*

föstudagur, 3. júlí 2020
Óðinn
26. desember 2019 10:03

Mest lesnu pistlar Óðins 2019: 6-10

Það hefur tíðkast á Viðskiptablaðinu í lok hvers árs að taka saman þær fréttir og pistla sem hæstu flugi náðu á árinu.

Bragginn og frægustu strá landsins.
Haraldur Guðjónsson

Það hefur tíðkast á Viðskiptablaðinu í lok hvers árs að taka saman þær fréttir og pistla sem hæstu flugi náðu á árinu. Skoðanir Óðins eru þar engin undantekning. Hér að neðan má sjá þá pistla sem voru í 6.-10. sæti yfir mest lesnu greinarnar.

6. Kjarasamningar, Saga Class Svandísar og hagvaxtarhorfur

Eftir talsverðar áhyggjur í kringum kjarasamningsviðræður náðust samningar sem reyndust „mun skynsamlegri en flestir þorðu að vona.“ Að mati Óðins urðu samningarnir til þess að slá vopnin úr höndum opinberra starfsmanna í samningaviðræðum þeirra.

„Þeir munu ekki fá hækkanir umfram hinn almenna markað. Enda eru ekki nokkur rök fyrir því. Til að mynda fá læknar að jafnaði hærri laun á Íslandi í dag en í Svíþjóð. Og umfram allt, þá eru forsendur kjarabóta aukin efni þjóðarbúsins, sérstaklega þá auðvitað útflutningsgreinanna, þar sem hin raunverulega verðmætasköpun verður til.“

7. Borgarlína, Gísli Marteinn og götuvitarnir

Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu gengu á árinu til frekari samninga vegna uppbyggingar borgarlínu. Hugmyndir um verkefnið liggja nokkuð ljósar fyrir en viðbúið er, svona í ljósi sögunnar, að kostnaðaráætlanir gætu verið stöngin út. Óðinn drap niður penna af þessum sökum og vegna umræðunnar um framkvæmdina.

„Ólíkt Gísla Marteini, þá fara margir til vinnu að morgni og úr vinnu að kvöldi. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að hvort sem fólk fari um á einkabílum eða strætisvögnum, þá séu gatnamót og götuvitar með þeim hætti að leiðin sé sem greiðust. Það er enginn að tala um hraðbrautir og það er enginn á móti greiðfærum gangstéttum.“

8. Fláræði bestu vina öreiganna

Harðar kjaradeilur stærstu verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins lituðu umræðuna á upphafsmánuðum ársins. Þótti mörgum nóg um hvernig verkalýðsforystan og afleiddar stjórnmálahreyfingar töluðu á þeim tíma og hvert aðgerðir þeirra beindust.

„Það kemur samt nokkuð á óvart að hin nýsósíalísku verkalýðsfélög Gunnars fimmblaða-Smára Egilssonar ráðist sérstaklega á hótel og gistiheimili. Nýsósíalistarnir eru alla daga að reikna umframhagnað eða umframrentu á kostnað launafólks með þeim sömu Excel-göldrum og best gáfust á velmektardögum kraftaverkamanna Útrásarinnar. En það er enginn hagnaður í þessum rekstri í dag. Ekkert frekar en hjá rútufyrirtækjunum. Þessi fyrirtæki voru í blómlegum rekstri og í blússandi fjárfestingarfasa þar til krónan styrktist verulega og draga tók úr fjölgun ferðamanna.“

9. Tunglferðir Kristjáns í Hvalnum og VG

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf á árinu út skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða en skýrslan þótti nokkuð umdeild. Íhugaði stofnunin um skeið að draga skýrsluna til baka. Óðinn skrifaði um skýrsluna og umræðuna sem henni fylgdi.

„Umhverfisráðherra tókst hins vegar að fara enn fjær aðalatriðum skýrslunnar og sakaði skýrsluhöfunda um að líkja náttúruverndarsamtökum almennt við hryðjuverkasamtök. Það er einfaldlega rangt og óskiljanlegt að fréttamaður Ríkisútvarpsins skuli ekki hafa rekið þvæluna ofan í ráðherrann, en af orðaskiptunum er ekki ljóst hvort aðeins annar eða hvorugur þeirra hefur lesið skýrsluna. Forsætisráðherrann tók síðar undir þessar rangfærslur.“

10. Reykjavíkurborg og Bragginn Winston

Bragginn í Nauthólsvík var Óðni hugleikinn um tíma en það sama gilti um alla útsvarsgreiðendur í Reykjavíkurborg og víðar. Málið þótti, og þykir enn, hið vandræðalegasta fyrir borgina. Í upphafi árs kom út skýrsla innri endurskoðunar borgarinnar um efnið og gerði Óðinn hana að umtalsefni. Um það sagði hann meðal annars:

„Það var pólitísk ákvörðun að endurbyggja braggann að Nauthólsvegi 100. Það er ekki nokkur vafi að það er auðveldara að fá samþykki fyrir endurbyggingu á bragga ef áætlunin hljóðar upp á 152 m.kr. heldur en 425 m.kr. Til að setja þetta í samhengi þá var áætlaður kostnaður á fermetra svipaður og kostar að byggja meðalstóra íbúð, eða 337 þúsund kr. Hins vegar var endanlegur kostnaður 945 þúsund kr. sem er hærri kostnaður en áætlað er að fimm stjörnu hótelið við Hörpu muni kosta.“

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.