*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Týr
27. desember 2021 16:03

Mest lesnu pistlar Týs 1-5

Pistlar Týs voru mikið lesnir yfir árið, en hér er listi yfir þá pistla sem voru í 1. til 5. sæti árið 2021.

Gísli Marteinn Baldursson var viðfangsefni mest lesna Týspistils ársins, ásamt þeim fimmta mest lesna.
Skjáskot

Efnistök Týspistla ársins voru fjölbreytt, enda árið viðburðaríkt. Eftirfarandi eru fimm mest lesnu pistlarnir.

1. Dýrt spaug hjá RÚV
Sex manna teymi ríkisstarfsmanna skrifar vikulega þriggja mínútna brandaraseríu Gísla Marteins Baldurssonar, skemmtikrafts á Ríkissjónvarpinu. Þrátt fyrir fjálglegt tal stjórnmálamanna um mikilvægi einkarekinna fjölmiðla nýtur RÚV algerrar sérstöðu á fjölmiðlamarkaði í krafti fjárveitinga og í gegn um útvarpsgjaldið, sem gerir því kleift að skrifa eina dýrstu brandara landsins.

2. Katrín veit of mikið
Týr fór yfir mögulegar stjórnarmyndanir í kjölfar þingkosninga í haust, og komst að þeirri niðurstöðu að ástæða þess að Katrín Jakobsdóttir ætti í viðræðum við Bjarna Benediktsson og Sigurð Inga Jóhannsson en ekki stjórnarandstöðuflokkana væri sú að hún vissi sem væri að þægilegra yrði að vinna með þeim fyrrnefndu en að smala köttum í fjögur ár. 

3. Ráðherra úti á rúmsjó
Jón Gunnarsson rökstuddi eigin ráðherrastól á þann veg að hann hefði sterkt umboð úr síðustu kosningum og kjördæmi sínu, og sagðist ekkert hafa sóst harðar eftir stólnum „en gengur og gerist meðal þingmanna“. Týr sagði alla vita að hið síðarnefnda væri helber þvættingur, og tætti svo í sig fyrrnefndu rökin.

4. Dómari missir kúlið
Forseti hæstaréttar, Benedikt Bogason, fór mikinn í fjölmiðlum eftir að hafa tapað meiðyrðamáli sem hann höfðaði á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni á þriðja dómsstigi. Týr taldi þögnina sem þangað til hafði ríkt meðal dómara við hæstarétt um bók Jóns Steinars – hvar hann reifaði meint afglöp réttarstigsins eftir hrun – hafa verið illskárri en tilfinningalegt upphlaup Benedikts.

5. Vondu skoðanir Gísla Marteins
Gísli Marteinn Baldursson, sem einnig var viðfangsefni mest lesna Týspistils ársins hér að ofan, hefur verið iðinn að tjá sig um samfélagsleg málefni þrátt fyrir að siðareglur RÚV kveði sérstaklega á um að starfsmenn virði ákveðin mörk við þátttöku í slíkri umræðu, og flestir haldi þeir sig einfaldlega til hlés á þeim vettvangi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.