Árið 2021, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða. Fyrr í dag var fjallað um þá pistla sem voru í sætum sex til tíu yfir þá sem mest voru lesnir á árinu 2021. Hér á eftir fylgja þeir fimm sem vinsælastir, eða umdeildastir, voru.

1. Tækifærissinninn og stórkapítalistinn Gunnar Smári

Í mest lesna pistli Óðins á síðasta ári fjallaði hann um sósíalistaforingjann Gunnar Smára Egilsson. Hrakti Óðinn þær fullyrðingar Gunnars Smára um að hann hafi ekki átt „kapítal“ er hann var forstjóri Dagsbrúnar á árunum fyrir hrun. „Óðinn telur sósíalismann mikið skaðræði fyrir menn og börn. En Óðinn ber virðingu fyrir skoðun þeirra sem í einlægni trúa á hugsjónir sínar, hversu vitlausar sem þær eru. En gæti verið að Gunnar Smári trúi ekki á sósíalismann nú frekar en kapítalismann þá,“ sagði m.a. í pistli Óðins.

2. Uppsagnarbréf forstjóra Landspítala

Í næst vinsælasta pistli Óðins benti hann á að íslenskt heilbrigðiskerfi hefði alls ekki verið fjársvelt og ræddi um rekstrarvanda flaggskips heilbrigðiskerfisins, Landspítalans. „Það er ljóst að stjórnendur Landspítalans eru ekki vandanum vaxnir. Allir sjá að Covid-19 hefur haft mikil áhrif á rekstur spítalans. En það er verkefni stjórnenda að bregðast við vandanum en ekki að koma stöðugt fram í fjölmiðlum og senda stjórnvöldum minnisblöð og væla yfir stöðunni. Það er ekkert gagn að slíkum mönnum og allra síst þegar reynir á,“ sagði m.a. í pistlinum. Hvatti hann þáverandi forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson, til að skrifa sitt síðasta bréf í starfi; uppsagnarbréfið. Rúmum mánuði síðar fékk Óðinn ósk sína uppfyllta.

3. Klúður Svandísar og björgunarpakki Kára

Í ofangreindum pistli ræddi Óðinn um bóluefni og sagði ljóst að heilbrigðisyfirvöld hafi brugðist er kom að því að útvega Íslendingum bóluefni gegn Covid-19. Þegar pistillinn var skrifaður virtist markmið stjórnvalda um að vera búið að bólusetja fullorðna landsmenn um sumarið fjarlægur draumur en þegar upp var staðið stóðst það markmið. Í pistlinum velti Óðinn einnig vöngum um hvort nauðsynlegt sé að verja fé í að starfrækja Lyfjastofnun hér á landi. „Það kann vel að vera að óskynsamlegt sé að vera með sérstakt lyfjaeftirlit hér á landi vegna bóluefnisins en þá hlýtur sú spurning að vakna hvort við eigum ekki allt eins að taka mark á bandaríska lyfjaeftirlitinu frekar en því evrópska. Enn stærri spurning vaknar líka. Er einhver ástæða yfir höfuð að hafa nokkurt lyfjaeftirlit á Íslandi heldur spara verulega fjármuni og treysta á mat erlendra lyfjaeftirlita?,“ spurði Óðinn.

4. Íslandsbanki og viðundrið Viðreisn

Óðinn gerði gagnrýnisraddir sem töldu að þriðjungshlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka hefði verið seldur á undirverði að umfjöllunarefni. Rakti Óðinn nokkuð ítarlega ástæðurnar fyrir því að þessi gagnrýni héldi ekki vatni. Síðar í pistlinum gerði hann stjórnmálaflokkinn Viðreisn að umtalsefni. „En núna skilur Óðinn betur hvað Viðreisn ætlaði að reisa við. Sjálfa sig. Fyrst þurfti auðvitað að koma flokknum í steik og það tókst með því að fleygja stofnandanum og fyrsta formanninum út í hafsauga, eða öllu heldur í neðsta sætið.“

5. Steingrímur tekur af sér grímuna

„Nú eru aðeins nokkrir mánuðir þar til Steingrímur J. Sigfússon lætur af þingmennsku eftir 38 ára setu á Alþingi. Það verður lítil eftirsjá að Steingrími og segja má að fáir þingmenn hafi gert eins mikið ógagn og er þó keppnin sæmilega hörð." Á þessum orðum hófst pistill Óðins, sem var ekkert að skafa af hlutunum frekar en fyrri daginn. Að því loknu rakti hann í löngu máli tilraunir Viðskiptablaðsins til að fá afhend gögn setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Lindarhvoll var stofnaður í apríl 2016 og var tilgangur félagsins að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum sem ríkissjóður fékk afhentar frá slitabúum föllnu bankanna.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .