*

mánudagur, 22. júlí 2019
Leiðari
5. janúar 2013 10:25

Meiri samstaða

Það ætti að vera keppikefli stjórnmálamanna næstu fjögur árin að ná fram meiri samstöðu.

Eva Björk Ægisdóttir

Krafan um meiri samstöðu verður sífellt háværari. Þetta er krafan um að samtök launþega og atvinnulífsins tali saman á skynsömum nótum og ekki síður aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld. Opinber átök Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, og Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra fyrir jól sýndu í hvaða öngstræti samskipti manna á mikilvægum stöðum eru komin. Það kemur ekki á óvart að ríkisstjórnin sé ósamvinnuþýð þegar verið er að þrengja að atvinnurekendum, sem hafa litla samúð þar á bæ. Hins vegar segir það heilmikla sögu að norræna velferðarstjórnin, eins og ríkisstjórnin hefur kallað samstarf sitt, er sökuð um svik við verkalýðshreyfinguna.

Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að pólitísk stefnumótun þurfi að einhverju leyti að vera óháð hagsmunahópum. En við núverandi efnahagsaðstæður, þegar brýnt er að allir séu að vinna að sama marki, er mikilvægt að ákveðið samtal og traust ríki á milli forystufólks í stjórnmálum, verkalýðsfélögum, atvinnulífinu og víðar.

Það var til dæmis merkilegt að lesa í viðtali við Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group, að forsætisráðherra hafði ekki fyrir því að svara erindi hans um fund vegna fyrirhugaðrar hækkunar á gistináttaskatti. Björgólfur, sem er handhafi viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins 2012, sagði í viðtali í blaðinu Áramót: „Í þessari umræðu um hækkun á virðisaukaskattinum fannst mér ég bera skyldu til, þar sem ég er í forsvari fyrir stærsta ferðaþjónustufyrirtækið á Íslandi, að fara til forsætisráðherra og gera henni grein fyrir okkar afstöðu til þess hvað gæti gerst við svona ákvörðun,“ sagði Björgólfur.

„Ég hef ekki fengið að funda með henni enn. Þetta var snemma í október og nú er kominn desember. Sennilega eru forsvarmenn í atvinnulífinu henni ekki þóknanlegir.“

Þessu þarf að breyta. Það er ef til vill ekki tilefni til bjartsýni nú þegar stutt er í kosningar og frambjóðendur með hugann við eigin árangur frekar en árangur í stærra samhengi til lengri tíma. Þá er spurning hvort fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að ná sátt um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að ráðast í á fyrsta starfsárinu.

Yfir tuttugu einstaklingar gerðu upp árið 2012 í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Augljóst er, þegar svör þeirra við spurningunni hvað þeir vilja sjá á nýju ári eru lesin, að þolinmæðin er á þrotum. Síðasta ár stóðst ekki væntingar margra sem hefðu viljað sjá efnahagsbatann kominn lengra og bjartsýnina meiri við upphaf nýs árs. Og til þess að það náist á nýju ári er orðið samstaða áberandi í yfirferð forystufólks í atvinnulífinu.

„Þörf er á mun meiri samvinnu á milli stjórnvalda, atvinnulífs og annarra þátttakenda í efnahagslífinu,“ segir Eggert B. Guðmundsson, forstjóri N1. „Við þurfum meiri einingu og þverpólitíska samstöðu um stóru málin. Stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök verða að snúa bökum saman,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania. „Það sem við þurfum er ríkisstjórn sem beitir sér fyrir atvinnustefnu. Í því felst ekki að ríkið eigi að skapa störf, það er hlutverk atvinnulífsins, heldur að skapa umgjörð sem hvetur til fjárfestinga í atvinnulífinu,“ segir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota. Og dæmin eru mun fleiri. Það ætti að vera keppikefli þeirra, sem vilja beita sér í stjórnmálum næstu fjögur árin, að mæta þessari kröfu og ná fram meiri samstöðu. Samstöðu með atvinnulífinu en ekki gegn því.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu 4. janúar 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.

Stikkorð: Leiðarar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.