*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Andrés Magnússon
22. júní 2020 07:46

Menningarbyltingin

Eru fjölmiðlar markaðstorg hugmynda og fjölbreytileika eða er hlutverk þeirra að breytast?

Gunnhildur Lind Photography

Sennilega væri að bera í bakkafullan lækinn lýsingu á atburðarásinni í Bandaríkjunum undanfarnar vikur, allt frá morði lögregluþjóns á blökkumanninum George Floyd í Minneapolis til mótmæla, óeirða og gripdeilda, sem sigldu í kjölfarið. Að ógleymdum háværum deilum um samskipti kynþátta og kynþáttahyggju þar í landi, hvað rasismi sé og hvað sé rasismi.

Í Seattle hefur hluti miðborgarinnar verið undirlagður af mótmælendum, sem lýst hafa yfir aðskilnaði frá Bandaríkjunum, en víða annars staðar virðast yfirvöld nánast hafa gefið sum hverfi upp á bátinn í bili. Á félagsmiðlum er ákafinn litlu ef nokkru minni, jafnvel svo sumir tala uppnumdir um „menningarbyltingu“, sennilega án þess að átta sig á óþægilegu bergmáli frá menningarbyltingunni í Kína forðum tíð.

Ekki er að efa að þar vestra hefur soðið upp úr vegna þjóðfélagslegrar meinsemdar, sem illa hefur gengið að uppræta og í mörgum brennur réttlát reiði vegna þess. Eins eru auðvitað ýmsir, sem telja mikilvægt að hamra það heita járn nú, en finnst það líka tækifæri til þess að ná fram ýmsu öðru á óskalistanum. Eins og gengur.

 * * *

Flest af því er tilefni lærðrar umræðu um þjóðmál í Bandaríkjunum (og víðar, mótmælaaldan hefur breiðst út til margra annarra landa), en flest af því er utan við umfjöllunarefni þessa dálks. Hins vegar hefur þessi „menningarbylting“ líka breiðst út til fjölmiðla á ýmsan hátt, en sjaldnast á þann hátt að ætla megi að það verði fjölmiðlun, upplýstri umræðu og fjölbreytileika til framdráttar. Það á hins vegar vel heima í þessum dálki.

 * * *

Fyrir tveimur vikum, þegar margar helstu borgir í Bandaríkjunum voru undirlagðar af mótmælum og óeirðum, skrifaði öldungadeildarþingmaðurinn Tom Cotton, repúblikani frá Arkansas, grein á skoðanasíður New York Times, þar sem hann hvatti Bandaríkjaforseta til þess að kalla út herlið til þess að stilla til friðar. Cotton er stjórnlyndur og óbilgjarn að upplagi og að því leyti sem greinin vakti athygli (ekki verulega) þá mætti þessi uppástunga hans gagnrýni bæði frá vinstri og hægri, og raunar frá Bandaríkjaher líka.

 * * *

New York Times er með virtustu blöðum í heimi, vinstrisinnað á bandarískan mælikvarða og fylgir demókrötum jafnan að málum, en hefur ævinlega lagt mikið upp úr hlutverki sínu sem alvarlegur fjölmiðill, þar sem skoðanasíðurnar rúma fleiri en eina skoðun. Það sé einmitt ríkur þáttur í hinu frjálslynda erindi blaðsins að þar fái flestar skoðanir að koma fram, skipti þær á annað borð máli.

Þess vegna kom mörgum í opna skjöldu þegar blaðið birti samdægurs grein um hvernig starfsmenn ritstjórnar blaðsins væru skelfingu lostnir yfir birtingu greinar öldungadeildarþingmannsins, sem ógnaði beinlínis lífi þeirra.

Skömmu síðar var bætt við langri skýringu með grein þingmannsins á vef blaðsins, þar sem fundið var að ýmsum staðhæfingum í greininni, og sagt að mistök hefðu átt sér stað, sem hefðu átt að koma í veg fyrir birtingu hennar. Í kjölfarið var þaulreyndur ritstjóri skoðanasíðunnar, James Bennett, látinn taka pokann sinn.

Rétt er að geta þess að í greininni gerði þingmaðurinn greinarmun á réttmætum mótmælum annars vegar og óeirðum og gripdeildum hins vegar, en hann vildi aðeins beita hernum á hina síðarnefndu. 

Þar ræddi ekki heldur um neina sérstaka jaðarskoðun, því skoðanakannanir bentu til þess að meirihluti Bandaríkjamanna væri honum sammála. En burtséð frá því öllu er það auðvitað eitt af hlutverkum ábyrgra fjölmiðla að birta greinar eftir stjórnmálamenn og aðra valdhafa um málefni dagsins, stefnumál og stjórnaraðgerðir.

