Týr lét að sér kveða eins og honum er einum lagið á nýliðnu ári enda af nægu að taka. Pistlar hans vekja jafnan nokkra athygli, en hér eru 6. til 10. mest lesnu pistlar hans á árinu reifaðir.

6. Raunir miðaldra manns

Týr tók starfsvettvangsskipti Einars Þorsteinssonar fyrir og velti vöngum yfir því hvað vakti fyrir honum bæði við þá ákvörðun og ekki síður þá að ganga inn í nýfallinn borgarstjórnarmeirihlutann.

7. Formannshugmynd Guðlaugs Þórs er byggð á misskilningi

Týr taldi framboð Guðlaugs Þórs gegn sitjandi formanni og fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, ólíklegt, en fór þó yfir þær forsendur sem Guðlaugur hafði þá gefið og hvernig þær máluðu hann sjálfan í mun verra ljósi en andstæðinginn sem hann hugðist leysa af hólmi.

8. Sæstrengjabrölt Rússa

Brölt rússneskra herskipa í nálægð við sæstreng milli Íslands og Evrópu sem tengir landið við internetið á þeirri heimsálfu var reifað og Týr fór yfir helstu hættur sem af því gætu stafað.

9. Skuldir Samfylkingarinnar

Sitt sýnist hverjum um það hvað Samfylkingin skuldar þjóðinni. Einn þingmaður af þeim sex sem flokkurinn hefur í dag á þingi orðaði það sem svo á dögunum að Samfylkingin skuldaði þjóðinni að gefa Sjálfstæðisflokknum frí, en Týr taldi flokkinn hins vegar helst skulda þjóðinni bætur fyrir það fjárhagstjón sem hann hefur valdið henni með stjórnarsetu í borgarstjórn Reykjavíkur og ríkisstjórn Íslands í kjölfar hrunsins.

10. Gunnar Smári tapar peningum

Þegar fjárfestar og athafnamenn tapa peningum heyrist gjarnan lítið í almenningi eða helstu álitsgjöfum vinstrisins, en þegar þeir græða á sambærilegum áhættusömum viðskiptum getur allt orðið vitlaust.