Fyrir skömmu bárust fregnir af því að Kvika banki og hluthafar GAMMA hefðu undirritað yfirlýsingu um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. GAMMA yrði áfram rekið undir eigin nafni, en markmið kaupanna væri að styrkja bankann á sviði eigna- og sjóðastýringar og erlendrar starfsemi. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig starfsemi þessara aðila þróast gangi kaupin eftir, ekki síst í ljósi þess að undir hatti Kviku starfar þegar rekstrarfélagið Júpíter, en ætla má að einhver skörun verði á starfsviði þess og GAMMA.

Frá sjónarhóli hugverkaréttarins eru þessi viðskipti einnig áhugaverð. GAMMA og Júpíter eiga það sameiginlegt að hafa staðið í ágreiningi vegna þeirra auðkenna sem þau eru rekin undir. Bæði hafa þau reyndar haft betur og auðkennin eru í dag skráð vörumerki hérlendis fyrir tilekna vöru og þjónustu. Í tilviki GAMMA var m.a. tekist á um það hvort eldri innlend skráning óskylds aðila á sama merki fyrir hliðstæða þjónustu stæði í vegi fyrir notkun GAMMA á auðkenninu. Niðurstaða dómstóla var sú að eldri skráningin skyldi felld úr gildi fyrir tiltekna flokka vöru og þjónustu, enda hefði eigandi hennar ekki sýnt fram á notkun merkisins innan fimm ára frá skráningu þess.

Hvað Júpíter varðar andmælti eigandi merkisins Jupiter, sem skráð er víða um heim fyrir fjármálaþjónustu, skráningunni. Niðurstaða áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar var sú að tilvist hins erlenda merkis haggaði ekki hinni íslensku skráningu, enda vörumerkjaréttur að meginstefnu landsbundinn. Þegar Kvika skipuleggur starfsemi sína utan landsteinanna gæti hins vegar verið skynsamlegt að hafa í huga að merkin tvö eru bæði þess eðlis að þau gætu átt erfitt uppdráttar erlendis, enda algengt að fyrirtæki velji sér nöfn pláneta og stafi gríska stafrófsins til þess að auðkenna margskonar starfsemi.