*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Óðinn
2. janúar 2021 16:01

Mest lesnu pistlar Óðins: 1-5

Árið 2020, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða.

Haraldur Guðjónsson

Árið 2020, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða. Fyrr í dag var fjallað um þá pistla sem voru í sætum sex til tíu yfir þá sem mest voru lesnir á árinu 2020. Hér á eftir fylgja þeir fimm sem vinsælastir, eða umdeildastir, voru.

1. Samstaða um gjaldþrot og hlutabætur

Í mest lesna pistli Óðins á síðasta ári fjallaði hann um ferðalög embættismanna, samstöðu flugáhafna um að Icelandair fari í þrot og undarlega umræðu um hlutabótaleið. „Óðinn skilur ekki þessa umræðu um að Icelandair sé eina flugfélagið í heiminum sem geti flogið til Íslands og þess vegna verði að bjarga félaginu hvað sem það kostar. Er það virkilega svo að flugvélarnar þurfi að vera af Boeing gerð, vera að meðaltali 22 ára og vera með arískum, íslenskum áhöfnum?“ sagði m.a. í pistli Óðins.

2. Fríhöfnin er ekki fríhöfn

Í sínum næst mest lesna pistli fór Óðinn ofan í saumana á ársreikningi Fríhafnarinnar fyrir árið 2019. „Þar kemur fram að hagnaður eftir tekjuskatt reyndist 281 milljón króna. Það verður að teljast heldur rýr uppskera í tvöfaldri einokunarverslun, sem selur að eigin sögn vörurnar tollfrjálst - duty free - rétt eins og verslunin nefnir sig á ensku. Og verðlagningin nú eins og hún er í samanburði við það sem gerist í almennum verslunum,“ sagði m.a. í pistlinum.

3. Efnahagsveiran breiðist út

Í ofangreindum pistli ræddi Óðinn þann efnahagsvanda sem þjóðarin stæði frammi fyrir, en á þeim tíma sem pistillinn var skrifaður hafði tekist að ná tökum á fyrstu bylgju faraldursins. „Kapítalistar geta ekki gert þá kröfu að njóta ágóðans þegar vel gengur en láta aðra um að greiða tapið þegar illa gengur.“ 

4. Hjörtun í Namibíu og Borgartúni

Í umræddum pistli gerði Óðinn eftirlitsiðnaðinn hér á landi, sem og víða um heim, að umtalsefni. „Krúnudjásn íslenskra eftirlitsstofnanna“, Samkeppniseftirlitið, var rætt í þaula. „Þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, hugðist færa málefni Samkeppniseftirlitsins til nútímahorfs með tilslökunum á íþyngjandi samkeppnislögum síðastliðið haust fékk hún yfir sig skæðadrífu af gagnrýni frá stjórnendum eftirlitsins. Þar voru menn tilbúnir til þess að berjast með kjafti og klóm gegn öllum breytingum.“ 

5. Ríkisstuðningur við Icelandair

„Mótaðar hugmyndir eru nú í skoðun innan stjórnsýslunnar um að ríkissjóður veiti Icelandair lán eða ríkisábyrgð á lánum. Óðinn hefur verulegar efasemdir um að ríkisstjórnin hlutist til um reksturs eins fyrirtækis. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru nú í miklum erfiðleikum og myndu þiggja slíka ríkisaðstoð,“ sagði Óðinn m.a. í pistlinum. Þá benti hann á að „það væri því galið af ríkisvaldinu að stíga inn í félagið með lánafyrirgreiðslu eða öðrum ríkisstuðningi, án þess að farið hafi verið í niðurskurðaraðgerðir í félaginu,“ og benti í þessu samhengi á háan launakostnað félagsins.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.