*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Óðinn
2. janúar 2021 10:02

Mest lesnu pistlar Óðins: 6-10

Árið 2020, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða.

Bjarni Benediktsson er fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður VG, og Sigurður Ingi Jóhannsson er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur tíðkast á Viðskiptablaðinu við hver áramót að taka saman þær fréttir og pistla sem hæstu flugi náðu á árinu. Skoðanir Óðins eru þar engin undantekning. Hér að neðan má sjá þá pistla sem voru í 6.-10. sæti yfir mest lesnu greinarnar ársins 2020.

6. Fundur um ekki neitt og viðbrögð seðlabanka

„Formenn ríkisstjórnarflokkanna héldu fréttamannafund í fyrradag. Þar kom í ljós fullkomið forystuleysi þessa annars ágæta fólks. Margir hefðu haldið að ráðherrarnir hefðu lært á sínum heldur langa ferli í stjórnmálum að halda ekki fréttamannafundi um ekki neitt og sleppa frekar slíkum fundum ef ekki er unnt að tala með skýrum og ákveðnum hætti,“ var fyrsta málsgreinin í pistli Óðins. Umræddur fundur var haldinn skömmu eftir að COVID-19 faraldurinn var búinn að taka sér bólfestu hér á landi og gagnrýndi Óðinn að niðurstaða fundarins hafi verið sú að hugsanlega myndi ríkisstjórnin gera eitthvað til að bregðast við ástandinu. Einhverju síðar kynnti ríkisstjórnin þó sinn fyrsta aðgerðapakka og hafa fleiri fylgt í kjölfarið.

7. Icelandair og vinnudeilur

Í pistlinum spáði Óðinn því að atvinnurekendur myndu í fyrsta sinn í langan tíma svara af krafti fráleitum kröfum launþegasamtaka. „Eftir að flugfreyjur felldu kjarasamninginn í byrjun júní var augljóst að það gætti verulegs misskilnings meðal flugfreyja um stöðu efnahagsmála, stöðu Icelandair og ekki síst samningsstöðu þeirra sjálfra. Staðan hafði algjörlega snúist við. Samningsstaða flugfreyja var allt í einu orðin engin vegna þess að gjaldþrot blasti við flugfélaginu.

Þangað til sú staða kom upp má segja að samningsstaða félagsins gagnvart F stéttunum þremur, flugmönnum, flugfreyjum og flugvirkjum, hafi verið engin. Því hver um sig gátu stéttirnar stórskaðað starfsemi félagsins með hótun um vinnustöðvun og þar með valdið félaginu gríðarlegu fjárhagstjóni. Og þetta gerðu stéttirnar þrjár reglulega frá því að félagið var endurreist árið 2009,“ sagði m.a. í pistli Óðins. Það fór þó svo að lokum að aðilar náðu sátt og undirritaður var kjarasamningur.

8. Fordæmalausar aðstæður og fordæmi

Enn fjallaði Óðinn um ófarir Icelandair vegna COVID-19 en í þetta sinn var kastljósinu beint að háum kostnaði innan raða félagsins og háum launum flugmanna Icelandair. „Það vita allir, nema flugmenn Icelandair af einhverri óskiljanlegri ástæðu, að laun flugmanna Icelandair voru um 30% hærri en laun flugmanna Wow air þegar var búið að leiðrétta fyrir ýmsum breytum, s.s. vinnutíma, og gera þau þar með samanburðarhæf. Laun flugmanna margra annarra flugfélaga sem flugu til Íslands voru enn lægri.“ 

9. Þríeykið og þingræðið, umræða og uppeldi

Óðinn lýsti yfir þeirri skoðun sinni að ríkisstjórnin væri búin að koma sér í erfiða stöðu með óformlegu valdaframsali til þríeykisins ókjörna og ábyrgðarlausa. Sagði Óðinn ástandið minna á fyrir hundrað árum síðan, efnahagsástandið sé um margt svipað og fyrir hundrað árum hafi ráðherrarnir verið þrír. Jón forsætisráðherra, Magnús fjármálaráðherra og Pétur atvinnumálaráðherra. 

„Búið er að ryðja ríkisstjórnina, afnema þingræðið og aftur orðnir þrír ráðherrar. Ráðherrarnir heita Alma, Þórólfur og Víðir. Þetta fékkst endanlega staðfest á þriðjudag þegar fyrrverandi forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra voru spurðir af mbl.is út í tillögur sóttvarnalæknis um afléttingu hafta á lífi fólks.

Á leið inn á ríkisstjórnarfund var heilbrigðisráðherrann fyrrverandi spurður hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar á því sem sóttvarnalæknir hefur lagt til og Svandís svaraði: „Ég býst ekki við því." Forsætisráðherrann fyrrverandi sagði að hún hefði ekki sjálf séð minnisblað heilbrigðisráðherra um málið, en að hún þekkti efni tillagna sóttvarnalæknis og gerði ráð fyrir að þetta yrði „í sama dúr".

Óðinn setur þetta fram bæði í gamni og alvöru. Auðvitað eru ráðherrarnir enn ellefu. En ríkisstjórnin er búin að koma sér í erfiða stöðu með óformlegu valdaframsali til þremenninganna. Það þarf enginn að efast um að það að margir alþingismenn efast nú um að hraðinn á afléttingu aðgerðanna frá því í síðasta mánuði verði nægilega mikill.“

10. Núllvextir, fasteignamarkaðurinn og ærumálin

Óðinn velti vöngum yfir fasteignaverði á næstu árum, úr einu í annað voru ærumálin svonefnd einnig tekin fyrir. 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.