*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Óðinn
2. janúar 2022 11:01

Mest lesnu pistlar Óðins: 6-10

Árið 2021, líkt og fyrri ár, var fátt sem Óðinn lét sig ekki varða.

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var ekki parsátt með skrif Óðins sem henni tengdust.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur tíðkast á Viðskiptablaðinu við hver áramót að taka saman þær fréttir og pistla sem hæstu flugi náðu á árinu. Skoðanir Óðins eru þar engin undantekning. Hér að neðan má sjá þá pistla sem voru í 6.-10. sæti yfir mest lesnu greinarnar ársins 2021.

6. Haraldur, verðmæti og bitri blaðamaðurinn

Í þetta skiptið gerði Óðinn yfirllýsingu Haraldar Þorleifssonar, stofnanda Ueno, að allir skattar af sölu félagsins til Twitter yrðu greiddir á Íslandi. „Þórður Snær Júlíusson, hinn bitri ritstjóri vefritsins Kjarnans, fjallar um þetta í leiðara 13. mars. Þar hrósar hann Haraldi mikið fyrir að velja að greiða skatta á Íslandi,“ skrifaði Óðinn m.a. Benti hann jafnframt á að staðreyndin sé sú að einstaklingar geti ekki valið hvar þeir greiða skatta. Um það gildi lög, reglur og samningar milli landa.   

7. Kynjaveröld Kristrúnar og hættuspil

Í þessum pistli svaraði Óðinn ásökunum Kristrúnar Frostadóttur og samflokksfólks hennar í Samfylkingunni um að hann hafi uppnefnt hana stjörnuhagfræðing. Benti Óðinn á að Kristrún sjálf hefði fyrst notað hugtakið til að lýsa sjálfri sér. Auk þess vísaði Óðinn ýmsum öðrum ásökunum Kristrúnar á bug um að kynferði hennar hefði fyrst og fremst verið ástæða gagnrýni Óðins á skoðanir hennar um húsnæðismarkaðinn. Tók Kristrún þar upp kynjaspilið að mati Óðins, sem geti reynst hættuspil fyrir stjórnmálamenn. Pistillinn sem er hér í sætinu að neðan varð kveikjan að ritdeilum þingmannsins og Óðins.

8. Venjulegir hagfræðingar og stjörnuhagfræðingar

Hér er í öllu sínu veldi pistill Óðins sem vakti vægast sagt litla kátínu þingmanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur, sem þarna var enn frambjóðandi. Í pistlinum lýsti Óðinn sig sammála Seðlabankastjóranum Ásgeiri Jónssyni um að stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum hefði áhrif á húsnæðisverð. Kristrún var ósammála þeim og svaraði Óðinn færslu sem hún hafði skrifað um málið á samfélagsmiðlum. Auk þess kom hann inn á áskriftarréttindi Kristrúnar sem henni áskotnaðist í fyrra starfi sínu hjá Kviku banka. 

9. Stórkaupmaðurinn og meðvirknin í OR

Í þetta skiptið gerði Óðinn gagnrýni Eiríks Hjálmarssonar, fyrrum upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar og nú sérfræðingi veitunnar í samfélagsábyrgð, á hendur auglýsinga kaupmannsins Bolla Kristinssonar. „Óðinn hefur hlustað á auglýsinguna og finnst hún álíka ómálefnaleg og margt sem sagt er í stjórnmálunum þessi dægrin. Þar eru samflokksmenn Dags B. Eggertssonar ekki heldur saklausir," sagði Óðinn m.a. „Eiríkur Hjálmarsson ætti að þekkja stjórnmálin og söguna ágætlega eftir að hafa verið aðstoðarmaður tveggja borgarstóra, þeirra Þórólfs Árnasonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, á árunum 2003-2006. Er þetta í fyrsta sinn sem ráðist er að borgarstjóra í Reykjavík með ómálefnalegum hætti? Svarið er nei. En Eiríkur Hjálmarsson er engu betri en Bolli Kristinsson í pistli sínum þar sem hann ræðst á flest félög atvinnurekenda og þrjá fjölmiðla, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt," bætti hann við. Síðar sneri Óðinn sér að því að gagnrýna viðbrögð OR við pistli Óðins þar sem spurðar voru áleitnar spurningar um þetta opinbera fyrirtæki sem nýtur algjörra markaðslegra yfirburða.  

10. Sala Íslandsbanka og spekingarnir

Óðinn gerði gagnrýni Guðrúnar Johnsen, hagfræðings hjá VR, á sölu á hluta ríkissjóðs í Íslandsbanka að umtalsefni. Rifjaði hann upp fyrri orð Guðrúnar um tjón sem íslenskir ráðherrar ollu með vanrækslu sinni í aðdraganda hruns viðskiptabankanna haustið 2008, sem reyndust algjör della. „En rétt eins og Jón Ásgeir þá snýr Guðrún Johnsen alltaf aftur og aftur. Þá er betra að muna söguna," sagði Óðinn í lok pistilsins.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.