*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Óðinn
26. desember 2019 17:01

Mest lesnu pistlar Óðins 2019: 1-5

Árið 2019, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða.

Guðni Ágústsson og Helgi Magnússon saman þegar æviminningar þess síðarnefnda komu út.
Guðmundur Kr. Jóhannesson

Árið 2019, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða. Fyrr í dag var fjallað um þá pistla sem voru í sætum sex til tíu yfir þá sem mest voru lesnir á árinu. Hér á eftir fylgja þeir fimm sem vinsælastir, eða umdeildastir, voru.

1. Baksýnisspegill Helga Magnússonar

Árið var viðburðaríkt hjá Helga Magnússyni en á því keypti hann meðal annars Fréttablaðið, sameinaði það svo Hringbraut og keypti að endingu DV líka. Áður en til þess kom hafði hins vegar komið út bók með endurminningum Helga af ævi sinni.

„Helgi Magnússon er einn þeirra í íslensku samfélagi sem telja að íslenska krónan verði að víkja og í staðinn skuli að taka upp evru. Óðinn er sammála því að Ísland sé lítið myntsvæði og sveiflurnar geti verið miklar í takt við gæftir í atvinnulífi. En sveiflurnar hafa einnig verið miklar á öðrum helstu gjaldmiðlum; jeninu, pundinu og Bandaríkjadal. Að evrunni ógleymdri. Svo rökin um sveiflur og flökt á krónunni eru hreint ekki jafnhaldbær og margir vilja vera láta.“

2. Samherji og sameiginleg sök

Brask og framganga Samherja í Afríku vakti mikla athygli á síðustu mánuðum ársins. Ummæli Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, sem féllu í ræðu sem hann flutti í álverinu í Straumsvík, voru meðal þess sem Óðinn velti fyrir sér.

„Hvað er forsetinn að segja? Að Íslendingar geti ekki borið höfuðið hátt vegna Samherjamálsins hins síðara? Af hverju minnist forsetinn ekki á Samherjamálið hið fyrra og grimmilega misnotkun embættismanna á valdi sínu? Þar má þó að einhverju leyti segja að Íslendingar beri ábyrgð á, því ekki bera embættismennirnir ábyrgð. Nei, það er sjálfsagt að leyfa vinstri mönnunum að tala þjóðina niður, það verið þeirra meginstef áratugum saman. En það er ekki þitt hlutverk, forseti góður.“

3. Hvítbók, Blöndal og kreppur

Undir lok síðasta árs var birt hvítbók um fjármálakerfið. Formaður starfshópsins var Lárus Blöndal en í pistlinum rifjaði Óðinn meðal annars upp þegar Lárus var í hópi þeirra sem sannfærði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um að styðja síðasta Icesave-samninginn.

„Það er einkennilegt og ekki líklegt til árangurs að minna þá reglulega á sem voru staðfastir gegn löglausum kröfum Breta og Hollendinga, og höfðu rétt fyrir sér um afleiðingar þess ef Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja Icesave, að tefla fram mönnum með svo slaka dómgreind fyrir hönd flokksins.“

4. Hugo Chavez og ástandið í Venesúela

Undanfarin ár hefur heimsbyggðin fylgst með hugmyndafræði- og efnahagslegu gjaldþroti Venesúela en óöld hefur ríkt þar um árabil. Í upphafi árs birtist fréttaskýring RÚV um málefni landsins sem fór öfugt ofan í marga, þar á meðal Óðin.

„Fréttaskýring Ríkisútvarpsins um ástandið í Venesúela á föstudaginn var ekki stofnun sem fær 4,7 milljarða af skattfé almennings til sóma. Óðinn er ekki viss um að þetta hafi endilega með ráðum gert. Fréttamaður hefur líklega lesið þann hálfsannleik á Twitter-straumi Jeremy Corbin, leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi. Og víst er að Wall Street Journal, Financial Times og The Economist berast ekki í Efstaleiti. En Viðskiptablaðið gerir það hugsanlega enn og því finnst Óðni mikilvægt að koma þessari leiðréttingu á framfæri.“

5. Ríkisvæðing fjölmiðla og plástur á krabbamein

Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um að færa fjölmiðla á ríkisspenann hefur dúkkað reglulega upp í umræðunni allt árið. Óðinn hrósaði ráðherranum fyrir að átta sig á yfirvofandi hættu en benti svo á að lausnin væri svipuð því að „setja plástur á krabbamein“.

„Meinið á íslenskum fjölmiðlamarkaði er Ríkisútvarpið. Árið 2014 fékk stofnunin 3,2 milljarða kr. á fjárlögum en fær um 4,7 milljarða í ár. Þá eru ótaldar tekjur Ríkisútvarpsins af lóðabraski með land á besta stað á höfuðborgarsvæðinu, sem munu nema um 3 milljörðum á framkvæmdatímanum í Efstaleiti. Aldrei í sögu stofnunarinnar hefur hún fengið jafn miklar tekjur á ári, utan ársins 2006 þegar enn einu sinni var hreinsaður skuldahali vegna slaks rekstrar. Það var einstök gráglettni sögunnar, að ríkismiðillinn varð bæði fyrir áföllum í bóluhagkerfinu og í hruninu, en ólíkt öðrum fjölmiðlum var það allt jafnað af skattborgurum.“

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.