðskiptaritstjóra blaðsins, um málið. Þrátt fyrir að fá engin svör frá stjórnendum Ljósleiðarans segir Gísli frá því að félagið þurfi að auka skuldsetningu sína um fjóra til fimm milljarða vegna kaupanna. Heimildir Gísla herma að fjármögnunarkjörin sem félaginu standi til boða sé um 9%. Það er sennilegt miðað við skuldastöðu Ljósleiðarans og vaxtaumhverfi. Gísli bendir á að fjármagnskostnaður Mílu, sem nýlega komst í eigu franska fjárfestingarsjóðsins Ardian, sé um tvö prósent. Ljósleiðarinn mun, gangi áætlanir forsvarsmanna félagsins eftir, verða helsti samkeppnisaðili Mílu og annarra félaga í uppbyggingu fjarskiptaneta hér á landi.

Ljóst er að mörgum spurningum varðandi þetta stóra mál er ósvarað og undarlegt að fleiri fjölmiðlar fjalli ekki með ítarlegum hætti um málið.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 22. desember 2022.