Það var því afar erfitt að verjast þeirri hugsun að þessi ofsafengnu viðbrögð hafi stafað af því að margir á ritstjórninni væru einfaldlega ósammála, ekki að þeir óttuðust í raun um líf sitt.

 * * *

Á daginn kom þó að þar að baki bjó djúpstæðari vandi fyrir New York Times og raunar fyrir ótal fjölmiðla aðra. Á Twitter sást brátt að menningarbyltingin hafði umturnað ritstjórninni og ýmsir blaðamenn þess birtu þar ásakanir og gagnrýni hver á annan, kollega jafnt og stjórnendur.

Fyrir fólk utan ritstjórnarinnar gat verið erfitt að henda reiður á um hvað var deilt eða hvar víglínurnar lægju. Sumt var augljóslega einlægnisleg en áköf deila um mikilvæg mál, annað sennilega frekar til þess að jafna um gamlar sakir á kaffistofunni.

Dálkahöfundurinn Bari Weiss birti þó eitt tíst, sem útskýrði töluvert um víglínuna. Sumsé að annars vegar væru yngri starfsmenn ritstjórnarinnar, hin vökula (e. woke) vinstrikynslóð, sem væri einfaldlega ósammála hinni eldri vinstrikynslóð, sem kenndi sig við frjálslyndi. Og að í eldfimu andrúmslofti dagsins legði gamla settið niður vopnin, nánast mótstöðulaust.

 * * *

Hér er ekki rými til þess að fjalla um hvað einkennir hina vökulu pólitík og hvað aðskilur hana frá hefðbundinni, frjálslyndri vinstrimennsku.

Um það hefur margt verið ritað upp á síðkastið, en í fljótu bragði má segja að hinir vökulu séu mjög vakandi fyrir hvers konar mismunun, jaðarsetningu og (ætlaðri) lítilsvirðingu, einkum í garð minnihlutahópa, en jafnframt er umburðarlyndi fyrir öðrum skoðunum af skornum skammti, svo minnir um margt á hreintrúarmenn fyrri alda. Og sumpart ræðir þar auðvitað um kynslóðaátök.

 * * *

Þessi uppákoma á New York Times — sem enn er ekki bitið úr nálinni með, hreinsanir standa enn yfir — væri alvarleg ein og sér, en hún er hins vegar alls ekkert einsdæmi.

Virtir og vandaðir ritstjórar eins og David Remnick á The New Yorker og Jeffrey Goldberg hjá The Atlantic hafa komist að því fullkeyptu síðustu daga að hugmyndir þeirra um fjölmiðla sem markaðstorg hugmynda og fjölbreytileika eiga ekki upp á pallborðið hjá yngri hluta ritstjórnanna, sem oft eru í meirihluta.

Fjölmiðlar á borð við The New Republic, Salon og Vice, sem löngum lögðu mikið upp úr því að birta alls kyns ögrandi skoðanir af mismikilli alvöru, enduróma nú orðið frekar fyrirsjáanlegar og gleðisnauðar trúarjátningar í takt við múgæsingu dagsins. Og kannski þetta með menningarbyltinguna eigi betur við en margur hugði, eins og í liðinni viku þegar Zack Beauchamp, reynslubolti á Vox, neyddist til þess að birta társtokkna sjálfsgagnrýni eftir að hafa tíst eitthvað, sem var ekki algerlega eftir höfði hins vökula hugmyndafræðieftirlits. Hverjum hefði dottið í hug að maóisminn lifði góðu lífi þar?

 * * *

Það er mögulega eitthvað, sem áhugamenn um stjórnmál kunna að vilja velta fyrir sér, því það er eftirtektarvert að þessar menningarbyltingar eiga sér aðeins stað á þeim miðlum sem standa til vinstri við miðju, sennilega af því að hin vökula kynslóð leitaði þangað á sínum tíma og á nú nægilega mikið undir sér til þess að velta hinum miðjusæknu og miðaldra úr sessi. Hins sama verður miklu síður vart á miðjunni og alls ekki á hægri vængnum. Sem varla verður til þess að minnka skautunina og óróann í pólitískri umræðu vestra. Eða annars staðar ef menningarbyltingin breiðist út.

 * * *

Í því ljósi má segja að hinar frjálslyndu stofnanir hafi glatað frjálslyndi sínu. Það er ekki heldur auðvelt að sjá fyrir hvernig trúverðugleika fjölmiðla reiðir af ef ritstjórnirnar eru helteknar af vökulum og einstrengingslegum skoðunum, sem kunna að eiga sér mikið fylgi þar innan dyra, en fráleitt hjá almenningi. Hvað þá ef það er allt gert í nafni tilfinningalegs öryggis blaðamanna, þessara sömu og eiga að heita óttalausir leitendur staðreynda og sannleika. Í þágu lesenda sinna, ekki eigin hugsjóna.

Því blaðamennska er ekki heiglum hent.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.